13.05.1976
Efri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4146 í B-deild Alþingistíðinda. (3478)

75. mál, gatnagerðargjald á Akureyri

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil ekki ganga eins langt og hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Norðurl. e., að segja að félmn. hafi ekki athugað nógu vel þau gögn sem liggja frammi. Það kemur fram í nál.félmn. Ed. hefur haft frv. til ítarlegrar umfjöllunar. En ég harma það að n. skyldi komast að þeirri niðurstöðu sem hér liggur fyrir.

Í nál. segir að n. vilji vísa þessu máli til nánari athugunar ríkisstj. eða vísa því til ríkisstj. Ég veit ekki hvort n. meinar þá að vísa því til afgreiðslu ríkisstj. eða ekki. En ég vil að mörgu leyti taka undir það, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði hér og eins undir orð hv. 2. þm. Norðurl. e. Ég tel alveg fráleitt, að samþ. ekki þessa ósk frá akureyringum, sérstaklega þegar það kemur í ljós að allir kjörnir fulltrúar fólksins á Akureyri, í byggðarlaginn sjálfu, hafa sameinast um að gera átak í gatnagerðarmálum byggðarlagsins. Ég tel fráleitt að Alþ. eða ríkisstj. ætli að fara í þessu tilfelli eins og svo mörgum öðrum að vera einhver alfaðir og ráða með tilskipunum kjörnum fulltrúum sveitarfélaganna. Það er löngu kominn tími til þess að slíkri stjórn úr fjarlægð linni. Ég leggst eindregið gegn þeirri afgreiðslu, sem félmn. leggur hér til, og mun styðja samþykkt frv. eins og það liggur hér í rammi.

Ég vil segja að við eigum að ýta undir það átak sem hér hefur verið lýst af hálfu hv. 2. þm. Norðurl. e. að standi til og allir séu sammála um að gera á Akureyri, en ekki að draga úr því. Ég efast ekkert um að það sé rétt, sem hér hefur komið fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e., að úr því að allir pólitískir fulltrúar, kjörnir fulltrúar fólksins á Akureyri, hafa samþ. þetta, þá sé algjör samstaða í byggðarlaginu um að gera þetta átak, og ég tel það til fyrirmyndar.

Ég vil sem sagt taka undir málflutning hv. 2. þm. Norðurl. e. og lýsi fullum stuðningi við óskir þeirra norðanmanna um þennan sérstaka skatt til þess að leggja varanlegt slitlag á götur Akureyrarbæjar.