20.12.1976
Neðri deild: 35. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (1149)

119. mál, tollskrá o.fl.

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá atriði sem ég vil minnast á við þessa umr. og afgreiðslu þessa máls. Raunar ætlaði ég að spyrja hæstv. fjmrh. og leggja fyrir hann einar tvær spurningar, en því miður er hann hér ekki staddur.

Það er í fyrsta lagi það, að það eru verulegir tollar t. d. á öllu efni til að gera hitaveitu, en eins og hv. þm. vita um í sambandi við rafvirkjanir eða virkjunarframkvæmdir, raforkuvirkjanir, þá eru engin gjöld af þeim. Þetta gerir það að verkum að nýting jarðhita, ekki síst á strjálbýlli svæðum, gæti verið hagkvæm ef ríkið felldi niður öll gjöld af slíkum framkvæmdum, þó að slíkt sé útilokað undir þeim kringumstæðum sem mér skilst að séu nú. Mér er ljóst að þetta efni er þannig að það er ekki hægt að fella það niður úr tollskrá, heldur yrði að endurgreiða þessi gjöld og tryggja fyrir fram að það verði gert. Ég hefði sem sagt viljað spyrja um það, hvað rn. eða ríkisstj. mundi vilja gera í þessu efni. (Forseti: Ég vil láta hv. þm. vita að ég hef gert boð fyrir hæstv. fjmrh.) Ég þakka þér fyrir.

Í öðru lagi voru miklar umr. á hv. Alþ. og eins annars staðar, þegar við gengum í EFTA, og þá var rætt dálitið um hvernig yrði farið með í sambandi við aðra atvinnuvegi, þ. e. a. s. landbúnað og sjávarútveg, þegar yrði orðið við því að lækka tolla á samkeppnisiðnaðinum. Ég er hér með bréf, sem er dags. 28. nóv. 1969, og með leyfi forseta ætla ég að lesa hérna einn lið úr þessu bréfi og upphaf þess. Það er þannig:

„Rn. hefur móttekið bréf Stéttarsambands bænda, dags. 24. þ. m., þar sem óskað er upplýsinga um eftirgreind sjö atriði vegna hugsanlegrar aðildar Íslands að EFTA:

1. Verður tollur lækkaður á landbúnaðarvélum, heyskapartækjum, tilbúnum húsum, varahlutum í vélar, landbúnaðarbílum og öðrum vörum til landbúnaðarins? Ef svo er, í hvaða áföngum, og er það með sama hætti og hjá iðnaði og sjávarútvegi?“

Svör rn. við þessum 1. lið eru þannig, með leyfi forseta:

„Um 1. lið. Sama regla verður um toll á vélum vegna framleiðsluatvinnuveganna.“

Þetta bréf er undirskrifað af þáv. landbrh. Nú dettur mér ekki í hug annað en það verði orðið við þessari yfirlýsingu. En þá er bara spurningin hvernig á að framkvæma það. Ég sé að í þeim breytingum, sem nú eru, er þetta ekki framkvæmt nema að litlu leyti, að vísu að sumu leyti, en öðru ekki. Og þá hefði ég viljað fá að vita um það, hvernig á að verða við þessari yfirlýsingu og þessari stefnumótun sem var gerð á þessum tíma.

Það er eitt atriði, sem hefur komið upp í hendur mínar núna, sem sýnir hvernig þetta getur orðið hjákátlegt í framkvæmd á þessum málum. Það er afskekktur sveitabær sem fær ekki rafmagn frá samveitu. Hann verður því að fá dísilstöð. Þessi dísilstöð, sem er um 15 kw, kostaði eitthvað rúmar 1400 þús. kr. En gjöldin af þessu til ríkisins, þ. e. a. s. tollur, söluskattur og annað, eru rúmar 600 þús. Hefði þessi rafall verið t. d. í skip, þá hefði ríkið ekki tekið neitt af þessu. Svona þarf auðvitað að athuga og leiðrétta.

Þetta frv., sem hér liggur nú fyrir til umr., er upp á rúmar 250 bls., og það tekur sinn tíma að fara í gegnum það og gera sér grein fyrir, hvernig þessi gjöld eru, og sjá, hvaða samræming er þarna á milli hinna ýmsu vöruflokka. Mér sýnist við lestur á þessu að það mundi ekki veita af að taka tollskrána alla til endurskoðunar. Mér er auðvitað ljóst að það er ekki endalaust hægt að lækka alla tolla og skatta. Ríkið þarf að fá sitt til þess bæði að geta jafnað á milli og til alls þess sem við viljum í sambandi við rekstur þess, framkvæmdir og samneyslu. En það má athuga um að samræma þetta betur. Mér finnst a. m. k. þegar ég les tollskrána að sums staðar hefði mátt hækka tolla og í öðrum tilvikum séu þeir allt of háir, eins og hv. síðasti ræðumaður og fleiri raunar hafa bent hér á.

Ég sé nú að ráðh. er ekki kominn og vil ekki tefja þessa umr., en ég vil bara vekja athygli á því, að nú við afgreiðslu á þessu máli hefur ekki verið orðið nema að dálitlu leyti við þeirri stefnumörkun að t. d. landbúnaður yrði afgreiddur á svipaðan hátt og hinir atvinnuvegirnir, og það mál hlýtur að koma til skoðunar síðar.