12.11.1975
Neðri deild: 16. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég hef engu við það að bæta sem hv. þm. Benedikt Gröndal sagði áðan. Ég tek það fram að ég get tekið undir hvert einasta orð sem hann sagði, enda er allur málflutningur hans í fyllsta samræmi við stefnu Alþfl. um hvernig standa beri að landhelgismálinu og framkvæmd þess. Ég kveð mér hljóðs aðeins vegna eins atriðis í ræðu hæstv. dómsmrh. áðan, en þá sagði hann eitthvað í þá veru að það yrði undir mati skipherra komið hvort og þá hvernig að framkvæmd gæslunnar yrði staðið, þ. e, a. s. hvort skip yrðu tekin eða ekki.

Ég verð að segja eins og er, að hafi ég skilið þetta rétt, þá hreinlega trúi ég þessu ekki og vona að þetta sé ekki satt. Ég trúi því hreinlega ekki að ríkisstj. láti starfsmenn sína, skipherrana á skipum Landhelgisgæslunnar, móta stefnuna í svo afdrifaríku máli sem hér um ræðir. Það er auðvitað ljóst mál að eins og nú standa sakir er það mjög afdrifarík ákvörðun þegar og ef erlent fiskiskip verður tekið innan 200 mílnanna. Það er mjög afdrifaríkt hvernig að gæslulandhelginnar verður staðið. Það er einhver afdrifaríkasta ákvörðun sem tekin verður, eins og nú standa sakir. Og ég trúi því hreinlega ekki að hæstv. ríkisstj. skirrist við sjálf að ákveða stefnuna í þessu máli og segi, eins og hæstv. dómsmrh. sagði hér áðan: Þessi ákvörðun á að vera í höndum starfsmanna Landhelgisgæslunnar, en ekki hinnar pólitísku forustu þjóðarinnar sem á að móta stefnuna í málum eins og þessu. Ég hreinlega vona, að þetta sé ekki satt, vegna þess að ef þetta er satt, þá er hæstv. ríkisstj. í raun og veru hætt að stjórna einhverjum afdrifaríkasta þætti landhelgismálsins, þar sem er ákvörðun um hvernig á að gæta landhelginnar. Það er ríkisstj. sem á að taka þessar ákvarðanir, móta þessa stefnu, og það eru starfsmenn hennar, í þessu tilviki skipherrar Landhelgisgæslunnar, sem eiga að framkvæma þá stefnu sem ríkisstj. mótar. Þótt hún vilji ekki upplýsa hver þessi stefna er, þá á hæstv. ríkisstj. ekki að skjóta sér undan að skýra frá henni með því að segja: Við ætlum að fela okkar starfsmönnum, í þessu tilviki skipherrum Landhelgisgæslunnar, sjálfdæmi í málinu. Það er auðvitað verkefni ríkisstj. fyrst og fremst að móta þarna stefnuna. Verkefni starfsmanna Landhelgisgæslunnar er að fylgja henni eftir.

Ég vil einnig láta annað atriði koma hér fram sem mér finnst ástæða til þess að vekja athygli á, og það er þetta: Það er vissulega hægt að deila og ber að deila um það, ef menn eru ekki sammála, hvernig á að standa að jafnafdrifaríkum ákvörðunum og fólgnar eru í framkvæmd landhelgisgæslu. Hér er um að ræða afdrifaríkar pólitískar ákvarðanir sem menn geta deilt um, m. a. hér á Alþ. og í blöðum. En ég verð að segja eins og er, að mér finnst það bæði óeðlilegt og óæskilegt að þeir aðilar, sem hafa þau trúnaðarstörf með höndum að framkvæma þá stefnu sem mótuð hefur verið af þeirra pólitísku yfirmönnum, taki þátt í þessari deilu eins og stundum hefur við borið. Ég held að ég þurfi ekki að nefna dæmi um hvað ég er hér að ræða. En ég vil láta það koma fram að mér finnst óeðlilegt að þeir menn, sem valdir eru til trúnaðarstarfa til þess að framkvæma stefnu stjórnvalda í svo afdrifaríku máli sem hér um ræðir, þeir beinlínis taki þátt í opinberri deilu um hvort þessi stefna sé rétt eða röng. Ég veit ekki til þess að slíkt framferði mundi verða liðið í nokkurri strandgæslu nokkurs lands. Það skiptir ekki máli í þessu sambandi hvort ákvörðun stjórnvalda er umdeild eða ekki, hvaða skoðanir þm. eða þjóðin hefur á þeim embættismönnum sem falið er að framkvæma þessa stefnu. Þeim ber skylda til þess að gera það af fyllstu trúmennsku við sína yfirboðara, við þá menn sem þjóðin hefur þrátt fyrir allt valið til að fara með forsjá þessara mála.