10.12.1975
Neðri deild: 26. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

107. mál, snjóflóð á Norðfirði og fjáröflun til Viðlagasjóðs

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð sem ég vildi segja við þessa umr. málsins, en málið fer nú í þá n. sem ég á sæti í og þar verður það athugað nánar.

Ég vit taka það fram að ég er ekki fullkomlega ánægður með þá leið sem hæstv. ríkisstj. hefur valið til þess að tryggja Norðfjarðardeild Viðlagasjóðs viðbótartekjur, þar sem nú er lagt til að færa á milli Vestmannaeyjadeildar og Norðfjarðardeildar. Ég hefði fremur óskað eftir því að þeir tekjustofnar, sem í gildi voru, hefðu verið framlengdir eitthvað til þess að fullnægja þörfum Viðlagasjóðs í sambandi við þær skuldbindingar sem teknar hafa verið. En það er að sjálfsögðu leið hæstv. ríkisstj. sem gildir í þessum efnum, ef hún telur að mögulegt sé að tryggja Norðfjarðardeild nauðsynlegt fjármagn með þessum hætti án þess að það þurfi að bitna á nokkurn hátt á vestmanneyingum, en ég skildi yfirlýsingu hæstv. forsrh., sem hann gaf hér, á þá lund að það yrði séð um það þrátt fyrir þessa millífærslu að vestmanneyingar fengju bætur sinar að fullu greiddar eins og gert hefði verið ráð fyrir skv. lögum og reglugerðum og fyrirheit hefðu verið gefin um. Verði þetta gert, annaðhvort á þann hátt að eftirstöðvarnar í Viðlagasjóði, Vestmannaeyjadeild, nægi til þess arna eða þá með því að afla víðbótartekna siðar, þá er að sjálfsögðu hægt að fara þá leið sem hér er lagt til, að gera þessa millífærslu á milli deildanna.

Ég vil sem sagt taka það fram, að það er mín skoðun að það megi ekki koma fyrir í þessum efnum að verið sé að taka það fé, sem á þarf að halda úr Vestmannaeyjadeild vegna tjónanna, sem þar hafa orðið, og færa það yfir í Norðfjarðardeild til þess að leysa þann vanda sem þar er. Það má ekki gerast, nema þá að tryggt sé að öðru leyti að staðið verði við allar skuldbindingar gagnvart vestmanneyingum.

En varðandi svo till. að öðru leyti, þar sem gert er ráð fyrir að tryggja Norðfjarðardeild allt að 200 millj. kr. til viðbótar við gildandi tekjustofn, þá vil ég strax taka það fram, að ég álit að eftir atvikum sé þetta fullnægjandi og eðlilegt að þetta sé gert. Að vísu er hér um nokkru lægri fjárhæð að ræða en við þrír þm., sem skipaðir vorum í sérstaka n. til þess að fylgjast með framkvæmd þessara mála, teljum að hefði þurft, en það breytir ekki því, að hér ætti ekki að skorta á meira en svo að það verður þá hægt að leiðrétta það síðar.

Að öðru leyti vil ég segja það, að grg. sú, sem fylgir þessu frv. af hálfu Viðlagasjóðsstjórnar, er að mínum dómi fremur villandi en hitt. Hún skýrir málið heldur lítið og í veigamiklum atriðum er hún alveg röng.

Það er rétt varðandi þær aths., sem hér hafa komið fram frá hv. 3. þm. Suðurl., þar sem hann spurði hvernig stæði á þessum mismun, að stjórn Viðlagasjóðs teldi að það þyrfti ekki að áætla Norðfjarðardeild nema 100 millj. kr. til viðbótar við gildandi tekjustofn, en við þessir þrír þm. áætluðum hins vegar að það þyrfti að tryggja deildinni til viðbótar 250 millj. Hér virðist vera og er um allverulegan mismun að ræða. En meginástæðurnar eru þær, að stjórn Viðlagasjóðs byggir enn þá á áætlanagerð sinni sem er að langmestu leyti studd við upphaflega áætlun um tjónabætur, en við byggjum hins vegar á framlögðum bótakröfum, reikningum sem liggja fyrir frá aðilum í Neskaupstað og við höfum kynnt okkur eftir því sem við höfum aðstæður til. Í þessu liggur sá mismunur sem hér er um að ræða. Það liggur ljóst fyrir að stjórn Viðlagasjóðs hefur ekki enn gert upp þessar tjónakröfur. Hvort endanleg niðurstaða verður nær því, sem stjórn Viðlagasjóðs segir hér, eða nær því, sem aðilar í Neskaupstað hafa lagt fram reikninga um, er ekki hægt að segja um á þessu stigi málsins. Það verður allt saman að gerast upp eftir gildandi lögum og reglugerð. En við töldum að miðað við þær bótakröfur, sem fram eru komnar og ekki hefur verið tekin afstaða til, þá vantaði þá fjárhæð sem tekin er fram í okkar bréfi.

Ég vil svo aðeins segja það, að ég sætti mig við það sem hér er lagt til í þessu frv. varðandi þá fjárhæð sem lagt er til að tryggja Norðfjarðardeildinni. Ég tel að í þessum till. komi fram af hálfu hæstv. forsrh. fullur skilningur á því að leysa verður það vandamál sem hér er um að ræða, og ég tel að af hans hálfu komi hér fram meiri skilningur en hjá stjórn Viðlagasjóðs sem mér finnst satt að segja að hafi ekki sýnt þann skilning á þessu máli sem hefði átt að koma fram. Og mér finnst að það hafi dregist úr hófi hjá stjórn Viðlagasjóðs að vinna að uppgjöri tjóna í þessu tilfelli eftir þeim reglum sem fara á eftir. En hitt vil ég hins vegar taka fram, að það er ekki undan neinu að kvarta varðandi það hvernig staðið hefur verið að uppbyggingu í Neskaupstað eftir tjónin þar. Það hefur verið reynt að tryggja nægilegt fjármagn til framkvæmdanna og það hefur tekist til þessa og uppbyggingunni hefur miðað mjög eðlilega eða vel áfram. Þetta á einnig við í sambandi við hafnargerðina sem fléttaðist inn í þetta mál.

Ég vil leggja áherslu á að það er mín skoðun að það verði að standa að þessum málum þannig að staðið verði að fullu og öllu við þau loforð sem gefin hafa verið til vestmanneyinga í sambandi við þeirra tjón og í sambandi við lög og reglugerðir. Hér er það alveg ljóst að vestmanneyingar hafa orðið fyrir miklu tjóni sem ekki verður bætt samkv. þeim reglum sem unnið hefur verið eftir. Þar stendur mikið eftir óbætt. Ég er alveg sannfærður um, að það gildir jafnt um einstaklinga og fyrirtæki og kaupstaðinn sjálfan, að þessir aðilar hafa orðið fyrir gífurlega miklu tjóni sem ekki verður bætt miðað við þær reglur sem unnið hefur verið eftir, svo að síst vildi ég verða til þess að draga á nokkurn hátt úr því að þeir fengju að njóta allra tekna Vestmannaeyjadeildarinnar í sambandi við endanlegt uppgjör þeim til handa. En að öðru leyti get ég vel sætt mig við að þessi mál verði leyst með þessum hætti og þá í trausti þeirrar yfirlýsingar, sem hæstv. forsrh. hefur hér gefið varðandi framhald málsins, varðandi það að standa við allar skuldbindingar jafnt gagnvart vestmanneyingum sem norðfirðingum.