14.05.1976
Neðri deild: 110. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4353 í B-deild Alþingistíðinda. (3679)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Ég held að það hljóti að vera um einhvern misskilning að ræða hjá hv. 8. þm. Reykv. ef hann stendur í þeirri meiningu að ég sé mikill aufúsugestur umfram hann hjá fjölmiðlum sem sjónvarpi og öðrum. En ef svo er, þá hlýtur það að byggjast á því að einhverjir hæfileikar eru sem ég hef umfram hann. En ég held að þetta sé mesti misskilningur. Ég held að þetta sé mælt að ástæðulausu og það sé illa gert að skrökva að mönnum sem eru lengi fjarverandi vettvangi og hafa þeirra hluta vegna ekki fylgst með því sem er að gerast. Það er ljótur leikur að skrökva að slíkum einstaklingum eins og þessum hv. þm. sem í öllum tilvikum sjálfsagt vill hafa það sem sannara reynist.

En aðeins örfá orð út af þessum umr. Ég held að það sé a.m.k. ljóst að eftir stendur eftir þessar umr, að hæstv. dómsmrh. er æðislyngur spilamaður í þessum efnum. Það virðist vera augljóst, eftir því sem hér hefur komið fram, að hann hefur haldið þannig á málum gagnvart samstarfsflokknum í ríkisstj., eins og hæstv. dómsmrh. sagði sjálfur: Það stendur ekki á Framsókn í þessu máli. Á hverju stendur þá? Það hlýtur að vera á Sjálfstfl. Það er algerlega augljóst að sá aðilinn í þessu máli, sem vildi knýja fram haustið 1971 að aðeins einn forstjóri væri fyrir Framkvæmdastofnun ríkisins, hann er nú þess fýsandi og meira en það að hafa a.m.k. tvo, sumir hv. þm. segja þriðja þm. Sjálfstfl., þannig að greinilegt er að í þessu máli hafa mál skipast svo, að það er innan Sjálfstfl. sem þessi mikli ágreiningur um Framkvæmdastofnun ríkisins er, að því er best verður séð í dag, ekki milli stjórnarflokkanna, heldur innbyrðis innan annars stjórnarflokksins. Það held ég að liggi ljóst fyrir, Og þá sjá menn hversu mikið mark er á því takandi sem þessir hv. þm. segja frá ári til árs, þm. Sjálfstfl., þegar þeir hafa svo gersamlega kúvent frá þeirri skoðun, sem þeir höfðu uppi 1971, til þeirrar skoðunar a.m.k. sem sumir þeirra virðast hafa nú í þessu máli.