10.11.1975
Neðri deild: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

41. mál, söluskattur

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Forseti. Ég skal nú ekki hafa mörg orð um þetta litla frv., sem hér liggur fyrir. Ég vil segja það sem mína skoðun að ég tel hugmyndina, sem þarna kemur fram, vissulega góðra gjalda verða. Hitt er svo annað mál, að ég get tekið undir það með hv. þm. Lárusi Jónssyni, að svo stóru máli sem hér er hreyft, þá er till. allt of tóm af upplýsingum um hvað þetta raunverulega þýðir, og þá á ég fyrst og fremst við í tekjutapi fyrir ríkissjóð sem ekki er bent á neinar leiðir til þess að koma á móti.

Eitt söluskattsstig er, að ég held, áætlað nokkuð á annan milljarð. Og ég gæti ímyndað mér fljótt á litið, án þess að ég hafi gert tilraun til þess að reikna þetta út, að þetta mundi þýða hátt í milljarð af tekjum sem ríkissjóður mundi missa með þessu móti. Mér finnst engu síður ómaksins vert fyrir þá hv. n., fjh.- og viðskn. væntanlega, sem fær þetta til meðferðar, að íhuga gaumgæfilega hvort með öðru móti væri hægt að jafna þótt ekki væri nema að nokkru leyti þann mikla mun sem er óneitanlega á framfærslukostnaði úti á landi og hér í þéttbýlinu suðvestanlands. Að vísu mun það vera nokkuð mismunandi, það er rétt. Ég hygg þó að þessi kjördæmi eða þessir landshlutar, sem þarna eru til teknir, séu nokkuð mikið í sama báti hvað þetta snertir. Og það er engum blöðum um það að fletta að þessi aukni framfærslukostnaður, miðað við stóran hluta landsins, á sinn þátt í því að það er óbyggilegra fyrir fólk úti á landsbyggðinni.

Ég vil segja það og taka undir orð hv. flm., að mér sýnist að þessi leið, þó að ég sé ekki að segja að ég gæti gengið inn í hana að lítt athuguðu máli, sé að mörgu leyti einfaldari heldur en stofnun nýs sjóðs, vöruflutningajöfnunarsjóðs, sem margoft hefur verið talað um og ekki komist í framkvæmd nema þá einna helst hvað varðar flutning á sementi. Ég veit ekki annað en þar gildi viss vöruflutningajöfnun. Og ég held líka að fólk, sem aldrei hefur búið á landsbyggðinni, geri sér hreinlega ekki grein fyrir því að þarna er um mikla mismunun að ræða sem kemur beinlínis fram í hærra vöruverði.

Það var reiknað út í sambandi við fsp. hér á Alþ. í fyrra að í vissum landshlutum leggjast á hvert kg af sekkjavöru um það bil 9 kr. þar sem hæst er. Þetta er náttúrlega enginn smáræðis aukaskattur sem leggst á fólk sem lengst þarf að sækja sínar lífsnauðsynjar, og því er það að mér finnst knýjandi að veita þessu máli athygli og reyna eftir einhverjum leiðum að koma þarna til jöfnunar. Ég veit að núna, jafnóbyrlega og blæs í okkar efnahagsmálum, er kannske ekki nákvæmlega rétti tíminn. En að þessum málum þurfum við að hyggja, það er enginn vafi á því. Og ef okkur er alvara í okkar tali um byggðajöfnun og búsetujöfnun, þá er mál eins og þetta fyllilega þess vert að gefa því gaum.

Við skulum t. d. taka einnig símaþjónustuna, sem hv. flm. nefndi líka. Það munar engu smáræði á símagjöldum úti um landið og hér á suðvestursvæðinu. Og það ber allt að sama brunni. Ég vil þess vegna mælast til að þessu frv. verði tekið með velvilja og því sýnd nauðsynleg athugun, ef ske kynni að hægt væri á þeirri grundvallarforsendu, sem þarna liggur á bak við, að koma á einhvern hátt til móts við þann hluta landsmanna sem býr vissulega og óneitanlega við þennan aðstöðumun.