18.05.1976
Efri deild: 121. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4507 í B-deild Alþingistíðinda. (4046)

239. mál, Orkubú Vestfjarða

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Það hefur orðið ein breyting á einni gr. frv. um Orkubú Vestfjarða í meðferð hv. Nd. Það er 15. gr. frv. sem breytt hefur verið. Þar stóð áður, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar eftir gildistöku laga þessara skal iðnrh. gangast fyrir að sameignarsamningur sé gerður milli aðila og stofnfundur fyrirtækisins haldinn samkv. reglum 9. gr. eftir því sem við á.“

Í staðinn fyrir þetta stendur nú í frv.: „Þegar eftir að heimild samkv. 1. gr. þessara laga er notuð skal iðnrh. beita sér fyrir að sameignarsamningur sé gerður milli aðila og stofnfundur fyrirtækisins haldinn samkv. reglum 9. gr. eftir því sem við á.“

Þetta er að mínu áliti engin efnisbreyting, en kveður ákveðnar á um eðli þessa frv. og því hef ég ekkert á móti þessari breytingu.

Í frv., eins og það var upphaflega og var afgr. frá hv. Ed., stóð í framhaldi af því sem ég greindi áðan: „Skal þessu lokið á árinu 1976.“ Hv. Nd. hefur fellt þessa setningu niður þannig að þetta tímamark er ekki. Ég vil segja um þetta eins og hitt, að ég geri ráð fyrir og vænti þess að í framkvæmd breyti þetta heldur engu vegna þess að áhugi hlutaðeigandi aðila nægi til þess að sjá svo um að þessu verði lokið fyrir árslok 1976 þótt það sé ekki beint tekið fram í lögunum.