15.12.1975
Efri deild: 29. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

101. mál, verðjöfnunargjald raforku

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Því miður kom ég of seint til fundar í iðnn., þar sem fjallað var um þetta mál laust eftir hádegið í dag. Það skal tekið fram, að þá hafði ég ekki fengið boð um að fundur yrði haldinn í Ed. í dag, og dagskrá, sem útbýtt var í morgun, gerði ekki ráð fyrir því. Ég vil að það komi fram, að ég er í aðalatriðum samþykkur frv. Aftur á móti hefði ég talið eðlilegt að aðferðin til fjáröflunarinnar yrði endurskoðuð núna. Ég er andvígur því að þetta mál verði leyst til frambúðar með föstu hlutfallsgjaldi, og ég hefði talið eðlilegt að rannsókn á fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins og stöðu Rafmagnsveitnanna hefði verið gerð, a. m. k. byrjuð hressilega á þessu ári. Eins og hv. síðasti ræðumaður, Steingrímur Hermannsson, tók fram, hefur hann áður lýst yfir þeirri skoðun sinni að nauðsynlegt sé að taka þessi mál til endurskoðunar. Hér á hv. Alþ. í fyrra vakti hann athygli á óeðlilegum mismun á raforkuverði t. d. í Þrándheimi í Noregi og hér, þar sem verðmunur á rafmagni var þá og er enn ríflega fimmfaldur.

En sem sagt, ég lýsi yfir samþykki mínu í aðalatriðum við þetta frv. vegna þess að nú er ekki annarra kosta völ en að framlengja þetta gjald óbreytt, úr því að ekki voru gerðar aðrar ráðstafanir fyrr á árinu.