17.05.1976
Efri deild: 116. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4386 í B-deild Alþingistíðinda. (3757)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Því er ekki að neita að það lagafrv., sem hér um ræðir, er mjög mikilvægt. Það er mikilvægt vegna þess að sú stofnun, sem um ræðir, Framkvæmdastofnun ríkisins, getur ráðið ýmsum mikilvægum málum og getur haft í raun og veru afgerandi áhrif á afkomu vissra byggðarlaga. Þetta á sérstaklega við þar sem þessi stofnun veitir viðbótarlán til atvinnufyrirtækja, og í landi langvinnrar lánsfjárkreppu geta slík viðbótarlán haft mjög þýðingarmikil áhrif á atvinnufyrirtæki og viðgang vissra byggðarlaga.

Enda þótt ekkert standi um það í l. um Framkvæmdastofnun ríkisins, þá hefur framkvæmd á undanförnum árum orðið á þann veg að viss landshluti, nánar tiltekið Reykjanes og Reykjavík, hefur orðið algerlega afskiptur eða a.m.k. að langmestu leyti afskiptur frá þjónustu við þessa stofnun, og á ég þar sérstaklega við fyrirgreiðslu úr Byggðasjóði. Þetta hefur komið illa við atvinnufyrirtæki á þessu svæði, ekki síst vegna þess, ef við tökum t.d. fiskiðnaðinn, að þau fyrirtæki, sem fá verulegt viðbótarlán með hagkvæmum kjörum til starfsemi sinnar, eiga þess að sjálfsögðu kost að gera rekstur sinn hagkvæmari og ódýrari þannig að afurðir þeirra er hægt að selja á hagkvæmara verði en hinna sem ekki njóta. En svo kemur til viðbótar þessu að þegar verð fyrir afurðir þessara fyrirtækja er ákveðið, a.m.k. þegar erfiðlega er ástatt í landinu, þá er gjarnan miðað við landsmeðalverð og þá m.a. kostnaðarverð þeirra fyrirtækja sem hafa notið þessarar sérstæðu fyrirgreiðslu úr Byggðasjóði.

Nú er það svo að varðandi Byggðasjóð, sem upphaflega var í raun og veru til vegna erfiðs atvinnuástands í landinu, þá er ekkert í hans lögum sem kveður á um slíka mismunun, og ég álit, að stjórn þessarar stofnunar hafi gersamlega misskilið ákvæðin um hlutverk Byggðasjóðs. En þar stendur í 29. gr. laganna, að „hlutverk Byggðasjóðs er að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífs með hliðsjón af landshlutaáætlunum, sbr. 8. gr., og til að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir að lífvænlegar byggðir fari í eyði.“

Með leyfi forseta las ég hér 29. gr. um hlutverk Byggðasjóðs. Það, sem mér finnst hafa farið úrskeiðis, er þetta, að í staðinn fyrir að miða við ákveðin byggðarlög, þá hefur framkvæmdin orðið sú, að miðað hefur gjarnan verið við ákveðna landshluta. Slíkt getur komið mjög illa út og mér finnst frekar ómaklegt og varasamt í framkvæmd. Um mikilvægi þessarar stofnunar, Framkvæmdastofnunar ríkisins og Byggðasjóðs, má kannske gera sér svolitla hugmynd með því að lesa hér úr skýrslunni frá 1973 um hvernig starfshættir eru. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Framkvæmdaráð hélt nær daglega fundi og vikulega fundi með forstöðumönnum deilda. Þá sat það fundi með bankastjóra Seðlabanka Íslands um fjáröflun til stofnfjársjóða o.fl. og með stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands og bankastjórum Landsbankans og Útvegsbankans til að samræma sjónarmið og ákvarðanir um hraðfrystihúsaáætlanir. Náið og gott samstarf var milli Framkvæmdastofnunar ríkisins og margra ríkisstofnana sem hafa með höndum opinberar framkvæmdir, en einnig og ekki síður við Iðnþróunarsjóð, Iðnlánasjóð, Fiskveiðasjóð og Atvinnuleysistryggingasjóð svo og aðra stofnfjársjóði og viðskiptabanka þegar tilefni gafst til.“

Það er sem sagt augljóst að þessi stofnun ræður allverulegu um fjármögnun fyrirtækja og þeirra rekstrarlánamöguleika og það eru ekki eingöngu þessar fjárhæðir, sem úthlutað er úr Byggðasjóði, sem þar koma til greina, heldur er sýnilegt, þar sem þarna er um viðbótarlán að ræða, að lánastofnanir fyrirtækjanna verða að hafa veitt þeim fyllstu lán áður en til viðbótarlána getur komið. Og þegar lánsfjárkreppa er og fjármagnsskortur eins og hér hefur lengst af verið á undanförnum áratugum, þá er sýnilegt að þetta getur haft enn þá víðtækari áhrif heldur en menn mundu að öðru jöfnu ætla. því langar mig til að fá upplýsingar hjá hæstv. forsrh. um það, hvort það er ekki rétt að það sé ætlast til þess með 29. gr. þessara laga að enginn sérstakur landshluti verði utan við fyrirgreiðslu Byggðasjóðs, heldur sé hlutverkið að grípa til hjálparráðstafana hvenær sem eitthvert byggðarlag, hvar sem það er á landinu, lendir í örðugleikum, hvort sem er með atvinnu eða hættu á búseturöskun af öðrum orsökum. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að það liggi alveg ljóst fyrir að einmitt þessi setning 29. gr. sé rétt skilin.