26.11.1975
Sameinað þing: 22. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hér er vissulega komið upp mál sem hlýtur að vekja athygli almennings í landinu þegar svo er staðið að eins og hér virðist hafa verið gert af hálfu opinberrar stofnunar, Ríkisútvarpsins. Ég vil ekki trúa því fyrr en ég tek á því að hæstv. menntmrh. hafi gefið fyrirskipun um slíkt eins og hér hefur gerst, og ég treysti því að hann komi hér upp á eftir og gefi um það yfirlýsingu að hér sé ekki um að ræða hans forskrift eða fyrirskrift og að hann muni sem ráðh. þessarar stofnunar aflétta þeim ósköpum sem hér hafa átt sér stað, þvingunum gegn löglegum aðgerðum stærstu launþegasamtaka í landinu.

Ég vil því eindregið taka undir það, sem fram hefur komið hjá þeim hv. tveimur ræðumönnum sem hér hafa talað á undan, en ég vil jafnframt spyrja hv. þm. Þórarin Þórarinsson, form. útvarpsráðs, um það, hver skoðun hans sé á þessu máli. Er það hans skoðun, að hér hafi verið löglega og réttilega að farið með bann við auglýsingum um að mótmæla samningum eða um útifund vegna landhelgismálsins? Ég skora á hv. þm. Þórarin Þórarinsson að koma hér upp og lýsa yfir skoðun sinni á því sem hér hefur gerst. Er hann samþykkur þessum aðgerðum eða ekki?

Ég vil einnig beina þessu til hv. þm. Ellerts B. Schram, varaform. útvarpsráðs. Vill hann styðja þessar aðgerðir sem útvarpsráðsmaður. Er það að einhverju leyti vegna þrýstings eða ákvörðunar meiri hl. útvarpsráðs sem þetta hefur gerst, eða er þetta eingöngu tekið upp í viðkomandi stofnun?

Ég vænti þess að bæði hæstv. ráðh. og a. m. k. hv. þm. Þórarinn Þórarinsson upplýsi afstöðu sína til þessa máls, því að það verður vissulega tekið eftir því ef þessi ákvörðun hefur verið tekin í einhverjum tengslum við hugarfar hv. þm. Þórarins Þórarinssonar, sem er form. útvarpsráðs. Ég treysti því, að hann hafi ekki átt hér hlut að máli, eins og ég treysti því að hæstv. menntmrh. hafi ekki lagt á ráðin við slíka meðferð á auglýsingum sem eru að öllu leyti löglegar.