12.05.1976
Neðri deild: 107. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4129 í B-deild Alþingistíðinda. (3452)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósepsson):

Forseti. Ég hef skilað sérstöku nál. á þskj. 746 um þetta mál. Í rauninni er óþarft fyrir mig að ræða hér frekar um málið en ég hef þegar gert. Afstaða mín til þessa frv. kemur fram í þessu nál. og hafði að mestu komið fram við 1. umr. málsins. Ég tel að hér sé um svo lítilvægar breyt. að ræða á lögunum um Framkvæmdastofnun ríkisins að það skipti í rauninni sáralitlu máli hvort frv. nær fram að ganga eða ekki. Hér er ekki um neinar efnisbreyt. að ræða frá því sem nú er í gildi. Að vísu eru tekin upp í þetta frv. ákvæði um tekjustofn handa Byggðasjóði í öðru formi en er í gildandi lögum, en mjög í samræmi við það sem þó er í framkvæmd og er bundið loforðum hæstv. ríkisstj. um framlag til sjóðsins, svo ég tel að það skipti sáralitlu máli einnig um þá breytingu.

Afstaða mín til málsins verður því sú, að ég get fallist á sumar gr. frv. og mun greiða þeim atkv., en öðrum ekki, og eins og ég hef sagt, þá sýnist mér að það skipti sáralitlu máli hvort frv. nær fram að ganga eða ekki.