02.12.1975
Sameinað þing: 27. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

70. mál, stofnun verðjöfnunarsjóðs vöruflutninga o.fl.

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 1. þm. Vestf. á þskj. 75 get ég verið stuttorður því að hún gefur ekki tilefni til umræðu. En fsp. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað líður störfum milliþn. sem kosin var samkv. þál. um stofnun verðjöfnunarsjóðs vöruflutninga og bætt skipulag þeirra flutninga frá 10. apríl 1973, og hvenær er þess að vænta að nefndin skili áliti?“

Eins og hv. þm. er kunnugt var núv. hæstv. menntmrh. formaður í þessari nefnd, en sagði af sér því starfi á síðasta þingi og var þá hv. 5. þm. Austf. kosinn í hans stað í nefndina og er hann formaður eins og hæstv. menntmrh. var áður. Svar mitt er því þaðan komið og er svo hljóðandi :

Árið 1973 kaus Alþingi milliþn. til þess að gera athugun á stofnun verðjöfnunarsjóðs vöruflutninga. Gagnasöfnun hefur farið fram og er að því stefnt að n. skili áliti snemma á næsta ári.

Hinn hluti fsp. er um kostnað við nefndina, og þar er svarið:

Samkv. upplýsingum ríkisbókhaldsins nemur bókfærður kostnaður við störf nefndarinnar til 31. okt. s. l. 845 þús. kr.

Þetta svar á að nægja við fsp. þessari.