14.05.1976
Neðri deild: 110. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4352 í B-deild Alþingistíðinda. (3678)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Hæstv. forseti. Ég skal ekki fjölyrða um þetta mál. Það voru aðeins orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Péturs Sigurðssonar, sem urðu til þess að ég fæ ekki orða bundist, þó að raunar hafi maður heyrt þennan tón áður.

Ég vil taka það fram í upphafi til að forðast allan misskilning, að ég tel það ákaflega miður farið þegar út í það fer í umr, á Alþ. að metast á milli kjördæma og metast á milli svokallaðs þéttbýlis og dreifbýlis. Ég held að mér sé óhætt að segja það, að á síðari árum hefur myndast aukinn skilningur á því að hagsmunir þéttbýlisins hér syðra og hins svokallaða dreifbýlis fara saman, og það hef ég heyrt of marga góða og sanna reykvíkinga segja til þess að efast um réttmæti þeirra orða.

En það fer alla vega dálítið í fínu taugarnar á okkur dreifbýlisþm. þegar æ ofan í æ er tönnlast á þessum misskilningi, að Reykjavík og Reykjanes hafi verið sett hjá á undanförnum árum og Byggðasjóður sé til þess eins að mismuna suðvesturhorninu hér og landsbyggðinni í heild hins vegar. Þegar við tölum um Byggðasjóð, þá er það furðuoft og undarlega oft sem mönnum gleymist algerlega hið rétta eðli málsins, þ.e.a.s. til hvers Byggðasjóður var stofnaður. Hann var stofnaður með þá viðleitni í huga að snúa við þeirri óheillaþróun að heilir landshlutar tæmdust af fólki. Þetta er staðreynd sem við vitum mætavel öll. því til sönnunar skal ég rifja upp tölur sem við þekkjum öll, að á árunum 1950–1970 fjölgaði í Reykjavíkurborg um 78% og af 66 þús. íbúafjölgun yfir landið allt á þeim árum, þá fjölgaði á þessum svæðum — þá á ég við Reykjavíkurborg og Reykjanessvæðið — um 54.6% af 66 þús. heildarfjölgun allrar þjóðarinnar. Það vita aðrir reykvíkingar eins vel og ég. Reykjavíkurborg var enginn sérstakur akkur í þessari þróun, enda sér þess enn stað í Reykjavík í dag að fólksfjölgunin á þeim tíma varð það mikil að ekki var hægt að halda til jafns við fjölgunina í ýmiss konar nauðsynlegri þjónustu við fólkið sem þar bjó.

Ég vil líka minna á vegna orða hv. 8. þm. Reykv., þegar hann talar um fiskveiðar og fiskiðnað, að við vitum það öll jafnvel, sem eitthvað þekkjum til þessara mála, að fyrirgreiðsla til fiskiskipakaupa hér í Reykjavík hefur verið sú sama, ef ekki meiri. 95% voru veitt sem lán til kaupa á Reykjavíkurtogurunum og það með forgang fram yfir staði úti á landi. Ég veit ekki betur en fiskvinnslan hér á Suðurnesjum njóti 60% fyrirgreiðslu úr Fiskveiðasjóði eina og öll önnur frystihús úti um land, en að vísu koma þar til úti á landsbyggðinni viðbótarlán úr Byggðasjóði. Ég vil aðeins segja þetta, að ef hv. þm. þessara kjördæma geta sannfært mig um að það liggi við fólksauðn hér í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi, þá er tími til kominn að Byggðasjóður sinni málefnum þeirra eins og annarra.

Ég vil líka minna á í sambandi við Byggðasjóð að það eru til aðrir fjárfestingarsjóðir og útlánasjóðir heldur en Byggðasjóður, og það er staðreynd að á s.l. árum hafa lán úr Byggingarsjóði ríkisins farið að 70–80% til þessara tveggja kjördæma á meðan mörg byggðarlög úti um land liða af húsnæðisskorti, Þetta er staðreynd líka sem fletta má upp í skýrslum Framkvæmdastofnunarinnar og víðar. Það er og staðreynd, það vitum við öll, að Iðnlánasjóður hefur lánað sáralítið út á landsbyggðina, það hefur farið hingað á Reykjavíkur- og höfuðborgarsvæðið.

Ég er ekki að benda á þetta af neinni öfund eða afbrýði vegna þessa. En ég vil að hið rétta sé í heiðri haft og það sé hætt að tala um það að með útlánum Byggðasjóðs og með þeirri svokölluðu byggðastefnu, sem rekin er í sambandi við hann, sé verið að níðast á einum eða neinum. Við höfum heyrt þetta margoft, að það eigi að hjálpa fólkinu til að komast burt af strjálbýlustu svæðunum. En ég held að menn hér í þéttbýlinu geri sér almennt ekki grein fyrir að byggð úti á landinu er víða orðin svo gisin að eitt eða tvö eyðibýli til viðbótar geta ráðið örlögum um það hvort byggð helst þar eða ekki.

Ég minntist aðeins í gær í sambandi við atkvgr. um Framkvæmdastofnunina, um till. um að Byggðasjóður skyldi styrkja landið allt, að að sjálfsögðu á Byggðasjóður að koma til með sína aðstoð þar sem hennar er helst þörf. Og ég endurtek: Þegar sannað verður að svæðin, sem um er rætt, séu í þessari þörf sem byggðarlögin úti á landi hafa verið og eru enn, þá er sannarlega tími til kominn að við endurskoðun stefnu Framkvæmdastofnunar og Byggðasjóðs í dag, en fyrr ekki.