26.11.1975
Sameinað þing: 22. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil lýsa vonbrigðum mínum með ummæli hæstv. menntmrh. Ég tók þau á sama veg og hv. þm. Helgi Seljan, og mér sýnist að æðsti maður þessarar stofnunar sé hér með búinn að innsigla að þessi ákvörðun stendur óbreytt og það þykir mér miður af jafngóðum dreng og hæstv. menntmrh. er þó. En aðaltilefni þess, að ég kom hér upp aftur, voru ummæli hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur. Ég get ekki látið ummælum, sem hún viðhafði, ómótmælt. Mér finnst það furðulegt af hv. þm. að hann skuli lýsa því hér yfir að forustumenn Alþýðusambands Íslands, forustumenn sjómannasamtakanna, forustumenn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands séu að beita þessum samtökum í stórpólitískum tilgangi varðandi mál sem þeim kemur ekki við.

Það kemur líklega ekki við umbjóðendum þessara manna hvað verður gert hér í dag, á morgun eða föstudag varðandi samþykkt á veiðiheimildum til handa útlendingum, sem allar líkur benda til að innleiði einhverja mestu kjaraskerðingu til handa launafólki sem um getur um áratugi í landinu. Það er líklega óviðkomandi meðlimum Alþýðusambands íslands hvernig farið er með slíkt mál. Ég trúi því ekki að þetta sé í raun og veru skoðun þessa hv. þm. En sé svo, þá hefur vissulega risið upp hér á Alþ. í dag fulltrúi þeirra skoðana sem mest bar á á fyrstu árum íslenskrar verkalýðshreyfingar í baráttu gegn henni. Þá er hér að koma upp á yfirborðið sú skoðun sem þá var ríkjandi, á þeim tíma sem íslensk verkalýðshreyfing var að heyja það stríð sem hún þurfti að heyja til þess að fá viðurkenningu sem samningsaðili gagnvart vinnuveitendum. Mér óar við því ef fleiri slíkir fulltrúar rísa hér upp á Alþ. til þess að hamra á þessu hættulega sjónarmiði, — hættulega sjónarmiði, segi ég, gagnvart verkalýðshreyfingunni í landinu. Hér er þá komið upp hið sannkallaða og ómengaða íhalds- og auðvaldssjónarmið, og það virðist vera að þessi hv. þm. verði fyrstur til þess nú að hampa því sjónarmiði.