11.05.1976
Sameinað þing: 89. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4073 í B-deild Alþingistíðinda. (3354)

137. mál, sykurhreinsunarstöð

Frsm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þessi till. á þskj. 297 um sykurhreinsunarstöð í Hveragerði, flutt af Þórarni Sigurjónssyni, hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram könnun á hagnýtu gildi þeirra hugmynda sem upp hafa komið um sykurhreinsunarstöð í Hveragerði.“

Atvmn. athugaði till. þessa og umsögn sem barst frá Rannsóknaráði ríkisins. Mælir n. með samþykkt till. með breyt. sem hún flytur till. um á sérstöku þskj. Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Sverrir Hermannsson og Steingrímur Hermannsson. Undir þetta skrifa Páll Pétursson, Gils Guðmundsson, Karvel Pálmason, Jón G. Sólnes og Guðmundur H. Garðarsson. Brtt. er á þskj. 590 og hljóðar á þá leið, að við leggjum til að í stað orðanna „í Hveragerði“ bæði í tillgr. og fyrirsögn komi orðin: hér á landi.

Við töldum eðlilegt að ríkisstj. léti fara fram þessa könnun, hvort það hefði hagnýtt gildi að hreinsa hér sykur, en við treystum okkur ekki til þess að mæla þar með einum stað endilega fremur en öðrum.