10.05.1976
Neðri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3913 í B-deild Alþingistíðinda. (3220)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir það sem hér hefur verið sagt, að frv. þetta um breyt. á l. um Framkvæmdastofnun ríkisins er seint á ferðinni. Það er kunnugt að hæstv. ríkisstj. hafði boðað strax á sínum fyrstu dögum að hún ætlaði sér að gera breyt. á l. um Framkvæmdastofnun ríkisins, en það hefur dregist allan þennan tíma eða í tæp tvö ár að koma þessu í verk.

Við vitum að ein meginástæða þess, að yfirlýsing var gefin um það í stjórnarsáttmálanum að lög um Framkvæmdastofnun ríkisins skyldu endurskoðuð, var að annar stjórnarflokkurinn, Sjálfstfl., hafði snúist mjög öndvert gegn lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins, deilt hart á þá löggjöf og lýst sig andvígan þeirri stofnun í meginatriðum. Flokkurinn vildi halda því fyrirkomulagi í öllum aðalatriðum sem hafði gilt áður en sú stofnun var sett á fót.

Nú kemur sem sagt loksins þetta endurskoðunarfrv. um Framkvæmdastofnun ríkisins og þá sjá menn hvaða breytingar á að gera á þessari löggjöf. Ég get ekki séð annað en það sé ljóst af þessu frv. hæstv. ríkisstj. að Sjálfstfl. hafi fallið frá mótmælum sínum gegn lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins. Hann fellst á það fyrirkomulag að halda því áfram og er ekki lengur með till. um að hverfa að eldra fyrirkomulaginu. Hann hefur hins vegar beitt sér fyrir því að fá fram nokkrar minni háttar breytingar á gildandi löggjöf, — ég segi minni háttar, því að það er ómögulegt að sjá annað en að það, sem felst í þessu frv., skipti sáralitlu máli. Þessar breytingar felast, að mér sýnist við fljótan yfirlestur, fyrst og fremst í því að nú er gert ráð fyrir að ,stjórn Framkvæmdastofnunarinnar eigi að ráða forstjóra fyrir stofnunina, einn eða fleiri. Það er ekki ljóst hversu margir þeir eiga að vera. En áður var það svo, að það var gert ráð fyrir því að ríkisstj. réði forstjóra þessarar stofnunar. Nú gefur það auðvitað alveg auga leið að þeir, sem standa að ríkisstj. á hverjum tíma, verða jafnframt í meiri hl. í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar og það eru nákvæmlega sömu aðilarnir sem þarna koma til með að ráða forstjóra og er hér aðeins aðferðamunur, en enginn eðlismunur. Ég tel líka af gamalli reynslu í þessum efnum að það væri nokkurn veginn gefið eftir því orðalagi, sem hér er á ferðinni, ef svo stæði á að stjórnarflokkarnir yrðu þrír, þá yrðu þessir framkvæmdastjórar líka þrír og ef stjórnarflokkarnir yrðu fjórir, þá yrðu framkvæmdastjórarnir eflaust fjórir, enda allt galopið í báðar áttir í þessum efnum í orðalaginu í frv. og hefur þar ábyggilega gamalreyndur, slunginn stjórnmálamaður, hv. 1. þm. Sunnl., kunnað að haga réttu orðalagi við þessa endurskoðun til þess að geta haldið til hverrar áttar sem hagstæðast væri. Þarna er því ekki um neina eðlisbreytingu að ræða. Þetta er aðeins smásýndarbreyting. Og Sjálfstfl. stendur jafnhlægilegur eftir sem áður ef hann ætlar að halda því fram að í þessu sé fólgin einhver breyting samkv. stefnu hans á þessari stofnun.

Þá er annað atriði sem finna má í breytingum, að ein af deildum stofnunarinnar, sem hefur alltaf verið kölluð áætlanadeild, nú á að kalla hana byggðadeild, en láta hana vinna nákvæmlega það sama. Þetta var ekki lítil stefnubreyting hjá Sjálfstfl., að fá fram nafnbreytingu á þessari stofnun! Hér er auðvitað ekki um neinar teljandi efnisbreytingar að ræða. Þessi byggðadeild er í rauninni, eins og kemur fram í grg. frv., sú deild sem kölluð hefur verið áætlanadeild og hefur starfað við stofnunina og eru ætluð í öllum meginatriðum sömu verkefnin. Hér er því líka um sýndarbreytingu að ræða að mínum dómi.

Svo kemur það atriði, sem í sjálfu sér er engin breyting varðandi þau deilumál sem uppi voru á sínum tíma varðandi lögin um Framkvæmdastofnun ríkisins, að nú er gert ráð fyrir því að taka inn í löggjöfina ákvæði um aukna tekjuöflun Byggðasjóðs í samræmi við það sem hæstv. ríkisstj. hafði gefið yfirlýsingar um og byrjað er að framkvæma. Það er auðvitað engin nauðsyn á því að setja þetta ákvæði í lög. Ef ríkisstj. hefur samið um þetta og gefur út tilkynningu um að tekjur sjóðsins skuli vera með þeim hætti sem nú hefur verið ákveðið, þá vitanlega gildir það. En það, sem þó vekur einkum athygli mína í þessum efnum fyrst menn fóru að taka þetta atriði upp og setja það inn í löggjöfina, það er að það skuli þá ekki vera farið eftir stjórnarsáttmálanum í þessum efnum, heldur tekið upp nýtt orðalag sem þýðir í rauninni allt annað. Í stjórnarsáttmálanum segir orðrétt: „Framlag til sjóðsins“ — þ.e. til Byggðasjóðs „nemi 2% af útgjöldum fjárlagafrv.“ En í frv. er þetta orðað á allt annan veg. Þá er nú sagt: „Framlag úr ríkissjóði, þannig að árlegt ráðstöfunarfé sjóðsins verði eigi lægra en sem svarar 2% af útgjöldum fjárl.“ Það er auðvitað augljóst mál að það stefnir að því að þetta orðalag þýði minni fjárveitingu til sjóðsins en stjórnarsáttmálinn hafði gert ráð fyrir, því að hann hafði gert ráð fyrir því að Byggðasjóður skyldi fá 2% miðað við útgjaldahlið fjárl. En nú er gert ráð fyrir því að draga frá þeirri upphæð það sem sjóðurinn á sjálfur til eigin ráðstöfunar. Hér á því að lögbinda nokkru lægra framlag en lofað hafði verið. Ég held að það hefði verið miklu betra fyrir hæstv. ríkisstj. að láta ógert að taka þetta upp í frv. til breyt. á l. um Framkvæmdastofnun fyrst hún tók það ekki nákvæmlega upp eins og segir í stjórnarsáttmálanum. En í þessum efnum tel ég heldur ekki vera um neina sérstaka meginbreytingu að ræða, því að það var búið að ákveða tekjur sjóðsins í þessum efnum í sjálfum stjórnarsáttmálanum og það hlaut að standa.

Mér sýnist því að hér sé efnislega séð um litlar breytingar að ræða og Sjálfstfl. hafi breytt um stefnu varðandi Framkvæmdastofnun ríkisins, hann hafi horfið frá sínum fyrri mótmælum og fellst nú á þessa löggjöf og stefnu hennar í öllum meginatriðum. En hitt væri vissulega fróðlegt að fá að vita, sem hér hefur verið spurt um, hvort ætlunin sé að ráða að stofnuninni tvo framkvæmdastjóra eða aðeins einn eða jafnvel enn þá fleiri, sem sagt fá alveg skýr svör um hvað þetta orðalag merkir sem hefur verið minnst á í þessum umr. og einnig að fá svar við því, sem hér hefur einnig verið spurt um, hvort megi skilja ummæli hæstv. forsrh. þannig að hann teldi að rétt væri að um ráðningu væri að ræða á nokkuð hliðstæðan hátt og nú gilti um bankastjórastörf, þar sem um er að ræða framkvæmdastjóra Framkvæmdastofnunar. Það er rétt að fá það einnig alveg skýrt upplýst er það ætlunin að sami háttur verði hafður á í báðum tilfellum, þ.e.a.s. að sá maður eða þeir menn, sem verða ráðnir sem forstjórar Framkvæmdastofnunarinnar, eigi þá ekki jafnframt að sinna alþingismennsku, eins og virðist nú vera orðin nokkurn veginn föst regla um þá sem ráðnir eru sem bankastjórar, þeir skuli þá ekki vera alþm. jafnframt. Ég kann betur við að fá alveg skýrt fram hjá hæstv. forsrh. hvað er átt við í þessum efnum, að hverju er stefnt, en ekki að þetta sé opið í báða enda.

Ég vil segja það, að ég er ekki samþykkur þeim aths. sem fram hafa komið þegar rætt hefur verið um Framkvæmdastofnunina og forstjóra hennar, þar sem mikið hefur verið gert úr því að vegna þess að þeir hafi verið og séu enn pólitískir aðilar, þá sé ekki hægt að standa þar eðlilega að störfum. Ég er ekki á þeirri skoðun. Ég álít að það sé í rauninni hrein blekking að tala um það að efnt verði til áætlanagerðar í sambandi við uppbyggingu atvinnulífs í landinu og í öðrum hliðstæðum tilvikum án þess að á bak við það séu pólitískar ákvarðanir, pólitískar stefnur, allt annað sé rugl, menn geti ekki flokkað þetta undir einhverja skoðanalausa embættismennsku. Hér er auðvitað um þýðingarmikla stjórnsýslustofnun að ræða, nátengda ríkisstj., sem vinnur að því að koma fram ákveðinni stefnu stjórnvalda á hverjum tíma og áætlanagerð, og ákvarðanir hljóta vitanlega að mótast nokkuð af því, enda gert ráð fyrir því að ríkisstj. leggi síðustu hönd á samþykkt slíkra áætlana. En ég er hins vegar á þeirri skoðun að það fari mjög illa á því að alþm. séu í jafntímafrekum störfum og forstjórastarf er fyrir stofnun af þessu tagi eða gegni bankastjórastörfum, og fleiri störf geta þar komið til greina. Þeir, sem sinna störfum á Alþ. sem alþm., hafa nægilega mikið að gera, og það fer ekki vel á því að þeir séu í öðrum störfum sem kalla á fulla starfsþjónustu svo að segja frá morgni til kvölds. Það er annað mál. En mér er það alveg ljóst að stjórn stofnunar af þessu tagi sem Framkvæmdastofnunin er hlýtur að vera undir yfirstjórn pólitískra aðila og er eðlilegt að Alþ. kjósi stjórn stofnunarinnar og ríkisstj. hafi síðan síðasta orðið í sambandi við framkvæmdir og áætlanagerð.

Um afstöðu mína til þessa frv. mun fara eftir því hvaða upplýsingar koma fram um málið í þeirri n. sem fær það nú til meðferðar. Ég hef þegar sagt það, að mér sýnist að hér sé ekki um neinar veigamiklar breytingar að ræða, heldur minni háttar breytingar sem ekki skipta neinu verulegu máli, og vel kæmi til greina að gera á lögunum ýmsar aðrar breytingar en hér er á minnst. Ég mun ekki að þessu sinni fara að ræða hér almennt um stefnu í byggðamálum eða hversu vel hafi tekist til með stefnu núv. hæstv. ríkisstj. í byggðamálum. Ég tel að þar hafi flest illa tekist til og þar ráði ekki fyrst og fremst úrslitum hversu mikið fé kann að verða lagt í Byggðasjóð á hverjum tíma, heldur sé þar um grundvallarstefnuatriði stjórnvalda að ræða á miklu víðara sviði. Ég mun sem sagt miða afstöðu mína til þessa frv. við það hvaða upplýsingar koma til með að liggja fyrir við afgreiðslu málsins í þeirri n. sem nú fær það til meðferðar.