13.05.1976
Efri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4147 í B-deild Alþingistíðinda. (3480)

75. mál, gatnagerðargjald á Akureyri

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég hef kannske ekki miklu við það að bæta sem frsm. félmn. hefur tekið fram og rannar síðasti ræðumaður líka. Sagan hefur verið rifjuð upp. Það voru sett lög um gatnagerðargjöld almennt og að þau mættu verka aftur fyrir sig. En eins og fram var tekið, þá átti að semja reglugerðir sem þyrftu staðfestingar rn. við um aukainnheimtu gatnagerðargjalda, og það, sem stóð í vegi fyrir því, að sveitarfélögin fengju þær reglugerðir staðfestar samkv. fyrstu lögum um þetta, var að í þeim lögum voru engin tímamörk um það hvað þau verkuðu langt aftur fyrir sig. Þess vegna komu lögin til meðferðar í annað sinn, og mig minnir að tímamark frá félmrn. hafi verið að lögin verkuðu 10 ár aftur í tímann. Það urðu miklar umr. einmitt í þessari hv. d. um það á sínum tíma, og einn alharðasti andstæðingur þess, að lögin fengju að verka 10 ár aftur í tímann, var, ef ég man rétt, hv. 12. þm. Reykv. Og niðurstaðan af því og raunar miðlunarleið var svo það ákvæði, sem í gildi er, að þetta geti verkað 5 ár aftur í tímann. Þetta fullnægir mjög mörgum stöðum sem eru svo gott sem að byrja á varanlegri gatnagerð.

En vandamál Akureyrar og fleiri kaupstaða er ekki leyst með þessu 5 ára marki. Eins og í nokkrum öðrum kaupstöðum var búið að setja varanlegt slitlag á gangstéttir á nokkurn hluta þeirra byggðarlaga, sérstaklega miðbæjarkjarnanna, áður en gatnagerðargjöldin voru tekin upp, og ákvæðin um gatnagerðargjöldin núna ná ekki til þessara svæða í bæjunum. Þetta er auðvitað ástæðan til þess að Akureyri óskar eftir breytingu á þessu og nokkur sveitarfélög önnur mundu fylgja í kjölfarið. Ég skil vel þörf þeirra fyrir þetta, og það er víst réttlætismál að þetta gangi þar jafnt yfir eins og í þeim öðrum sveitarfélögum þar sem 5 ára reglan brýtur ekkert í bága við framkvæmdina í heild vegna þess, eins og ég áður sagði, að það eru fjöldamargir staðir sem byrjuðu ekki varanlega gatnagerð innan þeirra tímamarka. En með tilvísun til þess, sem félmrn. var áður búið að úrskurða vegna fyrstu lagasetningar um þetta þar sem engin tímamörk voru þá sett, þá er eðlilegt að það sé sjálfu sér samkvæmt og lýsi því yfir að það geti ekki staðfest reglugerð samkv. þessum lögum sem er ótímasett aftur í tímann. Vandinn er að finna eitthvert form sem getur fullnægt þessum fáu sveitarfélögum sem er um að ræða. Þau eru tiltölulega fá, en þurfa lengri tíma til varðandi það ákvæði, hvað þetta skuli verka langt aftur í tímann. Það er fyrst og fremst um það sem vandinn snýst.

Akureyringar hafa hins vegar í fleiri tilvikum sérstök lög fyrir sinn ágæta stað. Þeir hafa sérstök lög fyrir holræsagjöld á Akureyri, sérstök lög fyrir gangstéttargjöld, sérstök lög fyrir lóðaskrárritara og þannig mætti lengur telja um það að þeir hafa nokkra sérstöðu utan Reykjavíkur hvað það snertir að vera með sérstaka löggjöf um tiltekin atriði sem eru nú á seinni tímum komin inn í heildarlöggjöf sem nær yfir sveitarfélögin öll. En vandamálið í þessu er sem sagt að finna það form að afturvirkni álagðra gatnagerðargjalda verði tímamörkuð. Hvað er hægt að ná samkomulagi um markmið í því efni, svo það dugi þessu sveitarfélagi og öðrum, það er spurningin. Þetta var það sem við í hv. félmn. stóðum andspænis, og þess vegna vildum við að leitað yrði af hálfu ríkisstj. leiða til þess að finna lausn ekki eingöngu á vandamáli Akureyrar, heldur nokkurra staða annarra sem líkt er ástatt með, að þau hófu varanlega gatnagerð fyrir meira en 5 árum.