12.05.1976
Efri deild: 104. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4100 í B-deild Alþingistíðinda. (3407)

132. mál, dýralæknar

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Landbn. hefur haft frv. til l. um breyt. á lögum um dýralækna til athugunar um alllangt skeið ásamt brtt. við frv. sem borin er fram af Jóni Helgasyni og Steinþóri Gestssyni. Landbn. sendi frv. þetta til umsagnar Búnaðarfélagi Íslands og til yfirdýralæknis og voru umsagnir þeirra aðila beggja á þá lund að þeir lögðu til að frv. og brtt. yrði samþ. óbreytt.

Ég held að ég þurfi ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Frv. sjálft fjallar um umdæmi Strandasýslu og Vestur-Húnaþings, sem var eitt umdæmi áður. Nú er lagt til að skipta því, og í grg. er bent á það sem er forsenda fyrir því. Eins og þdm. er kunnugt er þarna um geysilegar fjarlægðir að ræða sem ekki verður hægt að brúa þannig að viðunandi sé í þessu efni nema með því að skipta umdæminu milli tveggja lækna. Hins vegar varðar sú brtt., sem er á þskj. 369, Rangárvallasýsluumdæmi. Lagt er til að skipta því nú vegna þess að gripafjöldi hefur þar stóraukist í umdæminu og það svo, að það er ekki viðhlítandi þjónusta sem mögulegt er fyrir einn mann að veita í því starfi. Það varð því niðurstaða landbn. að mæla með þessum skiptingum báðum. En ég vil láta það koma fram hér að n. hafði um það fullt samráð bæði við landbrh. og fjmrh. og töldu þeir sig báða samþykka þeirri breyt., sem hér er lagt til að gera.

Till. á þskj. 369; brtt. Jóns Helgasonar og Steinþórs Gestssonar, er tekin aftur þar sem landbn. hefur tekið meginmál hennar upp og gert að sinni till. ásamt því sem landbn. leggur til að 3. gr. frv. verði breytt, Í frv. var gert ráð fyrir að lög þessi öðluðust þegar gildi, en landbn. leggur til, að lög þessi öðlist gildi i. jan. 1977. Þá er gert ráð fyrir því, eins og var í brtt. á þskj. 369, að þau lög, sem hér yrðu væntanlega samþ., ásamt breyt., sem gerðar hafa verið á lögunum eftir 1970, verði felld saman í ein lög og gefin út þannig til hægðarauka.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, en landbn. leggur til að frv. verði samþ. með þeirri brtt. sem n. flytur á þskj. 694.