18.12.1976
Efri deild: 27. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

128. mál, Bjargráðasjóður

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Félmn. hefur fjallað um frv. það sem hér er til meðferðar, og mælir með samþykkt þess. Við afgreiðslu málsins var Axel Jónsson fjarverandi.

Þetta frv. felur í sér eflingu á Bjargráðasjóði. Það er gert ráð fyrir að framlög sveitarfélaga til sjóðsins hækki úr 50 kr. á íbúa í 150 kr. á íbúa, en framlag sveitarfélaganna hefur verið óbreytt í krónutölu allt frá því í ársbyrjun 1970. Þá felur þetta frv. í sér að framlag búvöruframleiðenda hækki úr 0.25% samkvæmt gildandi lögum í 0.35% af söluvörum landbúnaðarins, og er þar um 40% hækkun að ræða, auk þess sem hér er um verðtryggðan tekjustofn að ræða sem hækkar með hækkuðu útsöluverði búvara. Mótframlag ríkissjóðs mun samkvæmt frv. hækka sjálfkrafa.

Ef breytingar þær, sem í þessu frv. felast, verða að lögum munu tekjur Bjargráðasjóðs af þeim ástæðum tvöfaldast, en tekjur sjóðsins voru á þessu ári áætlaðar 70–80 millj. kr. Þetta þýðir, að ef frv. verður að lögum, þá má ætla að tekjur sjóðsins á árinu 1977 verði 140–160 millj. kr., að viðbættum tekjum sem stafa af fólksfjölgun og hækkuðu búvöruverði ef til kemur.

Þetta er meginefni frv. Ég sé ekki ástæðu til að rekja þetta mál í þessari framsögu nánar. Hæstv. félmrh. gerði ítarlega grein fyrir málinu í framsögu sinni við 1. umr. hér í d. í gær.