05.05.1976
Sameinað þing: 84. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3681 í B-deild Alþingistíðinda. (2986)

318. mál, utanríkismál

Vilborg Harðardóttir:

Herra forseti. Sá kafli í skýrslu hæstv. utanrrh., sem vakið hefur mesta athygli mína, er sá sem ber heitið Öryggismál og fjallar um bandaríska herliðið á Keflavíkurflugvelli og samskipti þess við íslenska aðila. Þar kemur fram, eins og reyndar aðrir hv. þm. hafa bent á hér, að sífellt er verið að festa þennan her Í sessi með æ meiri byggingarframkvæmdum, og greinilega er unnið markvisst að síauknu samstarfi íslenskra aðila við herinn og það mikilvægra aðila eins og þeirra sem fara með flugmál, almannavarnir og meira að segja landhelgisgæsluna. Allt þetta býr í haginn fyrir herinn og er auðvitað rétt einn liðurinn Í þeim áróðri sem lævíslega er verið að reyna að læða að þjóðinni, þeim áróðri sem beinist að því að grafa undan trú hennar á sjálfa sig og eigin getu og beinist að því að koma fólki til að halda — já, helst trúa því að herinn sé okkur ómissandi.

Það er svo sem skiljanlegt að hæstv. utanrrh. og hans flokkur reyni að hafa eitthvað sér til afsökunar, reyni að útskýra á einhvern hátt skoðanabreytingu sína frá því að þeir störfuðu í vinstri stjórn og þóttust ætla að vinna að því að láta herinn fara. Út af fyrir sig má kannske þakka hæstv. utanrrh. að segja þó þetta mikið, skýra þjóðinni þó frá þessu af því, sem er að gerast á Keflavíkurflugvelli. En þó eru sumir hlutir sem vantar algerlega í þessa skýrslu, enda voru þetta bara „örfá orð,“ tvær bls. í skýrslunni, þessi svokölluðu öryggismál. Það, sem hér vantar, eru efnahagslegu áhrifin. Það er ekki nóg að segja hve margir íslenskir starfsmenn starfi á vegum varnarliðsins. Það væri gaman að fá að vita líka, hvað margir íslenskir starfsmenn starfa óbeint á vegum hersins, starfa hjá íslenskum fyrirtækjum sem hafa þarna atvinnurekstur og byggja lífsafkomu sína á þessum her. Það væri mjög fróðlegt fyrir íslendinga að heyra hve mikill hluti af þjóðartekjunum kemur frá þessum atvinnurekstri. Og sérstaklega væri einkar fróðlegt að heyra hve miklar tekjur fyrirtæki eins og SÍS, Reginn eða ESSO hafa þarna á Keflavíkurflugvelli. Allt þetta vantar í þessa skýrslu. Ég vil beina því til hæstv. utanrrh. hvort hann geti ekki gefið okkur meiri upplýsingar um efnahagsleg áhrif af hernum. Ég er alveg viss um að ef hann vildi, þá gæti hann þetta, og ég vænti þess að hann svari a.m.k. einhverju um þetta og ef ekki nú, að það komi þá seinna og í síðasta lagi í næstu skýrslu hans.