11.05.1976
Sameinað þing: 89. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4068 í B-deild Alþingistíðinda. (3347)

242. mál, Byggingarsjóður ríkisins

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti, Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 502 till. til þál. um skiptingu Byggingarsjóðs ríkisins eftir kjördæmum. Hún er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram athugun á því hvort ekki sé tímabært og réttmætt að breyta lögunum um Húsnæðismálastofnun ríkisins, nr. 30 frá 1970, þannig að á árlegum lánveitingum Byggingarsjóðs ríkisins verði a.m.k. að hluta skipt á milli kjördæma samkv. ákvörðun Alþ., svo sem gert er með Vegasjóð“.

Undanfarin ár hefur þróunin orðið sú að mestur hluti nýrra íbúðarhúsa hefur risið á höfuðborgarsvæðinu. Þessi þróun tók stökk með samningum ríkisins og verkalýðshreyfingarinnar um framkvæmdir í Breiðholti. Þessar framkvæmdir voru fjármagnaðar að verulegu leyti af Byggingarsjóði ríkisins. Byggingarsjóði var gert að skyldu að greiða 80% af kostnaði við 1000 íbúðir á móti 20% frá kaupanda, og við leiguíbúðirnar 250 þurfti Reykjavíkurborg einungis að greiða 20%, en reiknaði gatnagerðargjöldin upp í það. Byggingarsjóður varð að taka á síg þessa skyldu án þess að honum væri útvegað aukafjármagn í þessu skyni og kom það að sjálfsögðu niður á þjónustu við einstaklinga og byggingarfélög. Einkum var þetta áberandi á landsbyggðinni þar sem þjóðfélagsþróunin hefur verið sú að fólki hefur þótt öruggara að festa fé sitt í íbúðarhúsnæði á Reykjavíkursvæðinu en annars staðar á landinu, hvað þá að geyma það í bönkum.

Þegar byggðastefnan ruddi sér til rúms voru sett lög um byggingu 1000 leiguíbúða á vegum sveitarfélaga í dreifbýli, nr. 59 rá 1973, en þessar 1000 leiguíbúðir var heimilað að reisa á næstu 5 árum, þ.e.a.s. árunum 1974–1973.

Lögin voru orðuð þannig, að heimilt væri að lána 80%, í stað þess að í reglugerðinni um Breiðholtsíbúðirnar sagði: „Skylt er að lána 80%“.

Ekki var Byggingarsjóði útvegað aukafjármagn vegna leiguíbúðarframkvæmdanna fremur en vegna Breiðholtsframkvæmdanna. Leiguíbúðirnar hafa vegna orðalags reglugerðar ekki orðið forgangsframkvæmdir, svo sem var um Breiðholtsframkvæmdir, heldur verið látnar sitja á hakanum.

Það kom strax í ljós að þörfin fyrir þessar leiguíbúðir var mjög brýn. Samkv. ársskýrslu Húsnæðismálastofnunar 1974 höfðu þá borist 1454 umsóknir um þessar 1000 íbúðir. Hér í þessum ræðustól hafa verið talin fram margvísleg rök fyrir nauðsyn þess að byggja þessar leiguíbúðir. Ungt fólk, sem er að stofna heimili, hefur oft ekki fjármagn til þess að koma sér upp þaki yfir höfuðið strax við heimilisstofnun. Aðkomufólk, sem sveitarfélögum er nauðsyn á að fá til tímabundinna eða framtíðarstarfa, þarf að eiga kost á húsnæði. Leiguhúsnæðisleysið hefur haft það í för með sér að fjöldi ungmenna hefur farið suður fremur en að ílendast í heimabyggðum, og fjöldi manna, sem áhuga hefur haft á störfum úti á landi, hefur ekki lagt í það að taka sér þar bólfestu vegna þess að hentugt leiguhúsnæði hefur ekki staðið til boða meðan viðkomendur hafa verið að byggja yfir sig eða að ákveða sig hvort þeir ættu að leggja í það að búa sitt framtíðarheimili þar. Jafnframt þurfti að gera sveitarfélögum kleift að selja eitthvað af þessum íbúðum þegar svona stendur á. En því er verið að kippa í lag núna með lagasetningu hér á Alþ. um Húsnæðismálastofnun, svo sem öllum er kunnugt.

Vegna þess, hve ásóknin í leiguíbúðir var mikil, upphófust deilur á milli forráðamanna sveitarfélaga og landshlutasamtaka og Húsnæðismálastofnunar um skiptingu þessara 1000 íbúða milli sveitarfélaganna. Það er enda augljóst, að í verðbólguþjóðfélagi eins og við lífum í er dýrt að þurfa að bíða í árabil eftir því að fá byggingarleyfi.

Árin 1974 og 1975 voru samþ.lán vegna byggingar um 200 leiguíbúða og sveitarfélögum auk þess heimilað að hefja byggingu 81 íbúðar á eigin kostnað án þess að gefin væru fyrirheit um greiðslu eða greiðslufyrirkomulag á hluta ríkisins. Nú er búið að samþ. lán vegna þessarar 81 íbúðar, en það eru óafgreiddar 393 umsóknir frá fyrra ári um leiguíbúðir.

Fyrirheitin um leiguíbúðirnar 1000 munu hafa það í för með sér að heldur hefur dregið úr fjölda umsókna einstaklinga í dreifbýlinu um íbúðarlán á meðan umsóknum á höfuðborgarsvæðinu fjölgar stöðugt. Þetta er mjög ískyggileg þróun. Húsnæðismálastofnunin úthlutaði seint í mars öðrum hluta lána til þeirra sem fengu byrjunarlán 1. sept. 1975. Úthlutað var 139 millj. 670 þús. kr. Þar af fóru til íbúða í Reykjavík og á Reykjanesi 123 millj. 760 þús., en í hlut allra annarra landsmanna komu aðeins 15 millj. 910 þús. Þessa þróun verður að stöðva.

Ég tel að eðlilegt sé að Alþ. láti þetta mál til sín taka og hafi hönd í bagga með skiptingu fjármagnsins eftir kjördæmum. Jafnframt virðist vel geta komið til greina að veita hærri lán til bygginga á þeim landssvæðum þar sem sannarlega er dýrara að byggja, bæði vegna veðráttu og flutningskostnaðar og annarra orsaka, og þetta getur enn fremur verið mikilvægur þáttur í byggðastefnu.

Ég gat um eitt tilvik þar sem fjármagnsstraumurinn til höfuðborgarsvæðisins kemur skýrt í ljós. Í ársskýrslu Húsnæðismálastofnunar 1974 er skrá um A-, B-, D-, E- og F-lán útborguð úr veðdeild á árunum 1955–1974. Þar kemur í ljós að lán hafa verið veitt út á 21 567 íbúðir, þar af 15 395 í Reykjavík og á Reykjanesi, en á landsbyggðinni 6172. Hluti Reykjavíkur og Reykjaness í heildarfjármagninu var þá 74.3%. Auk þess eru hér í Reykjavík flestir þeir lífeyrissjóðir sem einhvers eru megnugir, og hér er enn fremur sérstök lánastofnun sem eingöngu mun lána til íbúðarhúsa, þ.e. til íbúðarkaupa eða byggingar, þ.e. Sparisjóður Reykjavíkur.

Ég tel óhjákvæmilegt að stöðva þessa þróun. Á þinginu í fyrra leyfði ég mér að flytja þáltill. um jafnrétti sveitarfélaga í dreifbýli og Reykjavíkur í húsnæðismálum. Þar lagði ég til að lánafyrirgreiðsla til leiguíbúðanna yrði jafnhagkvæm og sjálfvirk og var um Breiðholtsframkvæmdirnar. Allshn. Sþ. vísaði till. til Húsnæðismálastofnunar til umsagnar, og Húsnæðismálastofnun lagði til að till. yrði send n. sem starfar og starfað hefur lengi að endurskoðun húsnæðismálalöggjafar. Félmn. Ed. hefur nú tekið upp þetta skylduákvæði, sem var meginmál þessarar till., og komið því inn í breyt. á l. um Húsnæðismálastofnun og málið er farsællega leyst. Kann ég henni bestu þakkir fyrir.

Húsnæðismálastjórn er vel skipuð. Hún er starfandi hér í Reykjavík og skipuð reykvíkingum, en okkur dreifbýlingum þykir nú stundum sem við eigum þar of fáa formælendur. Ég tel óhjákvæmilegt að við kjörnir fulltrúar þjóðarinnar hér á Alþ. látum þetta mál til okkar taka vegna þess að við svo búið má ekki standa. Við verðum að hafa með einhverjum hætti hönd í bagga með skiptingu fjármagnsins, svo sem er t.d. um vegáætlun, og við ættum að hafa þá þekkingu á staðháttum að við værum betur til þess fallnir en embættismenn kerfisins. Þá gefst færi á þjóðfélagslegri skýringu sem óhjákvæmilegt er að koma á fót. Það er þýðingarlaust að byggja upp atvinnufyrirtæki úti í dreifbýlinu, fyrirtæki sem bera uppi þjóðarbúið, byggja skóla, heilbrigðis- og menningaraðstöðu, en láta svo húsnæðismálaþáttinn lenda í ólestri, þróunin á þar að stefna í aðra átt.

Landshlutasamtök sveitarfélaga hafa bent á nauðsyn þessarar skýringar, m.a. á fundi á Ísafirði í fyrra, þar sem þau töldu óhjákvæmilegt að veita örvunarlán, þar sem þörfin væri brýnust. Þessi stýring gæti verið með ýmsu móti, bæði forgangur einstakra framkvæmda og einnig væri hugsanlegt og raunar réttmætt að veita mishá lán eftir landssvæðum. Það er kunnara en frá þurfi að segja að það er miklu dýrara að byggja í dreifbýlinu heldur en hér, bæði vegna mikils flutningskostnaðar, miklu lengri byggingartíma þar sem vegna veðráttu er ekki hægt að steypa nema um þriðjung ársins fyrir vestan, norðan og austan og jarðvinna öll er torveld vegna klaka, á meðan hér syðra er byggingarstarfsemi í fullum gangi allan veturinn. Langur byggingartími hefur að sjálfsögðu í för með sér stóraukna vaxtabyrði. Þá er rétt að nefna að sums staðar er skortur á iðnaðarmönnum.

Ég vænti þess að flestir hv. alþm. verði sammála mér um nauðsyn þess og réttmæti að finna leið til að tryggja réttan hlut dreifbýlisins í húsnæðismálum, því annars tekst okkur ekki að byggja landið allt, nýta gögn þess og gæði og auðlegð sjávarins í kringum landið.

Ég óska eftir því, herra forseti, að þessari umr. verði frestað og málið sent allshn. til umfjöllunar.