11.05.1976
Sameinað þing: 89. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4071 í B-deild Alþingistíðinda. (3348)

242. mál, Byggingarsjóður ríkisins

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Með örfáum orðum vildi ég lýsa yfir fullkomnum stuðningi mínum við þessa ágætu till. sem hér er komin fram. Ég vil þá um leið benda á það, að þessi till. fer mjög í sömu átt í raun og veru og frv. sem ég hef leyft mér að flytja nokkur undanfarin þing um útibú frá Húsnæðismálastofnun ríkisins. Þetta tvennt færi örugglega vel saman, og ég veit að þegar ég flutti þetta frv. fyrst, þá varð ég þess var hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins, því miður, að gegn þessu var töluverð andstaða á sínum tíma, að Húsnæðismálastofnunin færi að reisa slík útibú eða koma á stofn slíkum útíbúum, þó að þau ættu jafnframt að vera í sambandi og samvinnu við skipulagsskrifstofur landshlutanna og vera í nánum tengslum við útibú banka á hverjum stað.

En vegna þess að ég varð var við þessa andstöðu þá fannst mér andstaðan eiginlega vera næg fyrir þó ég gerði ekki þá till. sem hv. þm. Páll Pétursson gerir að sinni og ég get fyllilega tekið undir, heldur sagði ég í þessu frv. að Húsnæðismálastofnunin ætti að sjá útíbúunum fyrir fé til afgreiðslu lána með tilliti til heildarútlána og þá átt við það að heildarfjárþörf og heildarlánsupphæð fyrir landið allt verði skoðuð af yfirstjórn og ákvörðun hennar verði útibúin að lúta, en auðvitað verður að ætla yfirstjórninni það eitt að hún skipti lánsfénu á hverjum tíma af fullkomnu réttlæti. Þetta hefur, eins og hv. þm. benti á áðan, alls ekki verið svo. Úti á landsbyggðinni ríkir, eins og hann sagði, mjög alvarlegt ástand í húsnæðismálum, og þegar ég bar fram fyrirspurn hér fyrir nokkrum dögum til hæstv. félmrh. um leiguíbúðirnar, sem nú er góðu heilli verið að koma í gegn sem skyldu í staðinn fyrir heimild áður, þá upplýsti hæstv. ráðh. að aðeins væri búið að taka ákvörðun um 81 íbúð á þessu ári. þ.e.a.s. þær íbúðir sem leyfðar voru í fyrra fyrir eigið framkvæmdafé sveitarfélaganna þá, en ekkert nýtt hefði veríð ákveðið, engin viðbót við þessa 81 íbúð, en þetta gæti staðið til bóta. Ég skoraði þá á hæstv. ráðh. að heita því a.m.k. að það yrði staðið við það að gefa loforð um a.m.k. 150 íbúðir á þessu ári, eins og skylduákvæðið mundi sennilega verða samþ. hér á Alþ. Því miður fékk ég ekki svar frá hæstv. ráðh. þar um, en þetta verður að telja algjört lágmark. Ég veit að við hv. þm. Páll Pétursson erum báðir sammála um það að vitanlega á þetta ákvæði, ef að lögum verður sem hlýtur að verða, að koma til framkvæmda nú strax á þessu ári, sérstaklega með tilliti til þess hvað þetta mái hefur dregist úr hömlu.

Hv. þm. Páll Pétursson minntist hér á eitt atriði sem er mjög til athugunar og þyrfti hreinlega að komast á, og það voru örvuarlánin. Ég ætla aðeins að benda á það í þessu sambandi, að á síðasta ári vinstri stjórnarinnar voru þessi örvunarlán nærri komin í gegn hér á Alþ. og þá var flutt um örvunarlán frv. sem að stóðu þm. allra flokka. Á sama tíma var uppi annað frv. sem gekk að vísu nokkuð miklu lengra, frá þáv. stjórnarandstöðu, og þetta mál strandaði æ ofan í æ í n. á þessum mismunandi skoðunum sem þarna voru um upphæð þessara lána, þ.e.a.s. hv. þm. Sjálfstfl. vildu ganga miklu lengra sumir hverjir heldur en við í byggðanefndinni svokölluðu vildum ganga. En síðan hefur svo ekkert gerst í þessum efnum, og ég held að það væri verðugt verkefni okkar hv. þm. Páls Péturssonar og annarra ágætra manna, sem vildu slást í lið með okkur á næsta þingi, að endurvekja þetta frv. um örvunarlánin, hvort sem þau kæmu í gegnum Byggingarsjóð ríkisins, Byggðasjóð, eins og kom einnig til greina, eða hvernig þau væru fengin og fjár til þeirra aflað.

En aðalerindi mitt var sem sagt að lýsa yfir stuðningi við þessa ágætu till. sem hér er fram komin og áreiðanlega væri mjög til góðs fyrir íbúðabyggingar á landsbyggðinni í heild.