10.12.1975
Neðri deild: 26. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

107. mál, snjóflóð á Norðfirði og fjáröflun til Viðlagasjóðs

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki ástæða til þess að ræða þetta mál miklu meira að svo stöddu heldur en gert hefur verið. Menn eru sammála um það, sem hér hafa talað, að það beri ekki að metast um hvort Norðfjörður eða vestmanneyingar fái meira eða minna í sinn hlut. Menn eru sammála um að það þurfi að gera að fullu upp á báðum þessum stöðum. Frá því fyrsta hefur það legið fyrir að ríkisstj. og Alþ. hafa viljað birta tjónin, bæði í Vestmannaeyjum og á Norðfirði, eftir því sem föng eru á. Um það voru gefnar yfirlýsingar í byrjun þegar Vestmannaeyjagosið kom og einnig þegar Norðfjarðarslysið varð og við þær hefur verið staðið.

Þetta frv. gerir ráð fyrir því að það verði tekið lán úr Vestmannaeyjadeild til þess að bæta Norðfirði að nokkru það sem á vantar þar. Þar liggur í augum uppi að ef Vestmannaeyjadeildin þarf á þessu fé að halda, sem líklegt er, að þá muni hæstv. ríkisstj. sjá um að þessi upphæð verði endurgreidd í einhverri mynd og meira ef þörf krefur. Sú yfirlýsing, sem hæstv. forsrh. gaf hér áðan, er alveg ótvíræð og í fullu samræmi við fyrri yfirlýsingar. Það er þess vegna engin ástæða til annars en að haldið verði áfram á þeirri hraut sem farin hefur verið síðan þessi slys urðu, að bæta tjónið eftir því sem nauðsyn ber til og eftir því sem þörf er á að yfirsýn bestu manna.

Skv. því bréfi, sem prentað er með þessu frv. frá stjórn Viðlagasjóðs, kemur greinilega fram að stjórn sjóðsins gerir sér ljóst að það liggur ekki enn fyllilega fyrir hversu miklar bætur til Vestmannaeyjakaupstaðar muni verða. Þess vegna er það að nú verður skipuð þriggja manna n. til þess að meta tjónin og endanlegar bætur. Grunur minn er sá að þegar n. hefur unnið komi í ljós, því miður, að það vanti talsvert fjármagn í Vestmannaeyjadeildina til þess að ríkisstj. og Alþ. geti staðið við sín fyrirheit. Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur tilnefnt mann í þessa n. eins og ætlast var til og er það Ólafur Helgason fyrrv. bankastjóri í Vestmannaeyjum. Allir flokkar í bæjarstjórn Vestmannaeyja hafa einróma samþ. að Ólafur taki þetta að sér. Þá verður einu maður frá hagdeild Seðlabankans og sennilega einn frá félmrn. eða Þjóðhagsstofnun.

Það er engin ástæða til annars en að þessi n. vinni af festu og góðri yfirsýn yfir þessi mál, og ég sé ekki ástæðu til annars en að fylgja þessu frv., úr því að talið var heppilegt að flytja það eins og það er og taka bráðabirgðalán úr Vestmannaeyjadeildinni sem verður endurgreitt ásamt meiru síðar þegar fyllilega kemur í ljós hversu mikið fjármagn þarf til þess að standa við gefin fyrirheit til Vestmannaeyjakaupstaðar og vestmanneyinga.