05.05.1976
Sameinað þing: 84. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3647 í B-deild Alþingistíðinda. (2981)

318. mál, utanríkismál

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir að flytja hér á Alþ. skýrslu um utanríkismál, svo sem hann hefur nú gert. Þá lýsi ég einnig ánægju minni yfir því að skýrslan var að þessu sinni lögð fram það snemma á þingi að gott tækifæri hefur gefist til að lesa hana og athuga og sæmilegur tími ætti að verða að þessu sinni til að ræða utanríkismálin nokkuð ítarlega, svo sem æskilegt og raunar sjálfsagt er. Þetta segi ég algerlega án tillits til innihalds skýrslunnar og án tillits til utanríkisstefnu hæstv. ríkisstj., en að þeim efnum kem ég síðar.

Víðast hvar á þjóðþingum nálægra ríkja eru utanríkismál ólíkt fyrirferðarmeiri og oftar á dagskrá en hér. Hér á Alþ. er þó um breytingu að ræða til bóta frá því sem áður var, fyrir t.a.m. 16–15 árum þegar viðburður mátti heita ef eiginlegar rökræður eða málefnalegar umr. áttu sér stað um utanríkismál. Sá háttur, sem á hefur verið hafður nú um nokkurt skeið, að utanrrh. leggi fyrir Alþ. skýrslu um utanríkismál og síðan fari fram umr. um hana, er vissulega góðra gjalda verður og ætti að ákveðast með lögum eitthvað í þá átt sem frv. mitt um breytingar á þingsköpum Alþ. kveður á um. Vona ég að það mál fái jákvæða afgreiðslu nú á þessu þingi og tel mig vita að hæstv. utanrrh. er því meðmæltur. Einkum tel ég mikilvægt að festa í lög að skýrsla utanrrh. skuli lögð fram og rædd á hentugum tíma þegar þm. geta gefið sér eðlilegt tóm til að fjalla um utanríkismálin og utanríkisstefnu ríkisstj. hverju sinni. Slíkar umr., ef efnisríkar og málefnalegar eru, tel ég ekki síður mikilvægar en margt það karp um misjafnlega veigamikil alinnlend málefni sem hér eru á dagskrá flesta þingdaga.

Frv. mitt, sem að því hnígur að festa í sessi árlegar umr. um utanríkismál og tryggja þeim algert lágmarksrúm í þinghaldinu hverju sinni, er engan veginn flutt að tilefnislausu. Það er staðreynd að þessi árlega umr, um utanríkismál hefur verið hornreka og að henni hefur verið þrengt á ýmsar lundir. Er þess skemmst að minnast að í fyrra fór umr. fram að kvöldlagi, en aðalfundartíminn fór þá í karp um misjafnlega merkileg innanlandsmál, sum heldur rýr í roði. Hygg ég að það hafi verið fleiri en ég sem veittu því athygli að líklega vegna tímasetningar umr. um utanríkismál í fyrra sögðu ríkisfjölmiðlarnir, útvarp og sjónvarp, sáralítið frá þessum umr. Mætti þó ætla að grg. utanrrh. um utanríkismál landsins væri þess virði að gera henni skil á borð við fsp. um brú eða veg, þó að maður nefni ekki viðhorf okkar óbreyttra þm., sem þátt tökum í slíkum umr., til alþjóðamála og mat á utanríkismálastefnu ríkisstj.

Ég vil í framhaldi af þessum orðum þakka hæstv. forseta Sþ. fyrir að verða nú í dag af myndarskap við þeim tilmælum að ætla þessari umr. eðlilegt rúm í dagskránni. En þrátt fyrir það að svo sé í dag tel ég fulla þörf á að setja fastar reglur um þessa utanríkismálaskýrslu og umr. um hana í líkingu við það sem lagt er til í frv. mínu um þingsköp.

Eins og ég sagði áðan er mér um það kunnugt að á þjóðþingum annarra Norðurlanda t.a.m. eru utanríkismál ólíkt oftar til umr. en hér hjá okkur. Að sumu leyti eru sjálfsagt til á þessu eðlilegar skýringar, þ. á m. sú, að stærri og efnaðri þjóðir en við erum koma miklu víðar við sögu á vettvangi utanríkismála. Þær eiga t.a.m. aðild að langtum fleiri stofnunum Sameinuðu þjóðanna en okkur reyndist kleift. Aðstoð frændþjóðanna við þróunarlöndin er miklu meiri og fjölþættari en okkar og þannig mætti lengi telja. En þrátt fyrir þennan mun, sem ég viðurkenni að sjálfsögðu að er verulegur, tel ég ýmislegt mæla með því að Alþ. íslendinga ætli umr. um utanríkismál nokkru meira rúm hér eftir en hingað til og bindi þær þá ekki einungis eða mestmegnis við einn dag á ári, daginn sem skýrsla utanrrh, er rædd.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því að norðmenn t.a.m. hafa gert það að fastri reglu hjá sér að rökræða í Stórþinginu einn dag á ári norræna samvinnu og þá einkum þau mál sem ofarlega eru á baugi hjá Norðurlandaráði. Þessi umr. fer jafnan fram skömmu fyrir þing Norðurlandaráðs hverju sinni. Síðast átti slík umr. sér stað í Stórþinginu 24. febr. s.l., en Norðurlandaráðsþing var haldið í Kaupmannahöfn fáum dögum siðar. Umr. þessi í Noregi fer fram á grundvelli skýrslu eða grg. ríkisstj. um norrænt samstarf. Mér er ekki kunnugt um hvort umr. af þessu tagi eru í eins föstu formi annars staðar á Norðurlöndum eins og er í Noregi.

Ég tel vel koma til greina að taka hér upp hinn norska sið, að fjalla undir sérstökum dagskrárlið um margþætta og vaxandi starfsemi Norðurlandaráðs. Ætti slík umr. að fara fram eftir að Alþ. hefur kosið fulltrúa í Norðurlandaráð, en nokkru áður en Norðurlandaráðsþing hefst. Gæti það orðið fulltrúum nokkurt vegarnesti, enda þótt ég telji ekki rétt að Alþ. fari inn á þá braut að gefa þeim bein fyrirmæli um afstöðu til mála. Raunar verður að teljast eðlilegt að skýrslugerð og frumkvæði um umr. um mál Norðurlandaráðs komi frá íslenska samstarfsráðherranum, en ekki utanrrh., þ.e.a.s. þá frá hæstv. forsrh. eins og nú standa sakir.

Mér þótti ástæða til að vekja athygli á þessu. Gæti það þá verið til athugunar hjá þingflokkum og ríkisstj. hvort ekki væri rétt að taka upp þann hátt að ræða norrænt samstarf og þá einkum samstarfið innan Norðurlandaráðs undir sérstökum dagskrárlið einu sinni á þingi hverju.

Í ræðu minni í fyrra um skýrslu hæstv. utanrrh. fjallaði ég nokkuð ítarlega um starfshætti utanrmn. og mun ekki endurtaka nema fátt af því sem ég vék að þá. Enn sem fyrr er mér ljúft að þakka hæstv. utanrrh. fyrir góða samvinnu við n. og þann trúnað sem hann hefur sýnt n. og ég hygg að aldrei hafi komið að sök, heldur miklu fremur eytt eða fyrirbyggt tortryggni sem ella kynni að hafa skotið upp kollinum. Það telst og til góðra og þakkarverðra nýmæla að nú um nokkurt skeið hefur utanrmn. fengið ársskýrslur allra íslenskra sendiráða og skýrslur eða grg, um flesta meiri háttar fundi eða ráðstefnur sem utanrrn.á aðild að. Þá er það og nýjung að sendiherrar okkar eru teknir að koma á fundi í utanrmn. þegar því verður við komið, segja þar tíðindi og sitja fyrir svörum. Tel ég þetta allt vissulega til bóta, enda þótt mér þyki enn skorta allmikið á að utanrmn. starfi með þeim sjálfstæða hætti sem æskilegt væri og efni ættu að geta staðíð til. Vel veit ég það, að n. er fyrst og fremst ráðgefandi í utanríkismálum, en meiri hl. Alþ. og ríkisstj. hverju sinni mótar stefnuna. En jafnframt er utanrmn., a.m.k. þegar þing er ekki að störfum, tengiliðurinn milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds og þangað geta stjórnvöld væntanlega oft sótt vísbendingu um afstöðu þingflokka til einstakra mála.

Það á sér enn stað í vissum tilvikum að ríkisstj. tekur mikilvægar ákvarðanir í utanríkismálum og mótar þar ákveðna stefnu án þess að hafa lagt málin áður fyrir utanrmn, og leitað álits hennar, svo sem lög mæla fyrir um og skylt er að gera. Fram skal tekið að langtum minni brögð eru að þessu í ráðherratíð hæstv. núv. utanrrh. en áður var, en þó kemur það fyrir. Síðasta tilvik af þessu tagi átti sér stað í vetur þegar hæstv. utanrrh. var veikur og í sjúkrahúsi. — Þar eð mér er kunnugt um að hæstv. ráðh. hefur haft og vill hafa gott samstarf við utanrmn., geri ég þetta ekki að frekara umræðuefni nú. Ég vil hins vegar enn leggja á það áherslu, og þá öðrum hæstv. ráðh. til áminningar, að lögum samkv. skal ríkisstj. bera undir utanrmn. mikils háttar ákvarðanir í utanríkismálum áður en þær eru teknar. Enginn dregur í efa að ákvarðanatakan er í höndum ríkisstj. og þá Alþ. þegar því er að skipta, en hafa ber jafnan samráð við utanrmn.

Vík ég þá að hinni ítarlegu skýrslu hæstv. ráðh. Við hana hef ég ýmsar aths. að gera svo og hugleiðingar fram að færa í tilefni af henni. Það er staðreynd, að mat mitt og hæstv. utanrrh, á þróun sumra þátta alþjóðamála er ekki hið sama. Fer nú vafalaust svo, eins og oftast vill verða í rökræðum, að ég kem til að verða mjög fáorður eða jafnvel þögull um þá þætti skýrslunnar sem ég er sammála eða hef engar umtalsverðar aths. við að gera, en ræði einkum hitt, þar sem um ágreining eða verulega ólík áhersluatriði er að ræða.

Skýrslan hefst á hugleiðingum hæstv. utanrrh. um þróun alþjóðamála undanfarin missiri og einkenni þeirra nú. Sú mynd, sem hæstv. ráðh. bregður þar upp, þykir mér vera í daufara lagi og eins og dálítið hornskökk. Hann nefnir lítt eða ekki það sem að mínum dómi einkennir öðru fremur þá þróun sem á sér greinilega stað um þessar mundir víða um lönd og er nú tekin að setja vaxandi svipmót á Evrópu. Undirokaðar þjóðir halda áfram að berjast fyrir frelsi sínu og sjálfstæði. Hinn heimssögulegi viðburður, þegar þjóðin í Víetnam vann úrslitasigur í langvinnri og ógnþrunginni styrjöld við Bandaríki Norður-Ameríku, mesta herveldi heims, og leppa þess herveldís, hefur haft gífurleg áhrif á alla framvindu mála víðs vegar um lönd. Undirokaðar þjóðir hrista hlekkina og sprengja þá af sér, nú síðast Angóla. Ríki þriðja heimsins, sem flest eru frumbýlingar að því er tekur til sjálfstæðrar þjóðartilveru, ganga í gegnum ýmsar eldraunir í baráttu sinni fyrir efnahagslegu sjálfstæði og öryggi. Þar er viða við ramman reip að draga og framtíðin sums staðar næsta ótrygg. En jafnt og þétt virðist þeim ríkjum fjölga í þessum heimshluta sem sannfærast um að sósíalismi af einhverri tegund sé hið eina þjóðfélagskerfi sem fært geti fólkinu í löndum þriðja heimsins bætt lífskjör og frelsi, komið nýfrjálsum ríkjum Asíu og Afríku á legg.

Í Evrópu á sér einnig stað um þessar mundir mjög athyglisverð breyting sem á vafalaust eftir að hafa mikil áhrif á þróun mála hér í álfu og allan gang heimsmála. Einn þátt þessarar breytingar nefnir hæstv. utanrrh. í skýrslu sinni, en minnist ekki á aðra. Hann nefnir umskiptin mikilvægu í Portúgal og vonir manna að lok einræðis á Spáni kunni að vera skammt undan. En það er einnig mjög einkennandi fyrir stjórnmálaþróun Evrópulanda nú, hversu sósíalistar og kommúnistar eru að eflast í mörgum þessara ríkja, hversu óháða og gagnrýna stefnu ýmsir öflugir kommúnistaflokkar, svo sem flokkarnir í Frakklandi og Ítalíu, hafa tekið upp gagnvart Sovétríkjunum, og síðast, en ekki síst hversu vaxandi tilhneigingar gætir víða um álfuna þess efnis að flokkar verkalýðshreyfingar og sósíalisma fari að vinna saman, hætti að berast á banaspjót, en gerist vopnabræður, hvort heldur er í stjórnarandstöðu eða sem sameiginlegir aðilar að ríkisstj. Þetta eru satt að segja mikil tíðindi og getur að mínu viti margt gott af þeim leitt í sambandi við alþjóðasamskipti og baráttu fyrir friði og afvopnun.

Ég var staddur í Danmörku í vetur þegar flestir helstu leiðtogar sósíaldemókrata í Evrópu héldu þar ráðstefnu og ræddu einkum afstöðuna til vinstri sósíalista og kommúnista, Ég fylgdist svo sem best ég gat með fréttum af þinginu, enda hlaut það að teljast næsta forvitnilegt sem þarna var að gerast. Einn íslenskur sósíaldemókrati sat fundinn, hv. 9. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, og fæ ég ekki betur heyrt og séð en þessi fundur hafi orðið honum eins konar niðurdýfingarlaug þar sem hann var endurskírður til sósíalisma. Ekki fara af því sögur hvort hv. 9. þm. Reykv. vitnaði þarna á þinginu um þá alvarlegu hrösun að hann var árum saman í bland við tröllin, starfaði með aðalflokki kapítalista í landi sínu og virtist hafa týnt niður flestum kenningum jafnaðarmanna. En svo áhrifamikið reyndist þinghaldið í Helsingör, að fullyrt er og mig langar til að hafa það fyrir satt að hv. 9. þm. Reykv. taki nú daglegum framförum í sósíalískum fræðum.

Ekki ríkir alls staðar ánægja með það ef flokkar verkalýðshreyfingar og sósíalisma í Evrópu taka að vinna saman. Svo einkennilega vildi til — eða var það e.t.v. ekki tilviljun? — að sömu dagana og fundur sósíaldemókrataleiðtoganna var haldinn í Danmörku átti Kissinger utanrrh. Bandaríkjanna erindi til Danmerkur, og hann var ekkert að liggja á því þá fremur en endranær að aukið samstarf sósíalískra flokka og hugsanlega aðild kommúnista að ríkisstjórnum í NATO-löndum væru að dómi Bandaríkjanna ótíðindi hin mestu og hroðalegt slys sem fyrir hvern mun yrði að koma í veg fyrir. Og það er vafalaust að þessi kenning bandaríska utanrrh. átti sér nokkra fylgismenn á sósíaldemókratafundinum. Var talið að helstur fánaberi þeirrar stefnu hafi verið Helmut Schmit, kanslari Vestur-Þýskalands. En ótvírætt mun það, að meira fylgi hafði stefna þeirra Mitterans — og er ekki óhætt að segja Gylfa? — sem byggist á því að aukið samstarf sósíalískra flokka sé ekki aðeins réttlætanlegt undir vissum kringumstæðum, heldur æskilegt og jafnvel nauðsynlegt. Og nú hafa þær fréttir borist hingað, ég held í gær eða fyrradag, að jafnvel Helmut Schmidt sé kominn á þá skoðun að það sé ekki heimsendir í nánd, eins og hann orðaði það, þótt kommúnistar yrðu aðilar að samsteypustjórn í einhverju NATO-ríki.

En það eru fleiri en bandaríkjamenn sem hafa áhyggjur þungar og líta á þessa þróun býsna alvarlegum augum, eins og það er vist kallað. Ég held að það sé ekkert launungamál að Rússar gera það líka og e.t.v. engu síður en bandaríkjamenn. Og skýringin liggur, held ég, í augum uppi. Um langt skeið hafa ráðamenn í Kreml leitast við að hafa sem sterkust tök á kommúnistaflokkum Evrópulanda, ekki aðeins sósíalísku landanna, heldur einnig svokölluðum bræðraflokkum í kapítalískum löndum. Með fáeinum undantekningum hefur þeim sovétmönnum gengið illa hin síðari ár að framkvæma þessa forræðisstefnu sína og þó aldrei verr en nú. Og þeir Kremlarbændur sjá það í hendi sér að sjálfstæðir og öflugir sósíalista- og kommúnistaflokkar Vestur-Evrópu koma til með að hafa mikil áhrif á sósíalísku löndin í Austur-Evrópu og verða þeim hvatning til aukins sjálfstæðis, aukinnar reisnar gagnvart Sovétríkjunum. Jafnvel kynnu þessir atburðir að hafa áhrif í Sovétríkjunum sjálfum.

Þá er það og ljóst að bæði bandaríkjamönnum og sovétmönnum stendur nokkurn veginn jafnmikill stuggur af umtalsverðum breytingum á því valda- og yfirráðakerfi sem þessi tvö risaveldi hafa komið sér upp og kosta kapps um að viðhalda, einatt í furðumiklu bróðerni þegar til kastanna kemur. Skipting mikils hluta heims í áhrifasvæði milli risaveldanna hefur verið staðreynd og hvort veldið um sig hefur talið sig þess umkomið, meira að segja litið á það sem rétt sinn að viðhalda þessari skiptingu og skakka leikinn á áhrifasvæði sínu ef því hefur þótt ástæða til. Ég tel ekki þurfa að nefna dæmi um þetta, þau eru svo alkunn. Ég held að einhver mikilvægasta breyting, sem nú er að gerast í veröldinni með nokkuð jöfnum, en þó heldur vaxandi þunga, sé sú, að æ fleiri ríki eru að losa sig undan yfirráðum og forsjá stórveldanna tveggja og hverfa inn á brautir sjálfstæðari stefnu, jafnt í innanlands- sem utanríkismálum. Og spá mín er sú, að stöðugt fleiri ríki muni á komandi árum, á allra næstu árum, leita að lausn þjóðfélagsvandamála sinna samkv. þeim leiðum sem liggja til sósíalisma. Þær leiðir geta verið ýmsar og mishratt verður sjálfsagt farið, en sú er rökstudd von mín og trú að í þessa átt miði. Og vitanlega er grundvallaratriði að hver þjóð velji sér sitt skipulagsform sjálf og þá einnig og ekki síður sína leið til sósíalisma.

Sjálfsagt má við því búast að öllum breytingum, sem verða á áhrifasvæðum risaveldanna hvors um sig, fylgi spenna, hótanir og jafnvel gagnaðgerðir af ýmsu tagi. En ég held að sú þróun, sem ég hef nú leitast við að lýsa stuttlega, verði ekki stöðvuð, og þegar til lengdar lætur er ég sannfærður um að hún leiði til góðs. Minnkandi áhrifamáttur og ægivald herveldanna og risaveldanna beggja er að mínum dómi skilyrði fyrir friðvænlegri horfum í batnandi heimi.

Því miður má gera ráð fyrir því að næstu mánuðir verði nokkrir óróleika- og taugaspennutímar á alþjóðavettvangi, ekki síst varðandi samskipti og samkeppni risaveldanna. Valda því m.a. og e.t.v. einkum forsetakosningar í Bandaríkjunum í haust og háværar kröfur herskárra íhaldsafla þar um að vígbúnaðarkapphlaupið verði hert, betur verði þjarmað að rússum og sósíalismi og kommúnismi hvarvetna barinn niður hiklaust og án miskunnar. Mun það síst bæta ástandið að afturhalds- og vopnabrasksmaðurinn Ronald Reagan vinnur nú stórsigur í hverjum kosningunum af öðrum og Ford forseti telur sér ógnað af haukunum svo nefndu til hægri. Þess vegna er hætt við að hann og hans lið auki nú heldur vopnaskak til þess að færa bandarísku þjóðinni sönnur á að þeir séu engir eftirbátar í krossferðinni gegn rússum og kommúnistum. Væntanlega gera rússar sér ljóst að sérstakt spennuástand ríkir í Bandaríkjunum fram að forsetakosningum eða fram yfir þær og láta ekki frýjuorð og jafnvel hótanir bandaríkjamanna hafa allt of mikil áhrif á gerðir sínar. Hvað sem um Bréznef karl má segja, held ég að hann sé ekki taugaveiklaður til muna og er það óneitanlega kostur á manni í hans stöðu.

Næsti kafli í skýrslu hæstv. utanrrh. fjallar um Sameinuðu þjóðirnar og síðasta Allsherjarþing þeirra og afstöðu Íslands til ýmissa mála á þinginu. Ég ætla að sleppa því að ræða þennan kafla skýrslunnar þar sem það verður gert af öðrum ræðumanni af hálfu Alþb. Þó get ég ekki látið hjá líða að fjalla lítið eitt um grg. þá á bls. 17 í skýrslunni, þar sem rætt er um samstarf Íslands og Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Þykir mér rétt í því sambandi að víkja að aðstoð Íslands við þróunarlöndin, en hæstv. ráðh. getur hennar að engu í skýrslu sinni. Ég held að það sé ekki ósennileg tilgáta að hæstv. ráðh. finni til þess alveg eins og ég að þar sé af litlu að státa og naumast hægt að fjalla um þau mál kinnroðalaust.

Þegar borið er saman framlag okkar til þróunarmála annars vegar og ásókn okkar í fjármuni Þróunarsjóðs Sameinuðu þjóðanna hins vegar megum við sannarlega blygðast okkar, íslendingar. Á Alþ. 23. mars 1971 var samþykkt löggjöf um aðstoð Íslands við þróunarlöndin. Hið sama ár var samkv. þessum nýsettu lögum kosin stjórn þeirrar stofnunar og skyldi hún hún hafa framkvæmdir mála með höndum. S.l. haust sendi þessi stjórn alþm. fjölritaða skýrslu um starfsemina frá upphafi og fram til þess tíma þegar skýrslan kom út. Í skýrslunni var einnig að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um vandamál þróunarlandanna og þátttöku Íslands og þó öllu heldur skort á umtalsverðri þátttöku í lausn þeirra. Taka vil ég fram að við stjórn þessarar stofnunar er ekki að sakast um það þótt hlutur Íslands liggi mjög eftir í þessum efnum. Stofnunin hefur haft yfir sáralitlum fjármunum að ráða og ég fæ ekki betur séð en þeir hafi yfirleitt verið vel notaðir og skynsamlega. Hér er við Alþ. og ríkisstj. eða réttara sagt ríkisstjórnir að sakast.

Aðstoð Íslands við þróunarlöndin hefur einkum verið látin í té í formi norræns samstarfs á þessu sviði. Hefur þar verið um að ræða greiðslu á framlagi Íslands til samnorrænna verkefna í Kenýa og Tanzaníu. Hafa og nokkrir íslendingar verið ráðnir til starfa í þágu þessara landa.

Í fyrrgreindri skýrslu stjórnar Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin er á bls. 27 og 28 að finna upplýsingar um framlög Íslands til þróunarlandanna annars vegar og framlög Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna til verkefna á Íslandi hins vegar. Árið 1975 nam framlag okkar til Þróunarsjóðs Sameinuðu þjóðanna — ég held að það hafi verið algert lágmarksskylduframlag — 9 millj. 600 þús. kr. Þá var framlag okkar til Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin 10 millj. kr. Á hinn bóginn hefur Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna á árunum 1972–1976 veitt Íslandi til ýmissa verkefna 1 millj. Bandaríkjadollara, 175 millj. kr. á núv. gengi, eða að jafnaði 200 þús. dollara á ári, en það er á núverandi gengi um 35 millj. kr. Þetta er það sem árlega hefur hrotið á borð íslendinga að undanförnu úr Þróunarsjóði Sameinuðu þjóðanna, tvöföld sú upphæð sem við höfum greitt til þróunarverkefna og Þróunarsjóðs. En eins og skýrsla hæstv. utanrrh. ber með sér höfum við auk þessa milljón dollara framlags með einhverju móti getað kríað út úr Þróunarsjóðnum 400 þús. dollara eða 70 millj. ísl. kr. til viðbótar og skuldum við nú Þróunarsjóði þessa upphæð. Og einhvers staðar las ég það í blöðum ekki alls fyrir löngu að einhverjir ágætir íslenskir menn voru að furða sig á því, að Þróunarsjóðurinn ætlaði nú að fara að kippa að sér hendinni og hætta jafnvel að greiða okkur þróunarstyrkinn. Það má vafalaust til sanns vegar færa að sitthvað sé vanþróað hér á landi, en þessi saga öll er vottur þess að efstur á blaði er þar líklega vanþróaður hugsunarháttur.

Í lögum um aðstoð Íslands við þróunarlöndin, 2. gr., 4. lið, segir á þessa leið, að verkefnið sé „að vinna á annan hátt að því að framlag íslendinga í þessu skyni“ — þ.e. til framkvæmda í þágu þróunarlanda — „nái sem fyrst því marki, sem samþykkt hefur verið á þingi Sameinuðu þjóðanna, að það nemi 1% af þjóðartekjum.“ Hér fer ekkert á milli mála. Sú stefna er mörkuð á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að ríki sem þess eru umkomin, keppi að því marki að leggja 1% þjóðartekna til þróunarhjálpar, Í íslenskum lögum er fimm ára gamalt ákvæði um það að Ísland setji sér þetta mark. Svíþjóð mun vera eina ríkið í veröldinni sem þegar á þessu ári nær þessu marki, að leggja fram 1% þjóðartekna til stuðnings við þróunarlönd, en nokkur ríki önnur munu þegar vera með um eða yfir 1/2%, t.d. Noregur með 0.6%. En hvar er nú Ísland í röðinni? Maður blygðast sín fyrir að segja frá því, svo aftarlega er það. Samkv. upplýsingum, sem ég hef aflað mér hjá Þjóðhagsstofnun, er talið að svo nefnd verg þjóðarframleiðsla, en við það mun almennt miðað í alþjóðlegum skýrslum um þjóðartekjur, hafi árið 1975 numið um 185 milljörðum kr. Framlag okkar til Þróunarsjóðs Sameinuðu þjóðanna nam, eins og ég sagði áðan, 9.6 millj. það ár og framlag til Aðstoðar við þróunarlöndin 10 millj. Samkv. þessum tölum er það rúmlega 10/00 — einn af þúsundi — sem við rausnuðumst til þess að leggja þarna af mörkum á síðasta ári. Og sagan er ekki þar með öll sögð. Ekki má gleyma því að það ár sóttum við í Þróunarsjóðinn nær tvöfalda þessa upphæð. Maður er gersamlega orðlaus. Og það er ákaflega skiljanlegt, að hæstv. utanrrh. hefur kosið að láta þögnina hylja sem mest af þessari átakanlegu sögu. Raunar skín það út úr orðum hans að hann er ekki ánægður með frammistöðu okkar íslendinga í þessu efni, en auðsætt er að hann hefur hlustað óþarflega fast á þá barlómsbumbu sem nú er barin sem ákafast um efnahagsörðugleika okkar íslendinga. Hæstv. ráðh. setur því markið ekki hátt þar sem hann kemst svo að orði í skýrslu sinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég skýrði frá því í skýrslu um utanríkismál á s.l. ári að þar sem styrkir Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna væru fyrst og fremst ætlaðir hinum fátækari þróunarlöndum hlyti það að vera kappsmál að Ísland stefndi að því að árlegt framlag þess yrði sem svari því sem stofnunin greiðir hérlendum aðilum. Svo hefur ekki orðið í framkvæmd. Og sem fyrr segir erum við nú í 400 þús. dala skuld við stofnunina umfram þá 1 millj. dala sem okkur var úthlutað.“

Mér finnst hæstv. utanrrh. vera hér allt of lítilþægur. Ég heiti nú á hann að taka forustu um það að því verði komið til leiðar þrátt fyrir allan íslenskan barlóm þessi missirin um peningaleysi að Ísland reki af sér slyðruorðið sem allra fyrst hvað þessi mál snertir og verði þar heldur veitandi en þiggjandi. — Læt ég svo útrætt um þetta vandræðamál að þessu sinni.

Þá vík ég að þeim hluta skýrslunnar, bls. 1822, sem fjallar um Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Grg. um stöðu hafréttarmála er í sjálfu sér glögg, en hún ber það með sér að hún er annaðhvort samin að meginstofni áður en fundir hófust í New York 15. mars s.l. eða þegar sú fundarlota var nýlega hafin. Þessum fundarhöldum í New York er nú að ljúka og er þó enn nokkur óvissa ríkjandi um það hvernig mál standa þegar upp er staðið og hvert framhaldið verður. Samkv. síðustu fréttum eru íslensku fulltrúarnir þó fremur bjartsýnir og er talið að vonir standi til þess að okkar mál standi vel og að framhaldsfundur verði í Genf í sumar, en þó er það ekki talið alveg vist. Raunar er það talið ósennilegt nú, eftir því sem mér er tjáð, að fundurinn í Genf, þótt haldinn verði í sumar og haust eða fram á haust, hann komist að heildarniðurstöðu um þessi mál, en raunar er réttast að spá sem minnstu um framvindu þessara mála. Þess mun nú skammt að bíða að maður fái fréttir af því hvernig þau standa nú í lok þeirrar lotu sem nú er að ljúka.

Ég hef heyrt þær raddir, og það er kannske ekki nema að vonum, sem mæla eitthvað á þessa leið: Ætlar þessari ráðstefnu um hafréttarmál aldrei að verða lokið? Er ekki verið að spila þarna einhverja lönguvitleysu sem aldrei tekur enda fyrr en þá einn góðan veðurdag að spilamenn eru orðnir svo leiðir að þeir standa upp og fara? — Og enn fremur er spurt: Er það ekki tilgangslaus sóun fjármuna íslenska ríkisins að vera að gera út tiltölulega fjölmenna sendinefnd á þessa ráðstefnu, þrjá, jafnvel fjóra embættismenn og sérfræðinga og fimm stjórnmálamenn þar að auki? — Um þetta hvort tveggja vil ég leyfa mér að fara örfáum orðum.

Undirbúningur Hafréttarráðstefnunnar hófst árið 1970. Ráðstefnan var formlega sett síðla árs 1973, en hún tók raunverulega ekki til starfa fyrr en í Caracas í Venezúela sumarið 1974. Síðan stóðu fundir í Genf í tvo mánuði vorið 1975 og nú er þriðju vinnulotu að ljúka í New York. Og hvert er nú verkefni þessarar ráðstefnu? Hversu líklegt er að hún hafi getað lokið því verkefni á mjög skömmum tíma? Verkefnið er í stuttu máli það að reyna að koma sér saman um sáttmála eða heildarlöggjöf á alþjóðamælikvarða um allt sem snertir 7/10 hluta af yfirborði jarðar, þ.e.a.s. heimshöfin öll og hafsbotninn, öll verðmæti sjávar og sjávarbotns, jafnt lifandi sem lífvana. Verið er að reyna að setja lög um fyrirhugaða hafsbotnsstofnun, starfshætti hennar og þing. Verið er að setja reglur um grunnlínur, um landhelgi, um landgrunn og um efnahags- eða auðlindalögsögu. Verið er að reyna að semja alþjóðalög um yfirráð yfir og eftirlit með vísindalegum rannsóknum, svo og um varnir gegn mengun sjávar. Reglur þarf að setja sem tryggja siglingafrelsi annars vegar og hagsmuni strandríkja hins vegar. Til umfjöllunar er lagabálkur um lausn deilumála. Um öll þessi viðamiklu og margþættu mál liggur nú fyrir frv. í mörgum köflum, um 400 gr. alls. Um margar þessar gr., jafnvel um heila kafla, hefur þegar náðst nær alger eða jafnvel alger samstaða, en um aðrar, sumar veigamiklar, hefur verið og er ágreiningur sem stöðugt er reynt að jafna. Þegar þess er gætt að allt frá upphafi hefur verið að því stefnt að ná heildarlausn með sem allra víðtækustu samkomulagi, helst algera samkomulagi allra þjóða sem sækja ráðstefnuna, þá er þarflaust að furða síg á því þótt þetta geysivíðtæka starf, sem þarna er verið að reyna að vinna og á mörgum sviðum er alger frumsmíð, taki nokkuð langan tíma.

Sá misskilningur virðist býsna algengur hér á landi að Hafréttarráðstefnan glími fyrst og fremst eða nær eingöngu við setningu laga og reglna um fiskveiðar og yfirráðarétt yfir fiskimiðum. En þetta er aðeins eitt af verkefnum ráðstefnunnar, að vísu eitt hinna veigameiri. En fáir aðrir en við íslendingar telja það langveigamesta verkefnið. Ástæðan er sú að leitun er á þjóð sem er háð fiskveiðum í jafnríkum mæli og við. Þegar færeyingar eru undanskildir kann ég ekki þá þjóð að nefna þótt leitað sé um veröld alla.

Þá vík ég aðeins að hinu atriðinu, sem ég hef séð gagnrýnt í blöðum, að við séum með allt of fjölmenna sendinefnd á Hafréttarráðstefnunni, það sé dýrt og þjóni engum tilgangi, nóg sé að svo sem þrír embættismenn og sérfræðingar fylgist með störfum þessarar ráðstefnu. — Ég er ekki sammála þessu. Í sambandi við ýmsa alþjóðafundi og ráðstefnur á sparnaðarsjónarmiðið fyllsta rétt á sér, en að því er tekur til Hafréttarráðstefnunnar, held ég, að það sjónarmið eigi ekki að sitja í fyrirrúmi. Þar er um svo mikilvæg mál að ræða fyrir okkur íslendinga að gera verður allt sem hægt er til að tryggja sem hagstæðasta niðurstöðu. Ég held líka að segja megi með fullum rétti að störf ráðstefnunnar hafi þegar borið — mjög mikilvægan árangur, og ég vona að hið sama megi segja um störf íslensku sendinefndarinnar. Á þessari ráðstefnu og á undirbúningsfundum hennar hefur dafnað og þróast hugtakið um 200 mílna auðlindalögsögu, og jafnvel þótt ráðstefnan færi út um þúfur eða næði ekki tilgangi sínum að fullu, þá stæði það eftir algerlega óhaggað að mikill meiri hluti ríkja heims fylgir nú 200 mílna auðlindalögsögu og hvert strandríkið á fætur öðru mun færa út einhliða á allra næstu missirum ef ekki verður komið allsherjarsamkomulag. Þetta er árangur sem náðst hefur að verulegu leyti á Hafréttarráðstefnunni og hann ber vissulega ekki að vanmeta.

Það er vissulega ánægjulegt til þess að vita, að allur þorri fulltrúa á Hafréttarráðstefnunni, þessari einhverri fjölmennustu alþjóðaráðstefnu sem haldin hefur verið, veit um og viðurkennir það forgönguhlutverk sem íslendingar hafa gegnt að því er tekur til fiskveiðilögsögu, fyrst með útfærslu í 12 mílur, þá í 50 mílur og Íoks í 200 mílur. Þessi forganga Íslands í útfærslumálum, algerlega einstæð í okkar heimshluta, hefur, það þori ég að fenginni reynslu að fullyrða, aflað Íslandi og íslendingum viðurkenningar og virðingar umfram flest annað. Í þessu sambandi þykir mér rétt að skýra frá því og leggja á það áherslu, að það er alger misskilningur, sem sumir virðast halda, að málsmetandi menn, t.a.m. á Hafréttarráðstefnu og víðar, áfellist okkur íslendinga fyrir deilurnar við breta og liggi okkur á hálsi fyrir að hafa ekki látið undan vopnuðu ofbeldi og samið. Ég fullyrði hiklaust að þessu er yfirleitt þveröfugt farið. Ef undan eru skildir fulltrúar örfárra ríkja virðist mér hins gæta miklu fremur, að þessi afstaða okkar þykir bera vott um manndóm og kjark. Í augum allra fulltrúa nýfrjálsra ríkja og margra annarra njótum við íslendingar álits og málstaður okkar stuðnings einmitt vegna þess að við höfum ekki Íátið breta kúga okkur. Það er gamla sagan um Davíð og Golíat sem rifjast upp fyrir mörgum og hitar um hjartarætur, ekki síst fulltrúum ríkja sem þekkja stórveldahroka og nýlendukúgun af eigin raun. Ég held að flestum fulltrúum Hafréttarráðstefnunnar sé ljóst að barátta íslendinga um yfirráðarétt yfir fiskimiðum sínum hefur verið og er barátta um líf og dauða. Hefðum við ævinlega látið undan bretum og samið við þá umtölulítið eða án átaka stæðum við ólíkt verr að vígi en við gerum á Hafréttarráðstefnunni nú. Það er manndómurinn sem borin er virðing fyrir. Það er þá fyrst þegar lítil þjóð vill taka áhættu og leggja eitthvað í sölurnar til að standa á rétti sínum sem aðrir veita því athygli hversu mikið er í húfi fyrir það fólk sem slíkt gerir. Þetta er okkar styrkur á Hafréttarráðstefnunni og meðal þjóðaleiðtoga, en síst af öllu veikleikamerki.

Næsti kafli í skýrslu hæstv. utanrrh. fjallar um landhelgismálíð og átökin við breta. Ég mun ekki ræða það mál að þessu sinni. Bæði mundi það lengja ræðu mína um of, er auk þess þrautrætt og þó löngum á dagskrá hér með ýmsu móti. Sný ég mér því beint að þeim kafla skýrslunnar, sem hefst á bls. 30 og fjallar um Norðurlandasamvinna. Um hann verð ég mjög stuttorður þar sem ég get tekið undir flest eða allt það sem hæstv. ráðh. segir um gildi norrænnar samvinnu. Hún eflist stöðugt á ýmsum sviðum, einkum þó að því er tekur til menningarmála, en einnig á vettvangi margvíslegra félagslegra samskipta. Mér hafa að vísu orðið það vonbrigði og ýmsum fleirum að hvorki að því er tekur til varnarmála né efnahagsmála hefur orðið um að ræða það samstarf og þá samstöðu norrænna þjóða sem nokkrar vonir stóðu til í upphafi. Enda þótt mismunandi viðhorf Norðurlandaþjóða til hernaðarbandalaga og aðild dana að Efnahagsbandalagi Evrópu torveldi mjög náið samstarf á þessum sviðum sem ég nefndi, er þó kleift að hafa samráð og samstöðu um utanríkismál og jafnvel um efnahagsmál að vissu marki. Og að því er tekur til efnahagssamvinnu er hægt að gera sér vonir um að hún geti vaxið á tilteknum sviðum. Er Norræni fjárfestingarbankinn nýi til vitnis um vilja Norðurlandaráðs í því efni.

Þá vil ég ítreka það, sem ég vék að fyrr í ræðu minni, hvort ekki kunni að vera rétt og tímabært að ræða árlega á Alþ. norrænt samstarf og þá einkum þau mál sem efst eru á baugi hjá Norðurlandaráði hverju sinni. Færi best á því að slík umr. yrði á grundvelli skýrslu frá íslenska samstarfsráðh., og virðist henta vel að velja til slíkrar umr. vikurnar á undan þingi Norðurlandaráðs hverju sinni.

Næstu tveir kaflar í skýrslu hæstv. ráðh, fjalla um Evrópuráðið og viðskiptasamninga Íslands við aðrar þjóðir áríð 1975. Um þessi efni ætla ég ekki að ræða, en sný mér beint að kafla sem hefst á bls. 36 og ber heitið: Öryggismál.

Þar er fyrst greint frá því hvernig til hefur tekist um framkvæmd viðbótarsamnings þess við Bandaríkin sem hæstv, núv. ríkisstj. gerði nálægt upphafi valdaferils síns. Er hæstv. utanrrh. hæstánægður með horfur í þeim efnum, og það er raunar hvergi í allri skýrslunni nema á þessum stað sem hinn hógværi ráðh. gerist töluvert rogginn og finnst heldur en ekki til um frammistöðu sína og sinna manna. Í skýrslunni segir ýmist, að umsamdar framkvæmdir gangi að óskum eða samkv. áætlun. Þarna kemur fram að mikið er um byggingarframkvæmdir á vellinum, og er gert ráð fyrir að fyrir árslok 1978 verði búið að reisa tæpar 500 nýjar íbúðir á vallarsvæðinu. Þá virðist unnið að því nokkuð ötullega að íslendingar taki að sér æ fleiri þjónustustörf í þágu hersins. Íslenskir menn annast nú þjónustu við farþegaflug hins svo nefnda varnarliðs, og á döfinni er að innfæddir sjái einnig um vöruafgreiðslu fyrir liðið. Þá virðist hæstv. ráðh. vera hæstánægður með það hvernig veríð er að hræra saman með flestu hugsanlegu móti almannavörnum ríkisins og ýmiss konar björgunarstarfsemi og slysavörnum annars vegar og setuliðinu bandaríska hins vegar. Allt þykir mér þetta, sem lesa má um á bls. 36 og 37 í skýrslunni, heldur óskemmtilegur lestur og bera vott um að verið er markvisst og með sameiginlegu átaki bandarískra og íslenskra stjórnvalda að festa ameríska herinn í sessi á Íslandi, búa honum notalega vist og fjölga íslenskum þjónum sem snúast í kringum fyrirfólkið. Það verð ég að segja, að þetta er heldur ömurlegur áfangi á hlykkjóttri braut Framsfl. í herstöðvarmálinu. Á ég bágt með að trúa að herstöðvaandstæðingar í þeim flokki, og þeir eru sem betur fer margir, telji þetta æskilega þróun. Mundi það ekki sannast sagna að vegna herstöðvamálsins og fjölmargra mála annarra sé nú mörgum framsóknarmanni orðin leið dvölin í Heiðnabergi íhaldsins og þrái þá stund að flokkur hans mætti losna úr prísundinni?

Herra forseti. Ég hef nú lokíð við að fjalla um þau atriði í skýrslu hæstv, utanrrh, sem ég hyggst gera að umræðuefni að þessu sinni. Hins vegar eru nokkur atriði utanríkismála, sum mikilvæg, sem ekki er fjallað um í skýrslunni, en full ástæða væri til að gera hér að umræðuefni. Þar sem ég er þegar orðinn nokkuð langorður og aðrir ræðumenn eiga fullan rétt á því að flytja mál sitt á skaplegum tíma dags mun ég aðeins víkja að örfáum atriðum og reyna að stytta mjög mál mitt.

Skýrslur þær, sem nú hafa verið birtar bæði af bandarískri og íslenskri hálfu um könnunarviðræður ráðamanna þessara þjóða í marsmánuði árið 1949, bregða um sumt nýju ljósi á aðdragandann að inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið. Ætti það nú naumast að þurfa að vefjast fyrir neinum, sem vill vita hið rétta, hver var annar aðaltilgangurinn með aðild Íslands að bandalaginu og komu Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvöll tveim árum síðar. Formælendur aðildar Íslands að NATO og formælendur bandarískra herstöðva hér hafa löngum hamrað á því að tilgangurinn hafi verið að tryggja Ísland gegn hugsanlegri innrás rússa. Nú er engum blöðum um það að fletta lengur að í sambandi við væntanlega NATO-aðild bollalögðu amerískir og a.m.k, ákveðnir íslenskir ráðamenn um byltingaöfl í landinu sjálfu, um að kommúnistar gætu hrifsað til sín völdin hvenær sem væri, um að íslenska lögreglan væri allt of fámenn og þar þyrfti skjótlega og myndarlega úr að bæta, Það liggur nú fyrir skjallega sannað að það var umræðu- og áhyggjuefni nafngreindra íslenskra og bandarískra ráðamanna hvernig alið yrði á tortryggni meðal íslendinga svo að þeir fengjust til að trúa því að ekki óverulegur hluti þjóðarinnar, íslenskir sósíalistar, ætlaði að svíkja hana í hendur erlendu valdi. Hafa bandaríkjamenn séð að síðan yrði auðveldara að nota andrúmsloft ótta og tortryggni til að fá íslendinga til að hleypa erlendum her inn í landið. Öll eru þessi gögn býsna fróðleg, ekki aðeins séð í sögulegu ljósi, heldur til að glæða skilning á eðli íslenskrar NATO-aðildar og hersetu og að glæða skilning á eðli bandarískrar utanríkisstefnu fyrr og síðar.

Það, sem ég tel öðru fremur skorta í skýrslu hæstv. utanrrh., er tilraun til að vega og meta þá strauma og þær stefnur í alþjóðamálum sem mest gætir um þessar mundir og á hvern hátt breyttir tímar kynnu að geta haft áhrif á utanríkisstefnu íslendinga. Við byggjum veröld, sem háð er stöðugum breytingum, og hljótum á hverjum tíma að leitast við að gera okkur grein fyrir stöðu okkar í hringiðu atburðanna. Fyrr í ræðu minni fjallaði ég nokkuð um þessi efni frá mínu sjónarmiði og læt við það sitja.

Að lokum vil ég segja þetta: Flokkur minn, Alþb., er engum háður öðrum en félagsmönnum sínum, íslensku alþýðufólki sem hefur öðlast þá lífsskoðun að sósíalismi samfara lýðræði sé það þjóðskipulag sem vert sé að berjast fyrir. En Alþb. viðurkennir einnig mikilvægi þeirrar baráttu — og telur hana mál dagsins í dag — sem snýst um það að treysta stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslands og íslenskrar alþýðu. Það er af þessum sökum sem Alþb. hefur barist og mun berjast af alefli fyrir fullum sigri íslendinga í landhelgismálinu. Það er af þessum sökum sem Alþb. spyrnir fast gegn vaxandi ítökum og áhrífum erlendra auðhringa á íslenskt atvinnulíf og hagnýtingu íslenskra auðlinda. Það er af þessum sökum sem Alþb. heldur áfram af vaxandi þunga baráttunni fyrir úrsögn Íslands úr NATO, fyrir brottför alls herliðs héðan og fyrir afnámi herstöðva. Ég hef þá bjargföstu sannfæringu að þessi barátta verði árangursrík á komandi árum. Þá skoðun mína hyggi ég ekki síst á því að þessi stefna er hin eina sem tryggt getur þjóðfrelsi og búið í haginn fyrir alþýðuvöld í auðvalds stað á Íslandi.