02.12.1975
Sameinað þing: 28. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

Umræður utan dagskrár

Jónas Árnason:

Herra forseti. Mér er ekki alveg ljóst hvað fyrir hv. þm. vakir. Hann vill að endurtekin verði dagskrá sem á að hafa sýnt hvað íslenskir stúdentar séu róttækir í skoðunum, þetta væri nauðsynlegt vegna þess að Alþingi ætti bráðum að taka afstöðu til fjárveitinga upp á hundruð milljóna króna í sambandi við þetta fólk. Ég vil spyrja hv. þm. hvort skilja beri þetta þannig að hann vilji — vegna þess hvaða tónn var í þessari dagskrá stúdenta í gær — minnka fjárframlögin eða auka þau. Ég vænti þess að í þessu felist ekki hótun af hálfu hv. þm. um það, að vegna þess að þeir stúdentar, sem sáu um dagskrána í gær, reynast vera róttækir í skoðunum, þá skulum við skera niður fjárveitingar til Háskólans eða styrkveitingar til háskólastúdenta.