10.05.1976
Neðri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3903 í B-deild Alþingistíðinda. (3217)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þetta frv. er býsna síðbúið. Það er alkunna að þegar hæstv. núv. ríkisstj. tók við völdum, þá lýsti hún yfir þeirri áætlun sinni að flytja frv. til l. um breyt. á Framkvæmdastofnun ríkisins sem komið hafði verið á fót í stjórnartíð ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar. En síðan eru liðin næstum tvö ár, næstum tvö ár eru liðin síðan hæstv. núv. ríkisstj. tók við völdum, og fyrst nú sér frv. um breytingu á stjórn þessarar stofnunar dagsins ljós. Getur þetta varla borið vitni um annað en það að ekki hafi öllum í stjórnarflokkunum sýnst eitt og hið sama um meðferð þessa máls.

Þegar Framkvæmdastofnuninni var komið á fót á sinum tíma var flokkur minn, þingflokkur Alþfl., fylgjandi málinu í grundvallaratriðum. Hins vegar vorum við mjög ósáttir um stjórnarfyrirkomulag stofnunarinnar, kommissarakerfið svonefnda, þar sem gert var ráð fyrir því að 3 menn, skipaðir af ríkisstj. og þá væntanlega einn frá hverjum stjórnarflokkanna eins og raun varð á, skyldu verða valdamestu mennirnir innan stofnunarinnar og þannig stjórnmálaáhrif innan hennar óeðlilega mikil.

Þingflokkur Sjálfstfl, gagnrýndi einnig mjög sterklega þetta stjórnarfyrirkomulag og gekk raunar mun lengra en við í Alþfl., vegna þess að Sjálfstfl. snerist gagngert gegn samþykkt þessa frv. á sínum tíma. Var því ekki óeðlilent að menn byggjust við því nú, eftir að Sjálfstfl. hafði tekið við stjórnarforustu, að hann beitti sér fyrir gagngerum breytingum á stjórn þessarar stofnunar og starfsemi hennar að ýmsu leyti. En engin breyting varð á stofnuninni, stjórn hennar og rekstri við valdatöku núv. hæstv. ríkisstj. Kommissörunum var fækkað úr þremur ofan í tvo, í staðinn fyrir að þar væru fulltrúar þriggja fyrrv. stjórnarflokka komu nú tveir fulltrúar núv. stjórnarflokka. Og nú eftir næstum tveggja ára umhugsunartíma er flutt frv. þar sem í raun og veru eru aðeins tvær nýjungar. Önnur er í 1. gr. þar sem gert er ráð fyrir stofnun byggðadeildar. Það er ákvæði sem ég tel vera skynsamleg og styð fyrir mitt leyti. En í 4. gr. eru ákvæði um skipan stjórnarinnar. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkv. till. stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins skipar ríkisstj. forstjóra er annast daglega stjórn stofnunarinnar. Á sama hátt skipar ríkisstj. framkvæmdastjóra áætlanadeildar, byggðadeildar og lánadeildar.“

Auðvitað er hér um að ræða bót frá því sem áður var, að ráðnir væru þrír forstjórar, þrír framkvæmdastjórar sem beinlínis var ætlað að vera pólitískir fulltrúar ríkisstj. innan stjórnkerfis Framkvæmdastofnunar ríkisins. En þannig vill til, hvort sem það er tilviljun eða ekki tilviljun, að af 3. gr. verður ekki ráðið hvort ríkisstj. ætlast til þess að þessir forstjórar verði einn eða tveir. Þannig vill til að þegar talað er um forstjóra, þá er þar auðvitað um þolfall orðsins forstjóri að ræða, en orðmyndin „forstjóra“ í þessu sambandi, ríkisstj. skuli skipa forstjóra, gæti verið bæði eintala og fleirtala. Nú langar mig til að beina þeirri fsp. til hæstv. forsrh. hvort orðið sé þarna í eintölu eða fleirtölu eða hvort framkvæma eigi þessa gr. í eintölu- eða fleirtölumerkingu orðsins forstjóri. Og svo skemmtilega vill til að í það eina annað skipti sem forstjórahugtakið er nefnt í frv., það er í 4. gr. frv., sem sagt við breytingar á 5. gr. laganna, þar gildir það sama. Þar er að vísu um að ræða eignarfallsmynd af orðinu forstjóri, en hún er líka „forstjóra“ bæði í eintölu og fleirtölu. Þar er talið hver verkefni forstjóra séu m.a. Hér gæti verið um að ræða einn forstjóra, tvo eða þrjá. Mér þætti mjög vænt um að fá það upplýst af hálfu hæstv. ríkisstj. hvað í þessu felst eða hvort á því er einhver sérstök skýring að ekki er tekið greinilega fram um það eða kemur í ljós hvort forstjórarnir eigi að vera einn, tveir, þrír eða jafnvel kannske enn þá fleiri, sem ég læt mér þó varla detta í hug.

Í frv. því, sem við þm. Alþfl. fluttum þegar á síðasta þingi og endurfluttum í upphafi þessa þings, vegna þess að okkur var farið að þykja nóg um þann drátt sem var á afgreiðslu málsins af hálfu hæstv. ríkisstj., kemur skýrt fram í 1. gr. frv. að við höfðum hugsað okkur einn forstjóra sem við kölluðum að vísu framkvæmdastjóra. En þar stendur: „Ríkisstj. skipar framkvæmdastjóra Framkvæmdastofnunar ríkisins er annast daglega stjórn stofnunarinnar.“ En svo kemur framhaldið sem tekur af öll tvímæli um að orðið er notað í eintölumerkingu. Þar segir: „Framkvæmdastjórinn og forstöðumenn deilda mynda framkvæmdaráð stofnunarinnar.“ Og það erum ekki aðeins við þm. Alþfl., sem vorum og erum þeirrar skoðunar að forstjórinn eða framkvæmdastjórinn eigi að vera einn.

Í brtt., sem fulltrúar Sjálfstfl. í fjhn. Nd, fluttu við frv. á sínum tíma þegar það var flutt og síðan lögfest, brtt. þeirra Matthíasar Á. Mathiesen núv, hæstv. fjmrh, og Matthíasar Bjarnasonar núv. hæstv. sjútvrh„ var svo hljóðandi ákvæði, með leyfi hæstv. forseta: „Að fengnum till. Framkvæmdastofnunar ríkisins skipar ríkisstj. forstj. stofnunarinnar.“ Hér gæti enn leikið vafi á við hvað væri átt. En það er tekinn af allur vafi í næstu setningu í áframhaldandi: „er hefur yfirumsjón með daglegum rekstri áætlanadeildar og lánadeildar“, ekki „hafa“, heldur „hefur“, svo að það tekur af öll tvímæli um að þarna hafa fulltrúar Sjálfstfl. í fjhn. hugsað sér að framkvæmdastjórinn væri aðeins einn, Það gæti verið tilætlunin með þessu frv. núna, en það er ekki ljóst af óljósu orðalagi frv. sem ég endurtek að ég væri þakklátur fyrir nánari skýringar á.

Ég skal endurtaka það að ég tel tvímælalaust til bóta að kommissarakerfið sé í grundvallaratriðum afnumið og ríkisstj. skipi yfirstjórn þessarar stofnunar. En ég vil líka láta það koma fram, að ég hefði talið eðlilegasta skipun, sem var skoðun Alþfl. og Sjálfstfl. á sínum tíma, að einn forstjóri væri þarna nægilegur. Ég vil láta þess getið, sem einnig var skoðun þingflokks Sjálfstfl. á sinum tíma, að æskilegt sé að hliðstæð skipun yrði hér höfð á og er orðið samkomulag um milli allra flokka, að ég hygg, varðandi stjórnina á bönkunum, að bankastjórasæti skipi ekki alþm. Ég skal fúslega viðurkenna að ekki væri eðlilegt að lögbinda neitt um þetta efni varðandi Framkvæmdastofnunina frekar en átt hefur sér stað varðandi bankana. En sú regla hefur reynst vera heilbrigð og skynsamleg að þm. skipi ekki bankastjórasæti, og þó um þessa grundvallarreglu hafi nokkuð verið deilt í upphafi, þá hygg ég allir séu núna orðnir sammála um að það fari ekki saman að gegna störfum á Alþ. annars vegar og stjórna peningastofnunum sem fara með útlánavald hins vegar, Og bið sama tel ég eiga við um Framkvæmdastofnun ríkisins sem er valdamikil lánastofnun að verulegu leyti.

Mér er ljúft að taka fram að með þessu á ég engan veginn við það að þeir tveir núv. þm., sem gegna framkvæmdastjórastörfum við Framkvæmdastofnunina, séu ekki fyllilega starfi sinn vaxnir. Mér er það alveg ljóst og vil að enginn misskilningur sé um það, að þessi skoðun í ekkert skylt við það að ég vantreysti þeim til starfa. Þvert á móti, ég treysti þeim til þessara starfa og annarra starfa sem eru jafnvandasöm og jafnvel vandasamari en hér er um að ræða. Hér er aðeins um grundvallarsjónarmið að ræða, það grundvallarsjónarmið að líta eigi á Framkvæmdastofnun ríkisins hliðstæða bankastofnunum sem þegar er orðið almennt samkomulag um að eigi ekki að vera stjórnað af mönnum sem jafnframt gegna skyldum sem alþm.

Ég læt þetta duga, en vænti þess að fá um það upplýsingar af hálfu hæstv. ríkisstj. hver fyrirætlun hennar er varðandi framkvæmd 3. gr. frv.