02.12.1975
Sameinað þing: 27. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

70. mál, stofnun verðjöfnunarsjóðs vöruflutninga o.fl.

Fyrirspyrjandi (Jóhannes Árnason) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. svör við þessari fyrirspurn. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með að það sé að vænta tillagna frá þessari nefnd snemma á næsta ári.

Um þetta mál, skipulag vöruflutninga til landsins og flutninga innanlands, vil ég annars segja það, að það er engu líkara en á þessu sviði hafi orðið stór afturför hérlendis á síðustu árum og áratugum. Sú var tíðin að vöruflutningar voru beint frá útlöndum til hafna úti á landi í miklu ríkara mæli en nú er. Þá áttu verslanir á Ísafirði og víðar eigin skip sem önnuðust þessa flutninga. Það þarf að efla þá starfsemi að flytja vörur beint frá útlöndum til hafna úti á landi, t. d. á eina höfn í hverju kjördæmi eða landshluta, landsfjórðungi, og dreifa vörunum síðan þaðan á nálæga staði með bifreiðum eða skipum eða jafnvel flugvélum. En að svo miklu leyti sem þarf að flytja vörur frá Reykjavík, Akureyri og öðrum stöðum til kauptúna og kaupstaða við sjávarsíðuna, þá hallast ég helst að þeirri skoðun að eigi að flytja sem mest með skipum og miklu meira en hefur verið gert að undanförnu. Ég álít að þjóðhagslega séð hljóti sú leið að koma best út, enda verði við þessa flutninga við komið nýjustu tækni í vöruflutningum og sem mestrar hagkvæmni gætt. Þarna kemur einnig til að víða hefur verið ráðist í dýrar hafnarframkvæmdir sem þarf að nýta sem best.

Það var einmitt rétt áðan verið að fjalla um fsp. varðandi dýpkunarskip og bætta aðstöðu við hafnir landsins. Flutningar með vöruflutningabifreiðum eru einnig nauðsynlegir þar sem þeir eiga við, þ. e. á styttri vegalengdum og þar sem flutningum á sjó verður ekki við komið, en það er ekkert vit, má segja, í vöruflutningum sem tíðkast hafa á landi að undanförnu. Má sem dæmi nefna að áður en hringvegurinn var opnaður voru vörur fluttar með bifreiðum um Vesturland, Norðurland, síðan eftir Austurlandi og alla leið til Hornafjarðar. Ég get ekki meint að slík flutningastarfsemi geti verið hagkvæm, en þetta sýnir að þörf er á að koma betra skipulagi hér á.

Ég vil að lokum leggja áherslu á að hér er um þýðingarmikið mál að ræða, og ég leyfi mér að vænta þess að tillögur um þetta efni liggi fyrir fljótlega á næsta ári, eins og fram kom í svari hæstv. ráðherra.