14.05.1976
Neðri deild: 110. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4339 í B-deild Alþingistíðinda. (3668)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal taka undir það, sem hæstv. dómsmrh. var hér að skýra frá, að ég held að allir séu sammála um, þrátt fyrir yfirlýsingar sumra þm. Sjálfstfl. og reyndar annarra hér í gærdag, að það átti ekki að koma fram sú meining að þeir hefðu staðið . á móti því sem hér yrði fram lagt. Ég hef a.m.k. ekki heyrt það. Hitt er svo annað mál, að fyrst þetta mál er komið aftur til okkar, þá vildi ég aðeins láta í ljós skoðun mína á því að það er harla einkennilegt þegar við erum að tala um stærstu fjármagnsstofnun landsins utan ríkissjóðs að það skuli fara allt hér á annan endann og talað um hvort það eigi að vera einn forstjóri eða tveir. Það er talið nauðsynlegt að vera með 3 og upp í 7 bankastjóra, og nú eru þeir sömu menn búnir að gleypa í sig samþykkt Ed. og síðan Nd. um það að við þurfum að bæta við einum bankastjóra í Búnaðarbanka til þess að segja nei við almenning. Ég spyr: Þessir aðilar eiga að hafa með að gera að fylgjast með lánum og reyndar að nokkru leyti styrkjum frá þessari stóru stofnun, — á einn maður að vera þar allsráðandi? Ég tel þetta það vitlausasta sem til sé, enda höfum við dæmin frá einum banka landsins um þetta, jafnvel þar voru tveir og brást samt. Kannske ættum við að hafa þá þrjá, forstjórana, áfram hjá Framkvæmdastofnuninni?

En ég segi fyrir mig að ég tek undir þessa aths. hæstv. ráðh. Ólafs Jóhannessonar, og ég hef ekki heyrt að þeir hafi staðið á einn eða annan hátt á móti þeirri endurskoðun sem hefur farið fram og hefur komið fram í því frv. sem liggur fyrir hjá okkur til afgreiðslu.