14.05.1976
Neðri deild: 110. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4343 í B-deild Alþingistíðinda. (3673)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs af undrun yfir því hvernig stjórn þessa lands er nú orðin. Að vísu lifa menn svo margt að líklega kemur þeim, sem hafa setið þetta þing, ekkert á óvart í þessum efnum. En nú í seinni tíð eru stórtíðindi frá einum deginum til annars, að maður segi nú ekkert um næturnar þar á milli.

Mér hefur skilist að í gær hafi ríkisstj. tekið áhrifamikla ákvörðun um aðgerðir í landhelgismálinu sem utanrrh. muni framkvæma. Í gærkvöldi var útvarpað umr. héðan úr þessum sal og þar tóku tveir talsmenn Framsfl. allt aðra afstöðu, annar þeirra sjálfur ritari flokksins. Menn spyrja: Stendur Framsfl. að þeirri stjórnarstefnu sem utanrrh., varaform. Framsfl., ætlar sér að framkvæma? Í dag gerist það í framhaldi af atkvgr., sem fram fór um Framkvæmdastofnunina í gær, þar sem till. um að hafa aðeins einn forstjóra við stofnunina var felld á jöfnum atkv., að formaður Framsfl., hæstv. dómsmrh., stendur upp og lýsir því yfir að ekkert hafi staðið á Framsfl. varðandi það að hafa bara einn forstjóra. Hann segir að ef um eitthvert samkomulag sé að ræða, þá sé það samkomulag annarra aðila en stjórnarflokkanna. Þetta hlýtur að koma mönnum næsta spánskt fyrir sjónir og að sjá svo ekki aðeins þm. stjórnarliðsins, heldur sjálfa ráðh. ganga hér upp hvern á fætur öðrum til að vitna á víxl. Allir eru að tala um eitthvert samkomulag, en enginn fæst til að segja hver hefur gert samkomulag við hvern í þessu mála.

Allur þessi málarekstur er orðinn svo furðulegur að erfitt mun að finna hans nokkra hliðstæðu í stjórnmálum síðari ára. Stærsti flokkur landsins, Sjálfstfl., gerði það að meginádeiluefni á síðustu ríkisstj., ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, að hún hefði komið þessari stofnun, Framkvæmdastofnuninni, á fót og sett þar þrjá pólitíska fulltrúa sem framkvæmdastjóra. Þeir hlutu nafnið „kommissarar“, og ég hygg að það sé ekki djúpt í árinni tekið þó að sagt sé að áróður Sjálfstfl. gegn stofnuninni á þessum grundvelli hafi stórkostlega skaðað álit þessarar stofnunar í fæðingu með þjóðinni og spillt fyrir störfum hennar. Ætla mætti að flokknum væri alvara í þessum efnum.

Ég hygg að allir hafi skilið stefnuskrá stjórnarinnar þannig, úr því að það var þörf á að endurskoða skipulag þessarar stofnunar, að það hlyti að vera eitthvað í átt við yfirlýsta stefnu Sjálfstfl. Til hvers annars ætti endurskoðunin að vera? Framsfl., hinn stjórnarflokkurinn, hafði sett þessa stofnun á fót á sinum tíma, og hafði ekki heyrst frá honum að hann væri í neinum meiri háttar atriðum óánægður með hvernig sú löggjöf hefði gefist. Það hefur tekið tvö ár fyrir þessa huldumenn eða hulduflokka að komast að þessu huldusamkomulagi sem enginn veit hvar var gert eða á milli hverra. En einhvern veginn tókst þeim samt að unga út frv. sem fékk á sig stimpilinn stjfrv. Ef þetta hefði verið frv. sem hefði verið flutt af n. eða einstökum þm., þá væri kannske skiljanlegra þótt í kjölfarið kæmu yfirlýsingar og í ljós kæmi, að einhver blæbrigði væru á skoðunum stjórnarsinna á málínu. En þetta frv. fékk þann stimpil að vera stjfrv. og hann verður ekki tekinn af því héðan af.

Ég verð að segja um þetta umdeilda atriði varðandi forstjóra stofnunarinnar að ég trúði varla mínum eigin eyrum þegar það kom í ljós, að orðið forstjóri hafði verið sett inn í frv. eingöngu í þeim föllum að ekki varð séð hvort það átti að vera í eintölu eða fleirtölu, og þegar sjálfur forsrh. útskýrir fyrir löggjafarsamkomu þjóðarinnar að stjórn stofnunarinnar eigi að túlka þetta, og í því fólst að hún gæti túlkað þetta sem einn forstjóra eða fleiri. Þetta eru svo barnaleg undanbrögð undan vandamáli að því fá engin frekari orð lýst, að ríkisstjórn með þann meiri hl., sem núv. ríkisstj. hefur, skuli aka sér undan svona stóru máli og segja: Stjórn Framkvæmdastofnunar á að ákveða þetta. — En hverjir sitja í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins? Það eru 7 alþm., þar af 5 stjórnarþm. Og þar sem í Íjós hefur komið að stjórnarliðið — og sérstaklega Sjálfstfl. — er þrælklofið, þá þýðir þetta nánast að þeir hópar eða þær klíkur í Sjálfstfl., sem koma sínum mönnum í stjórn Framkvæmdastofnunar, skuli ráða því hvort þar verður einn eða fleiri forstjórar. M.ö.o.: þetta mál á að útkljá — ekki með atkv. og skýrum orðum eða skýrri hugsun eins og hæstv. dómsmrh. mundi vilja hafa það hér á Alþ., — nei, með þeirri tilviljun hvort hv. þm. Ellert B. Schram og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson eiga sæti í stjórn Framkvæmdastofnunar eða einhverjir aðrir félagar þeirra úr þingflokki Sjálfstfl. Það er það sem ræður úrslítum.

Þetta er því fyrir neðan allar hellur og svo furðulegt klúður að menn undrast að það skuli koma fyrir á annatímum þings sem hefur stórkostlegt vandamál framundan og ætlar sýnilega ekki að snerta á nema þeim allrastærstu, eins og því hvernig við eigum að skipuleggja fiskveiðar okkar og bjarga þorskstofninum. En hvað er það hjá forstjórafjöldanum við Rauðarárstíg eða stafsetningu skólabarna og öðru slíku sem tekur upp tíma þingsins?

Ég vil aðeins benda á að afgreiðsla stjórnarflokkanna á þessu máli er svo langt fyrir neðan allar hellur að það er ómögulegt annað en að spyrja hvort meirihlutaríkisstj. sé í landinu. Ríkisstj. hefði fallið á þessu máli eða fallið í þessu máli, skulum við segja, — hún ætlar víst ekki að falla á því, — hún hefði fallið í þessu máli í gær ef ekki hefðu komið til atkv. annarra. Þegar litið er á þetta mál í samhengi við önnur mál, eins og framkomu stjórnarsinna í landhelgismálinu í gærdag og í gærkvöld og fjöldamörg önnur mál, þá vaknar sú spurning einu sinni enn: Hefur ríkisstj. með allan þennan fjöld þm. á bak við sig í raun og veru samhentan meiri hl.? Ef hún hefur það ekki og getur þar af leiðandi ekki stjórnað með fastari hendi en raun ber vitni, eftir hverju er hún þá að bíða með að fara frá?