12.12.1975
Neðri deild: 28. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

107. mál, snjóflóð á Norðfirði og fjáröflun til Viðlagasjóðs

Frsm. (Tómas Árnason) :

Virðulegi forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á l. nr. 5 28. febr. 1975, um ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði og fjáröflun til Viðlagasjóðs. Nefndin hefur orðið sammála um að mæla með samþykkt frv.

5. gr. laga um ráðstafanir vegna snjóflóðanna í Norðfirði og fjáröflun til Viðlagasjóðs fjallar um það, að á tímabilinu 1. mars 1975 til 31. des. 1975 skuli leggja 2% viðlagagjald á söluskattsstofn allra sömu aðila og lög nr. 10 frá 1960, um söluskatt, taka til. Þessar tekjur skyldu renna til Viðlagasjóðs og skiptast þannig á milli Vestmannaeyjadeildar hans og Norðfjarðardeildar að 32% skyldu renna til Norðfjarðardeildar, en 68% til að mæta skuldbindingum Viðlagasjóðs vegna eldgossins í Vestmannaeyjum.

Efni þessa frv. er það, að aftan við 5. gr. þessara laga, sem ég las upp úr, verði 4. mgr. bætt við, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Á árinu 1976 er Viðlagasjóði heimilt að verja allt að 200 millj. kr. af eigu sinni til að standa að fullu við skuldbindingar sínar vegna snjóflóða í Norðfirði 20. des. 1974.“

Samkv. greiðsluáætlun fyrir Viðlagasjóð, Vestmannaeyjadeild, sem fylgir frv. á þskj. 130 sem fskj. I, er ljóst að deildinni hefur með núgildandi lagaákvæðum verið aflað nægilegs fjár til að standa við skuldbindingar sínar. Er þá gert ráð fyrir greiðslum til bæjarsjóðs Vestmannaeyja sem nema 800 millj. kr., og hefur sú upphæð þegar verið greidd að verulegu leyti. Hins vegar er mjög mikið af fé Vestmannaeyjadeildar fast í skuldabréfum og fasteignum. Seðlabankinn hefur lánað út á þessar eignir og skuldar deildin þar verulegt fjármagn. Skuldin við Seðlabankann mun samkv. greiðsluáætluninni nema 1031 millj. kr. nú um næstkomandi áramót og 624 millj. kr. að ári liðnu eða 31. 12. 1976 samkv. áætlun Viðlagasjóðs. Við þau áramót nema eftirstöðvar deildarinnar 1609 millj. kr., þannig að raunveruleg eignarstaða verður því 31. 12. 1976 985 millj. kr., en þann 30. 6. 1976 verður hins vegar staða Norðfjarðardeildar gagnvart Seðlabankanum samkv. greiðsluáætlun Viðlagasjóðs, sem fylgir frv. sem fskj. II. neikvæð um 100 millj. kr.

Með tilliti til þessa virðist ljóst að eignir Viðlagasjóðs veita nægilegt svigrúm til þess að verja allt að 2.00 millj. kr. af eign hans til að standa við skuldbindingar vegna snjóflóðanna í Norðfirði. Fjh.- og viðskn. leggur áherslu á það að staðið verði að fullu við allar skuldbindingar stjórnvalda vegna eldgossins í Vestmannaeyjum og snjóflóðanna í Neskaupstað og vísar í nál. sínu til yfirlýsingar hæstv. forsrh. þar að lútandi.

Varðandi fjárhag Vestmannaeyjadeildarinnar liggur annars vegar fyrir að lög Viðlagasjóðs heimila sjóðnum ekki að leysa fjárhagsvanda bæjarsjóðs Vestmannaeyja. Hins vegar eru aðilar sammála um að úttekt verði gerð á stöðu bæjarsjóðsins, og í grg. kemur þar fram svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Hefur verið ákveðið, að félmrn., Seðlabanki Íslands og bæjarstjórn Vestmannaeyja skipi hver sinn fulltrúa til að gera úttekt á fjárhagsvanda bæjarsjóðs Vestmannaeyja. Með hliðsjón af þessari úttekt verður tekin ákvörðun um lausn á fjárhagsvanda bæjarsjóðs. Þá hlýtur m. a. að koma til athugunar hvernig unnt er að nýta eignir Viðlagasjóðs í því skyni.“

Varðandi Norðfjarðardeildina er uppgjör enn þá í meðferð og hvergi nærri lokið. Samkv. reglugerð er gert ráð fyrir því að náist ekki samkomulag við tjónþola skuli sjóðsstjórn úrskurða um bætur. Vilji tjónþoli ekki sætta sig við það getur hann krafist álits dómkvaddra manna um hæfilegar bætur. Ágreiningur getur því orðið og þess vegna erfitt að sjá fyrir nú hverjar endanlegar fjárþarfir Norðfjarðardeildarinnar kunna að verða.

Ég vil taka það fram að þn., sem skipuð var til þess að hafa milligöngu á milli Viðlagasjóðs og heimamanna í Neskaupstað, hefur fundist að uppgjör gangi seint og hefur lagt á það áherslu um nokkurn tíma að því verði hraðað og það er raunar nauðsynlegt til þess að þessi mál liggi fyrir í heild sem ljósast og sem fyrst.

Það kemur fram í nál. fjh.- og viðskn., að einn nm., Gylfi Þ. Gíslason, tekur fram að hann geri ráð fyrir því að sömu reglur gildi um bótagreiðslur í Neskaupstað og gilt hafa í Vestmannaeyjum. Stjórn Viðlagasjóðs reynir að gæta fyllsta samræmis við uppgjör tjóna í Vestmannaeyjum og Neskaupstað, svo fremi að atvik séu sambærileg.

Eins og kunnugt er, stóð síldar- og loðnuverksmiðjan í Neskaupstað á því hættusvæði sem allir aðilar skipulagsmála eru nú sammála um að leyfa ekki byggð á. Þess vegna var ákveðið að flytja verksmiðjuna og byggja hana upp á athafnasvæði nýju hafnarinnar við Norðfjarðarbotn. Til þess að það væri mögulegt varð að byggja uppfyllingu undir verksmiðjuna og gera allmikið athafnapláss fyrir hana. Þetta raskaði stórlega öllum ráðagerðum um byggingu hafnarinnar í Neskaupstað og krafðist verulegra viðbótarframkvæmda til þess að flutningurinn væri hugsanlegur.

Hæstv. samgrh. gekk í þetta mál og heimilaði byrjun framkvæmda, en það var afar þýðingarmikið með tilliti til þess að möguleikar væru á því að uppbygging verksmiðjunnar væri það langt á veg komin áður en loðnuvertíð hefst í byrjun næsta árs, að mögulegt væri að nýta hana. Síðan hefur í öllum atriðum verið staðið mjög drengilega að þessu máli af hæstv. samgrh. og sé ég ástæðu til þess að færa honum stakar þakkir fyrir framgöngu hans í málinu. Þessar hafnarframkvæmdir hafa nú þegar kostað um eða yfir 150 millj. kr., sennilega um 160 millj. kr., sem er auðvitað miklu, miklu meira fé en ráðgert var til hafnarframkvæmda í Neskaupstað á þessu ári. Stafar þetta fyrst og fremst af því að náttúruhamfarirnar ollu svo mikilli röskun á öllum sviðum athafnalífsins.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þessa framsögu frekar, en vil mælast til þess við hv. þd. að málinu verði hraðað svo að það geti fengið örugga afgreiðslu fyrir n. k. áramót.