17.12.1975
Efri deild: 31. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir til umr. um ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða o. fl. er framlenging um eins árs skeið á lögum nr. 6 1975 um sama efni, en ákvæði þeirra falla úr gildi 29. febrúar n. k. Í frv. er gert ráð fyrir að framlengja ákvæði laga nr. 6 1975 óbreytt.

Eins og fram kemur í aths. með frv. er gert ráð fyrir að gjöld samkv. l. nr. 6 1975 frá 1. mars 1975 til 29. febr. 1976 verði sem hér segir: Fyrir einstaklinga 750 millj. kr. til rafveitna 55 millj. kr. og til Orkusjóðs 315 millj. kr. Verður að gera ráð fyrir að greiðslur til einstaklinga lækki nokkuð á næsta tímabili vegna hitaveituframkvæmda í Kópavogi, Garðahreppi og Hafnarfirði og víðar. Gera má ráð fyrir að tekjur af því söluskattsstigi, sem lagt er á í þessu skyni, hækki einnig nokkuð á næsta tímabili, þannig að þær verði um 1250 millj. kr. Má ætla að rúmlega helmingur þeirrar fjárhæðar renni til einstaklinga, en tæpur helmingur til rafveitna og þó aðallega til Orkusjóðs. Á tímabilinu mars til nóv. 1975 hefur olíustyrkur til einstaklinga numið 6000 kr. eða 2000 kr. á hverju 3 mánaða tímabili og styrkur þá til þeirra, sem njóta eins og hálfs styrks, verið 9000 kr. eða 1000 kr. á mánuði. Í des. 1975 til febr. 1976 verður hann 2200 kr. á mann og 3340 kr. til þeirra sem fá einn og hálfan styrk. Greiðsla til rafveitna hefur frá upphafi numið kr. 5.33 á lítra af þeirri olíu sem talið er að hafi verið notuð til framleiðslu rafmagns til upphitunar íbúðarhúsnæðis.

Það er ekki vafi á því, að greiðslurnar til Orkusjóðs hafa mjög aukið getu hans til að hraða jarðhitarannsóknum. Hefur Orkusjóður m. a. lánað sveitarfélögum og einstaklingum 60% af kostnaði þeirra vegna jarðhitaleitar með borunum og öðrum hætti. Ég tel fyrir mitt leyti rétt að stefnt sé að því að efla starfsemi þessa. Hækkun á olíustyrk til einstaklinga, ef menn vildu fara inn á þá leið, mundi þýða lægri greiðslur til jarðhitarannsókna, sem hefði aftur á móti í för með sér tafir á því að losna við olíuna sem orkugjafa.

Ég held, herra forseti, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég tel að það sé alveg skýrt, hvað hér er um að tefla, og vona að það verði út af fyrir sig ekki ágreiningur um framlengingu laganna. Ég veit að sú nefnd, sem fær málið til meðferðar, mun athuga það og henni gefst tími og ráðrúm til að athuga það gaumgæfilega, vegna þess að gildistími laganna rennur ekki út fyrr en 29. febr. á næsta ári.

Ég leyfi mér svo, herra forseti að leggja til að þessu frv. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. að þessari umr. lokinni.