14.05.1976
Neðri deild: 110. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4341 í B-deild Alþingistíðinda. (3670)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Tómas Árnason:

Herra forseti. Skömmu eftir að hæstv. ríkisstj. tók til starfa var af hennar hálfu skipuð fjögurra manna n. til þess að gera till. um endurskoðun á lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins. Ég átti sæti í þessari n. og hún náði samkomulagi um þær till. sem nú liggja hér fyrir hv. Alþ. N. skilaði áliti sínu til ríkisstj. og ríkisstj. hefur ráðið meðferð málsins síðan, sem m.a. hefur komið fram í því að það liggur hér fyrir stjórnarfrv. um þær breytingar sem það gerir ráð fyrir.

Varðandi það atriði, sem hér hefur verið rætt allverulega, hvort skynsamlegt sé að hafa fleiri en einn forstjóra við Framkvæmdastofnunina, vil ég mega leyfa mér að segja örfá orð vegna þess að ég hef nokkra reynslu í þessum störfum þar sem ég hef starfað í Framkvæmdastofnuninni frá því að hún varð til, fyrst ásamt tveimur öðrum framkvæmdastjórum, síðan um sinn einsamall sem framkvæmdastjóri og svo nú um sinn með öðrum framkvæmdastjóra. Ég er þeirrar skoðunar, og byggi þá skoðun á fjögurra ára reynslu, að það sé alveg skilyrðislaust skynsamlegt að það séu fleiri en einn maður framkvæmdastjóri í Framkvæmdastofnuninni. Það er mín skoðun. Það eru svo mörg mál, stór og þýðingarmikil, sem þarna koma til meðferðar, að ég tel það vera til mikils stuðnings og skynsamlegt við stjórn þessarar stofnunar að þarna séu a.m.k. tveir framkvæmdastjórar. Ég vildi láta þessa skoðun mína koma fram.

Varðandi hitt atriðið, hvort þm. eigi að gegna störfum framkvæmdastjóra í Framkvæmdastofnuninni, þá er það að mínum dómi miklu meira mál. Það er spurning um það hvaða störf eigi yfir höfuð að vera samrýmanleg þingmennsku. Um það má auðvitað segja margt. Það má telja venju, eins og nú er komið í okkar stjórnsýslu, að bankastjórar gegni ekki þingmannsstörfum þó að skammt sé að vísu síðan það varð. Það eru ýmis fleiri störf sem þannig er háttað um, eins og kunnugt er. Þarna koma til álita mörg störf. Ég hef nefnt það hér áður í ræðum að t.d. hagfræði og stjórnmál ern alveg náskyldar greinar og hagfræðiprófessorar við Háskóla Íslands hafa náttúrlega mjög ákjósanlegt tækifæri til þess að predika yfir lærisveinum kenningar sínar í hagfræði sem geta verið náskyldar þeirra stjórnmálaskoðunum. Ég nefni þetta ekki að gefnu tilefni heldur aðeins sem dæmi um það, að hér er um að ræða miklu stærra mál. Og ég er fylgjandi þeirri skipan að það verði lagt á vald stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar að meta það í fyrsta lagi, hvað skynsamlegt sé að margir framkvæmdastjórar starfi þar, og í öðru lagi, hvort stjórnin telji að slík störf kunni að vera samrýmanleg þingmennsku.

Ég var framkvæmdastjóri í Framkvæmdastofnuninni þegar ég var kjörinn þm. og hef ekki fram að þessu séð ástæðu til þess að segja því starfi lausu þó að ég hafi nú um alllangt bil gegnt því til bráðabirgða.