13.05.1976
Efri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4143 í B-deild Alþingistíðinda. (3475)

75. mál, gatnagerðargjald á Akureyri

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Félmn. hefur fjallað um frv. það sem hér er til umr. M.a. leitaði hún umsagnar bæði félmrn, og Sambands ísl. sveitarfélaga og fékk ráðuneytisstjórann í félmrn. og framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga til skrafs og ráðagerða um málið. Niðurstaða n. varð sú, að hún samþ. að leggja til að frv. þessu yrði vísað til ríkisstj. Fjarstaddur afgreiðslu málsins var Steingrímur Hermannsson.

Efni þessa frv., sem hér er um að ræða, er að Akureyri verði heimilað að leggja á gjald til þess að standa undir malbikun gatna hliðstætt því sem nú er ákveðið í lögum um gatnagerðargjald frá 1974, en þó með þeirri breytingu að það yrði heimilt að leggja á fasteignaskatt í þessu skyni þó að malbikaðar hafi verið fyrir meira en 5 árum þær götur sem fasteignirnar standa við, en samkv. gildandi lögum er það heimilt allt að 5 árum aftur í tímann.

Hér er um að ræða í fyrsta lagi lög sem varða einungis eitt sveitarfélag, og þótti n. það nokkuð varhugavert og óeðlilegt — kannske frekar að segja það óeðlilegt — að veita einu sveitarfélagi slíka heimild og betur færi á því að heimildin væri í almennum lögum. En þá er spurningin: Hvernig á með þetta mál að fara ef þetta yrði sett í almenn lög? Í raun og veru er þetta skattlagning á fasteignir sem farið er fram á heimild fyrir. Nú höfum við fyrir almennan fasteignaskatt samkv. lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Við höfum fyrir sérstakan skatt á fasteignir sem lagður er á við byggingu þeirra vegna vega, eða gatnagerðargjald. Í þriðja lagi höfum við svo ákvæði í lögum um skatt á fasteignir vegna malbikunarframkvæmda með sérstökum hætti í lögum frá 1974. Og hér kæmi fjórða tegund skattheimtu á fasteignir. Okkur þykir að það séu skynsamleg vinnubrögð að taka þetta mál allt til endurskoðunar og rasa ekki um ráð fram í þessu efni. Og með því að nú vinnur sérstök n. að endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga, þá þótti n. ráð að sú n. tæki þetta mál til sérstakrar athugunar með það fyrir augum að það mætti finnast hagkvæm lausn á því. Með tilliti til þessa leggur n. til að frv. sé vísað til ríkisstj.