15.12.1975
Neðri deild: 30. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

110. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) ; Hæstv. forseti. Frv. því, sem hér um ræðir, er ætlað að koma í stað gildandi l. um aukatekjur ríkissjóðs frá árinu 1965. Á þeim áratug, sem liðinn er frá gildistöku þeirra laga, hafa orðið mjög stórfelldar breytingar á verðlagi og kaupgjaldi hér á landi. Þessar breytingar hafa leitt til þess að verulegt misræmi hefur skapast í gjaldtöku hinna einstöku gjalda samkv. lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Þau gjöld, er miðast við fjárhæð tiltekinna skjala eða eru á annan hátt tengd fjárhæðum tiltekinna lögskipta, hafa hækkað í samræmi við almenna verðlagsþróun. Á hinn bóginn hafa gjöld, er bundin eru við tiltekna fjárhæð, í reynd lækkað stórkostlega og standa nú flest þeirra engan veginn undir þeim kostnaði sem leiðir af þeim dóms- eða stjórnsýsluathöfnum sem þau eru tengd.

Frv. þetta gerir ráð fyrir nær óbreyttum tekjum ríkissjóðs af þinglýsingu skjala og af skipta- og uppboðsgerðum, en þessir tekjustofnar eru langþýðingarmestir tekjustofnar aukatekjulaganna.

Hins vegar er frv. ætlað að skapa svigrúm til að tryggja að ríkissjóður fái jafnan eðlilega greiðslu fyrir þá vinnu og annan kostnað sem óhjákvæmilegur er í tengslum við dómsmál, gerð og frágang skírteina og skjala og ýmiss konar eftirlitsstörf sem þeim eru tengd. Rétt er að vekja athygli á því að gert er ráð fyrir að í reglugerð verði tölur einstakra dómsmálagjalda ákveðnar af dómsmrh., en þau gjöld, sem samræma þarf milli rn., svo sem vegna útgáfu skírteina ýmiss konar, verði ákveðin af fjmrn. Að öðru leyti en því, sem hér hefur verið frá skýrt, tel ég að frv. þarfnist ekki skýringa umfram það sem tekið er fram í grg. þess. Frv. er komið frá hv. Ed. Ég legg svo til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.