15.12.1975
Efri deild: 29. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

101. mál, verðjöfnunargjald raforku

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur athugað frv. til l. um verðjöfnunargjald raforku, 101. mál. Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu frv. Meiri hl. n. skilar séráliti sem kemur fram á þskj. 177. Undir það skrifa 4 nm. Tveir nm. voru fjarverandi, Jón G. Sólnes og Stefán Jónsson, en Albert Guðmundsson greiddi atkv. gegn umræddu frv.

Frv. þetta fjallar um framlengingu verðjöfnunargjalds raforku sem samþ. var á Alþ. 5. sept. 1974. Þar er um að ræða 13% gjald, sem rennur í Orkusjóð, af seldri raforku á síðasta stigi viðskipta, þ. e. sölu til notenda. Verðjöfnunargjaldi þessu er ráðstafað til að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins samkv. nánari ákvörðun ráðh. orkumála að fengnum tillögum stjórnar Orkusjóðs.

Fjárhagur Rafmagnsveitna ríkisins hefur, eins og kunnugt er, verið mjög bágborinn og stafar það m. a. af því að Rafmagnsveiturnar hafa neyðst til þess upp á síðkastið að reka margar dísilstöðvar og selja raforku frá þeim stöðvum langt undir kostnaðarverði. Er það liður í þeirri viðleitni, sem marglýst hefur verið hér á hv. Alþ., að stefna beri að því að jöfnun verði á verði raforku til landsmanna allra. Ekki fannst önnur leið fær á síðasta ári en að bæta þetta með umræddu verðjöfnunargjaldi. Ástandið að þessu leyti er óbreytt. Fjárhagur Rafmagnsveitna ríkisins er ákaflega erfiður og er því vart nema um tvennt að ræða: annars vegar að hverfa frá þessari verðjöfnun, sem ég vil þó taka fram að er hvergi nærri fullkomin, eða framlengja þetta verðjöfnunargjald. Frv., sem hér er til umr., stefnir að því að framlengja gjaldið um eitt ár.

Ég og meiri hl., sem skrifar undir nál., telur þetta rétt, en ég vil segja fyrir mitt leyti að ég vil um leið leggja á það ríka áherslu að allur rekstur Rafmagnsveitna ríkisins verði tekinn til endurskoðunar og viðtæk athugun gerð á öllum framkvæmdum okkar landsmanna á raforkusviðinu. Þar er samræming ákaflega lítil. Þar eru margir aðilar með framkvæmdir. Þar eru Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins og 22 aðrar rafveitur hingað og þangað um landið, þar er Kröflunefnd, þar er Suður-Fossárnefnd, svo að eitthvað sé talið. Ég hygg að öllum megi vera ljóst að á sviði þessara miklu og kostnaðarsömu framkvæmda er nauðsynleg mikil fjárhagsgát og ber að fara að öllu með sérstakri varúð til þess að um tvíverknað og mikið fjárhagstjón verði ekki að ræða. Í þessu skyni má að vísu telja ákvæði í lógum um Orkustofnun, þar sem sagt er að Orkustofnun skuli vinna að samræmingu á sviði raforkuframkvæmda, en staðreyndin er sú að þeirri stofnun hefur ekki reynst það kleift, þannig að þetta mál er í fáum orðum sagt í mjög miklum molum. Þetta vil ég að komi hér fram og undirstrika að það er mín skoðun að þarna sé um mjög aðkallandi mál að ræða, samræmingu þessara framkvæmda allra og rekstrar raforkukerfisins í heild.

Ég ætla ekki að setja hér fram neinar hugmyndir um það. Það verður að bíða betri tíma. En um leið og ég mæli með því að þetta verðjöfnunargjald verði framlengt, legg ég á það ríka áherslu að fljótlega verði tekið svo á málum að dugi.