18.05.1976
Sameinað þing: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4510 í B-deild Alþingistíðinda. (4063)

247. mál, heimildir Færeyinga til fiskveiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. 1. minni hl. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég nokkra grein fyrir afstöðu minni til þess og skal að mestu leyti láta nægja að vísa til þess sem ég þá sagði. Ég vil aðeins rifja það upp, að ég lít þannig á að við núverandi kringumstæður, þegar m.a. er rætt um það af fyllstu alvöru og bent á nauðsyn þess að takmarka með ýmsu móti sókn íslenskra fiskiskipa í þorskstofninn, þá séu í rauninni engin tök á því að veita útlendingum veiðiheimildir og síst af öllu til þess að veiða þorskinn. En raunar gildir svipað um aðrar fisktegundir sem við verðum að sjálfsögðu sjálfir að auka okkar sókn í til þess að geta linað sóknina í þorskinn. En ég tel þó að eftir atvikum sé eðlilegt og rétt að gera þarna eina undantekningu á, þ.e.a.s. að líta á algera sérstöðu færeyinga þeim augum að það eigi ekki að útiloka samningagerð við þá.

Það eru ýmis rök fyrir þessu og skal ég aðeins nefna hin helstu.

Stærsta röksemdin er sú, að færeyingar eru sú þjóð sem er svo að segja algerlega háð fiskveiðum og fiskveiðarnar við Ísland hafa verið og eru enn í dag mjög mikilvægar og mikill liður í færeyskum þjóðarbúskap. Það yrði afar tilfinnanlegt fyrir færeyinga ef því yrði algerlega kippt brott að þeir fengju að veiða hér við land eitthvað áfram meðan þeir eru að koma sínum málum í betra horf að því er fiskveiðilögsöguna heima og fiskaflann á heimaslóðum snertir.

Í öðru lagi bendi ég á það, að færeyingar hafa ekki haft og hafa raunar ekki enn full yfirráð eða möguleika á því að reka þá hafréttarpólitík einir og óskorað, sem þeir kjósa hverju sinni, vegna tengslanna við Danmörku og tengsla Danmerkur við Efnahagsbandalag Evrópu.

Í þriðja lagi hljótum við að finna til alveg sérstaklega með færeyingum, þessari vina- og frænd- og nágrannaþjóð, og hljótum að lita nokkuð öðrum augum á þá heldur en aðrar þjóðir. En þrátt fyrir þetta tel ég að eins og nú er högum háttað, þá sé það a.m.k. verulegt vafamál hvort rétt sé eða hægt sé að gera slíkan samning sem hér er um að ræða, sem takmarkar veiðar færeyinga jafnlítið og gert er í þessum samningi og þá alveg sérstaklega þorskveiðarnar.

Ég viðurkenni að vísu að hér er gerð ein takmörkun sem skiptir verulegu máli, að það er ekki lengur heimilt samkv. þessu samkomulagi fyrir færeyinga að veiða hér í salt, eins og kallað er. Þetta er að vísu nokkuð mikilvægt, en þrátt fyrir það, miðað við ástand þorskstofnsins og miðað við það að sífellt er verið að ræða um að við verðum að takmarka okkar sókn í þorskstofninn, e.t.v. enn þá meira en gert er gagnvart færeyingum í þessu samkomulagi, þá kemst ég að þeirri niðurstöðu, þegar þetta er vegið og metíð hvort á móti öðru, að taka ekki þátt í atkvgr. um þetta samkomulag. Það geri ég annars vegar til þess að sýna það að einungis í sambandi við færeyinga tel ég koma til mála og tel ég rétt að gera samning, en í öðru lagi tel ég að það sé ekki kleift að samþykkja slíkan samning sem þennan áður en ljóst er með hverjum hætti og hversu mikið íslendingar verða að takmarka eigin sókn í þessa fiskstofna sem ofveiddir eru.