17.05.1976
Efri deild: 119. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4482 í B-deild Alþingistíðinda. (3903)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Frsm. 1. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 871, legg ég til, að frv. verði fellt, og skal aðeins fara nokkrum orðum um það. Nál. er ekki það langt að tímans vegna held ég að ég verði að láta hv. þdm. eftir að lesa það. en ég vil gera örstutta grein fyrir því af hverju ég tel að þessar fyrirhuguðu breytingar séu ekki veigamiklar og ekki vel athugaðar og ég tel rétt að fella frv.

Við 1. umr. drap ég á það að ég vildi fá nánari staðfestingu á því hver væri skilningur hæstv. forsrh. varðandi sérstaklega tvö kjördæmi um lánafyrirgreiðslu, — staðfestingu á því að Reykjavík og Reykjanes nytu ekki verri kjara, þegar þannig stæði á hjá þeim, heldur en aðrir landshlutar þegar búið væri að lögfesta 2% af útgjöldum fjárl. í ákveðinn sjóð, sama hvernig árferðið er í landinu. Við höfum nú áþreifanlega reynt það hér í kvöld að Vegasjóður er gersamlega tómur og það er ekki hægt að framfylgja lögum um vegáætlun og verður að gera hér skyndibreytingu á þeim lögum til þess að bjarga Vegasjóði úr algerri klípu. Einnig vil ég vekja athygli á 10. gr. frv. sem ég skil ekki. Ég bókstaflega skil ekki hvernig hún getur haft lagagildi nema athuga hana miklu nánar í sambandi við seðlabankalögin o.fl. En hún er ekki löng, 10. gr., og með samanburði á núgildandi lögum um lánadeild, sem er 12. gr. núgildandi laga um Framkvæmdastofnunina, vil ég vekja athygli á því að í núgildandi lögum segir:

„Lánadeild vinnur að því að samræma útlán allra opinberra stofnlánasjóða“ — að samræma útlán. Þetta er eðlilegt um Framkvæmdastofnun ríkisins og þá auðvitað í samvinnu eða samráði við viðkomandi ríkisstj. En í þessu frv. núna segir: „Deildin fylgist með fjárhag opinberra fjárfestingarsjóða.“ Hvað verður nú um Seðlabankann og hans vald? Á hann að hætta að fylgjast með sjóðunum og hafa yfirlit um þá? Síðan segir: „og vinnur að því að samræma lánakjör þeirra og skipuleggja fjáröflun til framkvæmda með sérstöku tilliti til þess sem forgang þarf að hafa.“ Þessi deild á að samræma lánakjör. Ég hélt að þetta væri hlutverk Seðlabankans eða ríkisstj. eða viðskrh. Og ég er hræddur við að setja svona ákvæði inn og fella hitt úr gildandi lögum, að þá kunni að koma til árekstra, hvor verður hinn sterkari. Þetta er það mikilvægt atriði að ég tel ekki hægt að samþykkja frv. með þessu orðalagi. Ég legg því til að það verði fellt og ef ríkisstj. vill koma málinu vel athuguðu í gegn, þá á hún að gera það í haust.

Ég get tekið undir þau orð að Byggðasjóður og margt það, sem Framkvæmdastofnunin hefur gert, hefur reynst, þjóðinni vel og sjálfsagt að stuðla að því, að svo verði áfram, og tryggja jafnt og gott fjármagn í Byggðasjóð og aðra fjárfestingarsjóði. En ég sé ekki að þetta frv. sé svo gott eða vel úr garði gert að það sé réttlætanlegt að hespa því af nú í lokin þegar maður hnýtur um svona mótsagnir eins og fram koma í 10. gr., því að ég kalla þetta mótsagnir, að fella út eðlilegt orðalag, eins og 12. gr. hefur verið, og hlýtur að hafa haft gildi og rök fyrir að vera sett svo, en síðan að umorða þetta nú, ef þetta eru þá ekki hrein mistök. Það er enginn tími til að leiðrétta það og þess vegna er ekki um annað að gera en fella frv. því að þessi deild fer ekki að samræma lánakjör á Íslandi. Það er önnur stofnun sem á að gera það og hefur umsjón með peningaveltu á Íslandi og verður að bjarga bæði ríkissjóði og öðrum sjóðum. Það er Seðlabanki Íslands. Og það er æðsta peningastofnun í samráði við viðkomandi rn.

Ég gæti fjallað hér um fleiri þætti í þessu frv., en ég eyði ekki tíma þdm. hér um miðja nótt og meira í því efni. Ég held að hæstv. ríkisstj. ætti að athuga það, að þetta frv. á að daga uppi og betra að koma með nýtt í haust og fá þá samstöðu Alþ. um að tryggja framgang þess.