26.11.1975
Sameinað þing: 22. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

Umræður utan dagskrár

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Þar sem ég hef verið beðinn um að vitna í þessu máli, þá kveð ég mér hljóðs til þess að upplýsa að ég hef ekki kippt í neina spotta í þessu máli og það er nú fyrst, þegar þetta mál er tekið fyrir hér utan dagskrár í hv. Sþ., að mér er kunnugt hvers eðlis það er.

Það er upplýst að útvarpsstjóri hefur ákveðið að leyfa ekki einhverjar tilteknar auglýsingar sem frá ákveðnum aðilum hafa borist, og í því sambandi hefur hann vitnað, að mér skilst, í reglugerð útvarpsins.

Það hlýtur að vera skylda stjórnenda útvarpsins að fara eftir þeim reglugerðum sem um þá stofnun gilda, og ef menn eru óánægðir með ákvarðanir sem teknar eru af þeim sökum, þá er eðlilegast að beina spjótum sínum að reglugerðunum, en ekki að þeim embættismönnum sem gera sitt besta til að fara eftir þeim. Ég tel að samstarfsnefnd sú, sem hér um ræðir, hafi fengið gott rúm í Ríkisútvarpinu, bæði í útvarpi og sjónvarpi, bæði í fréttum og auglýsingum, að undanförnu og þurfi í sjálfu sér ekki undan því að kvarta að lagst hafi verið á hennar tilkynningar eða hennar málefni. Ég tel að bæði hún og verkalýðshreyfingin sem slík verði að skilja það að þessir aðilar eru ekki hafnir yfir reglugerðir hjá þessari ríkisstofnun frekar en aðrir aðilar í þessu þjóðfélagi (Gripið fram í.) Ég vil segja það sem mína skoðun að það er fullkomlega ástæðulaust að vera að banna auglýsingar hjá kvennasamtökum, Vörðu landi, verkalýðshreyfingu eða þeirri samstarfsnefnd sem hér um ræðir. Ef þessi samtök hafa áhuga á því að auglýsa sín fundahöld og sín hugðarefni, þá finnst mér fullkomlega eðlilegt að slíkar auglýsingar séu leyfðar. Ef hins vegar orðalag orkar tvímælis í auglýsingum sem frá slíkum aðilum koma, þá er eðlilegast að gera tilraun til að lagfæra það, þannig að það falli að þeim reglum sem um auglýsingar gilda, og þannig ætti undir venjulegum kringumstæðum samkomulag að nást.

Ef útvarpsráð fær málið til meðferðar t. d. núna, þá mundi útvarpsráð væntanlega skoða þessar auglýsingar, sem ég hef t. d. ekki séð enn þá eða heyrt, og reyna að meta þær út frá þeim reglugerðum sem í gildi eru, algerlega án tillits þess hver eigi í hlut eða hvaða málefni er um að ræða.

Ég hef ekki á móti því að fundahöld séu auglýst. Það meiðir hvorki mig né minn flokk að einhverjir aðilar hafa áhuga á fundahöldum eða koma sínum málum á framfæri, og ég mótmæli því hér að Sjálfstfl. hafi minnsta áhuga á því að beita pólitísku valdi í afskiptum sínum af Ríkisútvarpinu. Sjálfstfl. sem slíkum hefur ekki kippt í spottana og hvorki ég sem meðlimur í útvarpsráði né þingflokkur Sjálfstfl. hefur haft minnstu afskipti af þessu máli.