13.05.1976
Efri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4160 í B-deild Alþingistíðinda. (3494)

75. mál, gatnagerðargjald á Akureyri

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Mér fannst vel til hlýða að ég segða hér örfá orð þar sem ég er einn af flm. þess frv. sem hér er til meðferðar í hv. d.

Mér finnst aðalatriði þessa máls vera einfaldlega það, að það verður ekki annað séð en akureyringar hafi komið sér saman um aðferð til þess að fjármagna ákveðið verkefni hjá sér. Það er ekki heimild til þess í gildandi lögum að þeir fari þá leið sem þeir sjálfir óska. Það hefur ekki komið fram, svo að ég hafi heyrt, í þessum umr. að út af fyrir sig væru hv. alþm. ósamþykkir aðferðunum sem akureyringar hyggjast notfæra sér þarna, þó að þar kunni að vera einhver meiningarmunur á aðferðum og er ekki undarlegt. Þess vegna lít ég þannig á að fyrst Alþ. hefur ekki gert þá breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem þm. virðast vera margir sammála um að þurfi að gera og er eðlilegt að gera, þá sé óeðlilegt að tefja akureyringa í því að framkvæma þessi verkefni sem eru þeim mjög brýn með því að tefjist heimild í lögum til þess að þeir megi standa þannig að þessum málum sem þeir vilja. Það getur vissulega verið álitamál hversu stuðla beri að því að einstök byggðarlög fái sett lög um ákveðna þætti verkefna sem mörgum sýndust að væri heppilegast að fylgdust að um landið allt. En ég hygg að þetta sé ekki einsdæmi og ekki einu sinni einsdæmi í þessari hv. d., að hv. dm, samþykki sérstök lög fyrir ákveðna landshluta sem ýmsum að vísu sýndist að ættu að vera þáttur í heildarlöggjöf.

Ég endurtek það, að ég tel að akureyringar hafi staðið að þessu á þann veg sem þeim var einfaldastur og eðlilegastur, að fá viðurkennda aðferð sína til að leysa þetta brýna mál. Og þar sem ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að ósamkomulag sé á Akureyri um þessa fjáröflunaraðferð, þá finnst mér eðlilegt að hv. Alþ. standi ekki í vegi fyrir því að nefnt sveitarfélag geti notað þá fjáröflunarleið sem það telur heppilega til þessara framkvæmda.