20.11.1975
Sameinað þing: 19. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

39. mál, eignarráð á landinu

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Mér skildist á orðum hv. þm. Stefáns Jónssonar, sem var að ganga hér úr pontu, að hann væri, hv. þm., í sjálfu sér ekki andvígur meginatriðum þeirrar þáltill., sem hér er til umr., og gæti stutt ýmis meginatriði hennar, hins vegar teldi hann ekki tímabært að samþykkja hana vegna þess að við völd í landinu væri ríkisstj. sem ekki nyti hans stuðnings og hann óttaðist að hún héldi ekki rétt á málum, þ. e. a. s. á ráðstöfun landsins. Hér orðar Stefán Jónsson upp á nýtt mjög gamla kenningu þess flokks og forvera þess flokks sem hann er aðili að. Sú kenning, sem ég býst við að menn almennt minnist, var sú, að það væri tilgangslaust að vinna að umbótum á einn eða neinn veg fyrr en rétt ríkisstj. væri komin til valda. Ég gat ekki skilið orð hv. þm. öðruvísi en svo, að hann teldi að ekki ætti að koma þessum þörfu málum í lög fyrr en væntanlega þannig yrði komið að Alþb. væri orðið einrátt um stjórn landsmálanna. Ég verð nú að segja eins og er, að ég hélt að þessar kenningar væru ekki öllu lengur til í Alþb. og a. m. k. þorri Alþb.-manna væri löngu frá þeim fallinn. Ég ætla ekki að fara lengra út í þessa sálma, en ég ætla aðeins að benda á eitt atriði í þessu sambandi, og það er það, að ég hygg að við Alþfl.-menn og þeir Alþb.- menn séum miklu meira sammála um þau atriði, sem fram koma í þessari þáltill., heldur en virðist vera. Ég tel að sannleikurinn sé sá, að Alþfl.- menn og Alþb.-menn séu sammála um öll meginatriði í þessu máli. Og ég held að okkur væri nær, þar sem hér er um talsvert stórt mál að ræða, að láta nú liggja á milli hluta gamlar væringar og jafnvel persónulegan illvilja sem kann að leynast í brjóstum okkar hvors til annars — og á ég þar þó ekkert sérstaklega við mig og hv. þm. Stefán Jónsson, síður en svo, en við ættum að leggja þessar væringar til hliðar og leggja meiri áherslu á þau atriði sem við erum sammála um, þar sem er meginkjarni þeirrar till. sem hér liggur fyrir. Vissulega erum við Alþfl.-menn reiðubúnir til þess að endurskoða ýmislegt orðalag, en hins vegar held ég að það sé staðreynd að við séum meira sammála um þetta mál heldur en látið hefur verið í veðri vaka. Og ég vil eindregið fara þess á leit við þá ágætu Alþb.-menn, þó að ég skorist ekki undan skemmtilegum kappræðum í framboðsfundarstíl, að við höfum þetta mál þar utan við og leiðum hjá okkur að ræða þetta mál með slíkum hætti.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði að það væri leiðigjarnt að fjalla um sama efni þing eftir þing. Það eru nú mörg þingmál sem við verðum að fjalla um þing eftir þing og þykir ekki sérlega leiðigjarnt. En ég vil aðeins vekja athygli á því hvaða áhrif það hefur þó haft hér í þingsölum að umr. skuli hafa orðið um þetta mál þing eftir þing. Fyrst þegar þetta mál kom fram var það talið í öllum atriðum bæði óalandi og óferjandi. En nú er svo komið að jafnvel þótt hv. þm. Pálmi Jónsson sé andvígur ýmsum meginatriðum þáltill., þá hefur hann þó viðurkennt hér úr þessari pontu að það sé ýmislegt í till. sem til þarfa horfi og hann geti stutt, þannig að einhver áhrif hafa þó þessar umr. haft á hjarta hv. þm., eitthvað er það nú farið ofurlítið að mýkjast.

Þá hefur einnig verið mjög kvartað undan því að við værum hér að þráflytja sama mál. En í umr. áðan kom fram að væri það svo að við þráflyttum mál, þá eru líka ákveðnir þm. sem haldnir eru mjög alvarlegri þráhyggju um þetta mál, sem sagt þeirri að meginatriði þessarar þáltill. standi til þess að taka bújarðir af bændum. Það er búið að taka það fram af flm. ár eftir ár að svo sé ekki. Það kemur fram með skýrum hætti í þáltill. sjálfri að þetta sé ekki tilgangurinn. Samt koma menn upp hér ár eftir ár til þess að halda því fram að einmitt svona sé málunum varið. Það virðist vera ómögulegt að útrýma fyrri þráhyggju hjá ákveðnum hv. þm., að með þessari þáltill. sé ekki verið að stefna að því að taka af bændum bújarðir þeirra sem þeir nota til búskapar. Þvert á móti er skýrt og skorinort sagt að bændum verði tryggður einkaréttur á bújörðum sínum til búrekstrar ef þeir kjósa það fremur en að hafa þær á erfðafestu eða lífsábúð. E. t. v. geta þeir hv. þm., sem ekki hafa séð út fyrir sína þráhyggju, orðað þetta á eitthvað ótvíræðari hátt. En sé þetta eina atriðið sem fyrir þeim vefst um stuðning við þessa till., þá er að sjálfsögðu hægt að orða þetta atriði till. svo afdráttarlaust að það fari ekki á milli mála við hvað er átt.

Það er líka rétt, að það má segja að fjallað hafi verið um þessa þáltill. með nokkuð svipuðum reglubundnum hætti og hv. þm. Páll Pétursson sagði að fjallað hefði verið um stefnuræðu forsrh. Það má vel vera. En við skulum gera okkur grein fyrir því að það er ósköp eðlilegt að svo sé, vegna þess að hér er um tímamótamarkandi stefnumál að ræða sem mjög skiptar skoðanir eru um, bæði hér í þingsölum og meðal þjóðarinnar. Einkenni vorra tíma eru átökin um yfirráðarétt náttúruauðlinda, það eru einkenni vorra tíma. Landhelgisbarátta íslendinga er einn þáttur af þessum átökum. Þar erum við ekki aðeins að berjast við breta, vestur-þjóðverja og aðra slíka, heldur erum við að berjast við gömul og úrelt viðhorf, nákvæmlega sömu gömlu og úreltu viðhorf eins og ýmsar nýfrjálsar þjóðir, sem eru að berjast fyrir að ná yfirráðum sinna náttúruauðlinda, eru að berjast gegn. Og sams konar barátta eins og þarna á sér stað milli íslendinga og helstu andstöðuaðila okkar í landhelgismálinu, sams konar barátta fer nú fram á Íslandi sjálfu, inn á við, um náttúruauðlindir sem ekki liggja utanlands á Íslandi, þ. e. a. s. í sjónum, heldur innanlands.

Við höfum um margra alda bil, íslendingar, búið ofan á kötlum, ef svo má segja, fullum af heitu vatni og ómælanlegri orku. Þessar auðlindir höfum við ekki getað nýtt kynslóð fram af kynslóð. Nú hins vegar höfum við uppgötvað að það er hægt að virkja þessar náttúruauðlindir, það er hægt að virkja þær til hagsbóta fyrir þjóðina alla. Sú uppgötvun er svo stór og svo mikilvæg fyrir okkur íslendinga að það má líkja því við að skyndilega hafi uppgötvast að Ísland væri sjálft Eldorado hinna fornu munnmæla, sjálft gulllandið. Ég læt mér ekki detta annað í hug en þegar þjóðinni varð ljóst að nú væri hægt að nýta orku eldsins í iðrum jarðar til hagsbóta fyrir þjóðina, þá hafi hún talið að sér hefði áskotnast talsvert ríkidæmi. En menn lifðu ekki lengi í þeirri trú. Það var fljótt að koma babb í bátinn. Og hvert var það babb? Það var það, að upp reis hópur manna sem hélt því fram að þessar náttúruauðlindir, sem þjóðin hafði talið sér trú um mann fram af manni og öld fram af öld að hún ætti sjálf, þessar auðlindir væru í eigu örfárra einstaklinga sem gætu gert kröfur til samborgara sinna um að gjalda stórfé, milljónatugi og milljónahundruð, fyrir afnotaréttinn af þessum náttúruauðlindum. Við urðum sem sé ekki ríkari eftir þessa uppgötvun, íslendingar. Íslenskur almenningur stóð ekki uppi ríkari eftir þá uppgötvun að hægt væri að nýta jarðhitann í iðrum jarðar til hagsbóta fyrir þjóðarheildina. Nei, almenningur á Íslandi stóð fátækari eftir vegna þess að lögum landsins var beitt til þess að hafa frumburðarrétt af þjóðinni sjálfri. Lögum landsins var beitt til þess að gera þjóðina fátækari eftir en áður. Lögum landsins var beitt til þess að reyna að gera íslenskan almúga að réttlausum leiguliðum í eigin landi. Það er það sem verið er að gera nú. Það er það sem baráttan stendur um. Hún stendur um það: eru íslendingar réttlausir leiguliðar örfárra landeigenda eða eiga íslendingar landið sem þeir byggja?

Við skulum gera okkur grein fyrir því að það hefur venjulega verið regla þar sem eignarréttur nær til að eignarréttur og ábyrgð fylgdust að ef eign manns ylli skaða, þá bæri honum að borga skaðabætur til þeirra sem fyrir skaðanum yrðu. Telja formælendur þess, að örfáir einstaklingar í landinu eigi jarðhitann, telja formælendur þessarar skoðunar þá ekki sjálfsagt að þessir eigendur jarðhitans gjaldi þjóðinni fullu verði þau spjöll sem kunna að hljótast af því að eldgos verði eða eitthvað slíkt? Þeir sem eiga eldfjöllin, þeir sem eiga eldinn í iðrum jarðar, heita vatnið, hverina, eru þeir þá ekki skaðabótaskyldir líka? Hvernig geta menn heimfært þá skoðun að ef eldsumbrot verða og þjóðin öll tekur þátt í því að bæta mönnum spjöll sem af hljótast, þá skuli örfáir landeigendur geta talið sig eiga umráðarétt yfir vikrinum, sem upp úr eldfjallinu kemur, og geta selt hann sjálfum sér til hagsbóta? Sem sé, nú á að fara að skilgreina eignarréttinn þannig að eignin þýði réttindi til þess að selja og græða, en þeim eignarrétti fylgi ekki skyldur til þess að greiða skaðabætur fyrir skaða sem eignin veldur. Það er þetta, sem er verið að berja fram núna, og þetta tel ég að sé í andstöðu bæði við stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og almenna siðfræði í landi voru.

Sú krafa hefur komið fram og verið höfð uppi af svonefndum jarðeigendum á Íslandi að ef almenningur fer þess á leit að fá að nytja íslenskar náttúruauðlindir, svo sem jarðhita, til þess að ylja sér við, þá verði almenningur að borga þessum jarðeigendum stórfé sem miðað sé við heimsmarkaðsverð á olíu. Það er sem sé verið að setja fram þá kröfu að örfáir íslendingar, sem ekkert hafa að unnið sérstaklega í því máli að virkja jarðhita, hafa engin tækifæri til þess að virkja hann sjálfir, að sú eign þeirra verði metin þeim til fjár til jafns við olíuverð. Í dagblöðunum í dag er skýrt frá því að hæstv. ríkisstj. hafi tekið að láni 2300 millj. kr. af arabagulli. Hversu mikið skyldum við íslendingar þurfa að taka til láns af arabagulli ef við ættum að kaupa af íslenskum olíuaröbum allan nýtingarrétt á þeim jarðhita sem þeir telja sig eiga á Íslandi? Hversu mikið arabagull þyrftum við til þess? Hversu mikið arabagull ætlast þessir fáu menn til að þjóðin gjaldi þeim fyrir þennan sinn eignarrétt, að því er þeir ætla?

Það, sem hér er um að ræða, er að það er skoðun flm. þessarar till. og ég vænti miklu fleiri þm., þ. á m. þm. Alþb., að það sé tími til kominn að þjóðin fari að nema land sitt að nýju, að íslenska þjóðin fari að nema Ísland og eignast það aftur. Hv. þm. Pálmi Jónsson lauk sinni ræðu áðan með því að segja að það væri landhreinsun að því að kveða þetta mál niður. Hann er sem sé þeirrar skoðunar, hv. þm., að það sé landhreinsun að koma í veg fyrir að íslendingar allir geti talið sig eiga sitt land. Það er landhreinsun að áliti hv. þm. Hv. þm. telur það landhreinsun að koma í veg fyrir það að frá því verði gengið á lögum lýðveldisins að auðæfi Íslands, eins og orka fallvatna og jarðhita, verði talin eign íslensku þjóðarinnar. Hv. þm. telur landhreinsun að kveða slíkt mál niður.

Það má vel vera að þeir séu til, nokkrir menn á Íslandi, sem eru þeirrar skoðunar að það sé landhreinsun að svipta almenning á Íslandi, þorra þjóðarinnar, eignartilkalli til eigin lands. En ég er sannfærður um að væri þetta mál borið undir þjóðaratkv., hver á að eiga Ísland, þá mundi niðurstaða þeirrar þjóðaratkvgr. verða fólgin í því að það væri landhreinsun — það væri landhreinsun að kveða niður þau úreltu íhalds- og afturhaldssjónarmið sem komu fram í ræðu hv. þm. Pálma Jónssonar.