20.12.1976
Sameinað þing: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

1. mál, fjárlög 1977

Frsm. samvn. samgm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Á þskj. 232 flytur samvn. samgm. brtt. við 4. gr. fjárl. um styrki til flóabáta og vöruflutninga. Í fjárlagafrv. er þessi fjárhæð 82 millj. 830 þús. eða sama tala og ákveðin var á fjárl. þessa árs. Ég mun nú gera nokkra grein fyrir störfum n. að þessu sinni og nál. á þskj. 231.

Alþm. þeir, sem skipa samvn. samgm., eru fulltrúar í samgn. beggja þd., 14 að tölu. Hefur sú regla gilt frá fornu fari að n. ynnu saman að þessu máli. Ég ætla að þessi háttur eða vinnubrögð hafi reynst vel. Mætti meira af slíku gera, a. m. k. ætti það að spara tíma, en tíminn er eitt hið mesta verðmæti, ekki síst á síðustu þingdögum fyrir jól. Þetta snertir og það málefni sem hreyft hefur verið, hvort ekki sé ástæða til að skoða vandlega þá hugmynd að breyta Alþingi íslendinga í eina málstofu, en það er önnur saga sem verður ekki gerð að umtalsefni að þessu sinni.

Samvn. samgm. hefur að venju fjallað um mörg erindi sem borist hafa um framlög af ríkisfé til flóabáta og vetrarflutninga. N. kallaði á sinn fund Guðmund Einarsson forstjóra Skipaútgerðar ríkisins og Halldór S. Kristjánsson — það stendur í grg., Halldór Kristjánsson fulltrúa í samgrn., en það mun vera rangt, hann er deildarstjóri og leiðréttist það hér með. Veittu þessir menn n. ýmsar gagnlegar upplýsingar, sérstaklega að því er varðar rekstur hinna stærri flóabáta. Þá hafa margar umsóknir borist til n. frá ýmsum aðilum sem annast ferðir og flutninga í snjóþungum byggðarlögum. Hér er um að ræða beltabifreiðar og önnur ökutæki sem henta til vetrarferða, flugvélar og smærri báta. Þessi farartæki þurfa að vera sterkbyggð og traust svo að þau geti komist fyrirvaralaust þegar slys eða annan bráðan vanda ber að höndum. Það má augljóst vera að útgerð slíkra farartækja er ærið kostnaðarsöm. Það má því gott kallast í flestum tilvikum ef unnt er að komast hjá miklum hallarekstri. Ljóst er að margir þeir, sem slík störf annast, leggja mikið á sig, en fá oft lítið í aðra hönd. En lengi hefur verið talið bæði rétt og skylt að styðja við bakið á þeim sem veitt hafa svo mikilvæga þjónustu víðs vegar úti um byggðir landsins. Þess vegna hefur n. talið sjálfsagt að skoða hverja umsókn vandlega og reyna að koma til móts við óskir manna þó að erfitt sé að sjálfsögðu að gera svo öllum líki í þessum efnum sem öðrum.

Að þessu sinni bárust umsóknir frá 44 aðilum. Flestir eru það gamlir kunningjar. Nýjar umsóknir komu frá útgerð tveggja snjóbifreiða á Vestfjörðum: um Sandsheiði yfir á Ingjaldssand og til mjólkurflutninga í Önundarfirði. Bráðum þessum aðilum var veittur nokkur fjárstyrkur, sbr. þskj. 232, tölul. 41 og 43. Þá barst umsókn frá hinu nýja Vestmannaeyjaskipi, Herjólfi, og enn fremur frá Kaupfélagi strandamanna, Norðurfirði á Ströndum, en að þessum umsóknum verður nánar vikið síðar. Allar umsóknir voru, eins og ég sagði, skoðaðar vandlega og afgreiddar jákvætt með einhverjum fjárstuðningi, utan ein sem afgreidd er með sérstökum hætti.

Eins og ljóst má vera reyndist ekki unnt að taka allar fjárbeiðnir til greina að fullu. Ber þar margt til. Í fyrsta lagi er misjafn háttur manna hversu háar tölur eru nefndar í umsóknum um þessa heims gæði. Í annan stað er frágangur umsókna mjög mismunandi. Sumum fylgja ítarleg gögn og glöggar greinargerðir, öðrum nær engar upplýsingar. Hér er orðið um miklar fjárhæðir að ræða svo að full ástæða er til að krefja umsækjendur um öll þau gögn, sem máli skipta, og greinargóða málsútlistun. Hitt er hafið yfir allan vafa, að rekstur sá, sem hér um ræðir, er erfiður og fjárfrekur, en nauðsynlegur að sama skapi, svo að víðast hvar mun vera rík þörf fyrir fjárstuðning sem mestan.

Þegar sams konar mál var afgreitt fyrir ári var mikillar forsjálni og aðhaldssemi gætt af hálfu n. sem oftast áður. Óhjákvæmilegt var þó að hækka nokkrar fjárveitingar allverulega. Þessi heildarfjárveiting hefur löngum verið með því marki brennd að hækka ár frá ári eins og aðrar tölur fjárl. yfirleitt. Hún ber þannig „keim og eim síns aldarfars“. Þó var það svo, að við skiptingu þessa fjár í des. fyrir ári voru allmargar fjárveitingar til snjóbifreiða og vetrarflutninga látnar standa í stað óbreyttar að krónutölu. Ljóst er að ekki er hægt að hafa þennan hátt á mörg ár í röð. Nm. hurfu því að því ráði að þessu sinni að miða við 30% hækkun almennt á milli ára. Þeirri reglu er þó engan veginn fylgt út í ystu æsar, en hún er yfirleitt höfð til hliðsjónar. Sumir styrkir hækka þó mun meira en þessu nemur. Er margt sem því veldur, en fyrst og fremst sú tilfinning og almenn skoðun manna að sú þjónusta við almenning um gervalla landsbyggðina, sem hér er um að fjalla, sé svo mikilvæg að hana beri umfram allt að styrkja og styðja af fremsta megni. Aðallega er um rekstrarstyrki að ræða, en á nokkrum stöðum er veittur svokallaður stofnstyrkur til allt að þriggja ára, ef um endurnýjun eða meiri háttar endurbætur er að ræða á dýrum farartækjum. Ég mun nú víkja nokkrum orðum að umsóknum þessum eftir landfræðilegri skiptingu. Nefni ég þá aðallega hina stærri rekstraraðila.

Norðurlandssamgöngur: Þar er það Norðurlandsbáturinn Drangur sem hefur um margra ára skeið haldið uppi ferðum frá Akureyri um Eyjafjörð, Ólafsfjörð og Siglufjörð, enn fremur til Hríseyjar og Grímseyjar. Hann annast flutninga á mjólk og öðrum nauðsynjum. Rekstur hans virðist hafa gengið vel. En báturinn er orðinn 17 ára. Viðhald er því allverulegt, m. a. þarf að gera vélina upp. Lagt er til að styrkur til bátsins hækki nú um tæpar 5 millj. kr.

Hríseyjarbátur eða ferja er í förum milli Dalvíkur og Hríseyjar. Hann er orðinn 18 ára gamall. Þörf er því fyrir nýjan ferjubát. N. leggur til að styrkur til Hríseyjarferju hækki um 400 þús kr.

Þá verður Grímseyjarflug eða flugferðir til Grímseyjar styrkt með svipuðum hætti og verið hefur.

Enn fremur er veittur styrkur til nokkurra snjóbeltabifreiða í Norðlendingafjórðungi og flugbjörgunarsveitar á Akureyri.

Þá nefni ég Austfjarðasamgöngur. Á Austfjörðum sækir Mjóafjarðarbátur um hækkaða fjárveitingu og auk þess um sérstaka hækkun vegna vetrarferða að Dalatangavita. Fallist hefur verið á hækkun sem nemur 500 þús. kr.

Allt að einum tug snjóbifreiða á fjallvegum austanlands fær svipaðan styrk og verið hefur með hliðsjón af verðlagshækkunum. Þó er styrkur til snjóbifreiðar á Oddsskarði hækkaður verulega. Eins og kunnugt er er það einn hæsti fjallvegur landsins og talið að göng þau, sem nú er unnið að á þeim slóðum, verði ekki fullgerð fyrr en eftir tvö ár. Ég skal geta þess að umsóknin um flutningastyrk á Oddsskarði var að þessu sinni mjög rækilegum rökum studd og þótti því ástæða til að hækka fjárveitingu til þessa erfiða fjallvegar og leggja að jöfnu Fjarðarheiði og Oddsskarð, en það telja þeir, sem kunnugir eru á þessum slóðum, ekki fjarri lagi.

Þá eru það Suðurlandssamgöngur. Vöruflutningar á langleiðum sunnanlands til hinna hafnlausu byggða í Skaftafellsþingi eru styrktar á svipaðan hátt og verið hefur. Þá er nokkur styrkur veittur til vetrarferða í Víkurumdæmi.

Þá bætist við nýr liður sem sjálfsagt þótti að taka til greina. Það er Vestmannaeyjaskipið Herjólfur sem hóf göngu sina á þessu ári. Því eru nú ætlaðar 30 millj. kr. auk styrks vegna mjólkurflutninga. Segja má þó að hér sé aðallega um tilfærslu að ræða þar sem gamli Herjólfur var rekinn af Skipaútgerð ríkisins, og þess má geta að árið 1975 mun hann hafa verið rekinn með nær 50 millj. kr. rekstrarhalla.

Faxaflóasamgöngur: Flóabáturinn Akraborg heldur uppi reglubundnum ferðum á hinni fjölförnu leið milli Akraness og Reykjavíkur. Annast hf. Skallagrímur þá útgerð. Verkefni ferjunnar eru oft mikil, eins og flestum er kunnugt, sérstaklega við bifreiðaflutninga og farþega, og tekjur allháar. En það er útgerðinni fjötur um fót að hún verður að standa straum af óhagstæðum lánum til skamms tíma frá því að skipið var keypt til landsins, og veldur það allmiklu og ég vil segja verulegu óhagræði í rekstrinum eins og er. Lagt er til að styrkur til þessa skips verði 25 millj. kr.

Einnig er lagt til að Mýrabátur hljóti svipaðan styrk og verið hefur eða 50 þús. kr. með hliðsjón af verðlagshækkunum. Það var satt að segja álit nm. að það tæki því ekki að úthluta í þessu skyni lægri styrk en 50 þús. kr.

Um Breiðafjarðarsamgöngur er það að segja, að Breiðafjarðarbáturinn Baldur, sem á lögheimili og varnarþing í Stykkishólmi, annast ferðir og flutninga um Breiðafjörð með líkum hætti og verið hefur undanfarin ár. Hann fer vikulega a. m. k. til Reykjavíkur og reglubundnar ferðir til Flateyjar eða um Flatey til Brjánslækjar á Barðaströnd, einnig um Gilsfjörð, Hvammsfjörð og vestureyjar. Vegna flokkunarviðgerðar og tjóna var hann í skipasmíðastöðinni Skipavík í Stykkishólmi s. l. vetur eða frá því í okt. 1975 þar til í apríllok 1976. Þegar farið var að gera við hann kom í ljós leynd tæring í gólfi sem engan hafði grunað að væri þar og viðgerð á því reyndist mjög kostnaðarsöm. En segja má að framkvæmd hafi verið s. l. vetur allsherjarviðgerð á skipinu, gagngerð viðgerð, þannig að það á nú að vera fært í flestan sjó. Lagt er til að styrkur til Baldurs verði 30 millj. kr.

Á undanförnum árum hefur Langeyjarnesbátur verið styrktur til ferða frá Stykkishólmi um eyjarnar upp í Hnúksnes í Klofningshreppi í Dalasýslu. Talið er rétt að svo verði gert áfram.

Þá er rétt að geta þess, að veittir eru þrír smástyrkir til vetrarflutninga á Vesturlandi.

Loks eru það Vestfjarðasamgöngur. Þar er það Djúpbáturinn Fagranes sem annast ferðir og flutninga um Ísafjarðardjúp, mjólkurflutninga til Ísafjarðar, m.a. frá Dýrafirði og Önundarfirði. Rekstur þess báts hefur gengið erfiðlega að undanförnu. En það verður að segjast eins og er, að send hefur verið nákvæm og mjög skilmerkileg grg. um öll hans mál til n. Leggur hún til að hann fái styrk að fjárhæð 25 millj. kr. á fjárl. 1977.

Þá er veittur nokkur styrkur til Dýrafjarðarbáts og átta annarra aðila á Vestfjörðum sem annast vetrarflutninga og ferðir aðallega á snjóbílum.

Vera má að mönnum finnist hækkun sú hin tölulega, sem verður á þessum lið frá fyrra ári, vera nokkuð mikil. Meginskýringin er sú, að Herjólfur, hið nýja Vestmannaeyjaskip, hinn dýri og glæsilegi farkostur, er nú tekinn með undir þessum lið. Við það hækkar heildarfjárhæðin um tæpar 32 millj. kr., eins og ég gat um áðan. Öllum þótti á hinn bóginn sjálfsagt að taka þessa umsókn til greina, og sennilega er hún mjög hófleg miðað við ýmislegt annað, ef taka á tillit til verðmætis skipsins og smíðaverðs. En það hefur verið rætt um það að styrkir til þessa skips séu nokkurs konar vegafé vestmanneyinga, og má það til sanns vegar færa, hygg ég, að töluverðu leyti. En sé þessi fjárhæð dregin frá heildinni kemur í ljós að framlög til flóabáta og vöruflutninga hækka í heild u. þ. b. um 45%. Er þá alveg litið fram hjá tapi því sem ég nefndi áðan á fyrri útgerð Herjólfs árið 1975, sem þó mætti vissulega taka með í heildarmyndina, ef hún væri sett fram í svolítið öðru formi.

Sá háttur var tekinn upp í fyrsta sinn í fyrra að birta skrána yfir úthlutun þessa fjár í fjárl. Verður svo gert nú. Ég sé því ekki ástæðu til að lesa úthlutunarskrána upp lið fyrir lið, menn hafa hana fyrir augum á þskj. 231 og væntanlega í komandi fjárl. ársins 1977.

Ég vík þá aðeins að því erindi, sem ég nefndi áðan í fáum orðum, frá Kaupfélagi strandamanna í Norðurfirði. Það væri ólíkt n. að gleyma þessum aðila í hinni afskekktu byggð. Og þó að við höfum ekki treyst okkur til þess að taka umsóknina til greina eins og farið var fram á, þá hygg ég að við höfum öll í samvn. samgm. verið á því máli að stuðla að afgreiðslu þessa erindis. En það er nokkuð sérstaks eðlis og fjallar í rauninni um endurbyggingu á uppskipunarbáti sem þeir hafa norður þar við hinar erfiðustu aðstæður.

Mér var sem formanni n. falið að koma þessu erindi á framfæri við annan aðila, og ætla ég — með leyfi hæstv. forseta — að lesa upp drög að því bréfi sem ég hef sett saman og skýrir málið að nokkru. Bréfið er til Byggðasjóðs:

„Reykjavík, 20. des. 1976.

Samvinnunefnd samgöngumála leyfir sér að senda yður ljósrit af bréfi Kaupfélags strandamanna, Norðurfirði, Árneshreppi, Strandasýslu, dags. 17. ágúst 1976, er sent var fjvn. Alþ. Bréf þetta barst til samvn. samgm. í ljósriti. N. hefur fjallað um málið eins og önnur erindi sem henni hafa borist. Hafa nm. fullan skilning á því að hlaupa þurfi undir bagga með fámennu og afskekktu byggðarlagi í þessu efni. En þar sem erindi þetta er sérstaks eðlis telur n. rétt að vísa því til Byggðasjóðs þar sem tækifæri ætti að gefast til að skoða þetta vandamál nánar, bæði að því er varðar stopular samgöngur og erfiðar aðstæður að öðru leyti. Vill n. fyrir sitt leyti óska eftir því að erindi þetta fái skjóta afgreiðslu.“

Þess skal getið að einn nm., Sverrir Hermannsson alþm., sem jafnframt er annar af tveim framkvæmdastjórum Byggðasjóðs (Framkvæmdastofnunar ríkisins), tók þátt í ofangreindri afgreiðslu málsins í n. er samþykkt var samhljóða.

Vona ég að okkur hafi þarna tekist að koma þessu erindi á framfæri við aðila sem muni sinna því vel og vandlega.

Samvn. samgm. vill nú sem fyrr ítreka ályktanir sínar frá fyrri árum þess efnis að umsækjendur sendi umsóknir sinar í tæka tíð á hausti hverju til n. ásamt glöggum skilagreinum um rekstur og hag, störf og áætlanir sínar á þessu sviði.

Svofelld till. frá Páli Péturssyni var samþ. shlj. í n., og ætla ég — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hana upp:

„Samvn. samgm. lýsir mikilli óánægju yfir því, að ályktun n. frá 18. des. 1975 um það, að áætlanadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins athugaði og gagnrýndi reikninga flóabátanna, sérstaklega hvað varðar launagreiðslur og annan útgerðarkostnað, hefur ekki verið framkvæmd. N. óskar mjög eindregið eftir því, að þessi athugun verði gerð, annaðhvort af Framkvæmdastofnun eða samgrn. Enn fremur verði gerður samanburður á fskj. og farmgjöldum bátanna. Telur n. algerlega óviðunandi að taka ákvarðanir um svo háar fjárveitingar oftar án þess að glögglega sé gengið úr skugga um það, að þessu fé sé skynsamlega varið og að fjárveitingar séu bráðnauðsynlegar vegna viðkomandi byggðarlaga.“

Þessari till. hefur þegar verið komið á framfæri við hæstv. samgrh. og samgrn.

Að venju er það skilyrði sett fyrir því að styrkur verði veittur og greiddur, að rekstri flóabátanna og annarra þeirra, er styrki hljóta, verði hagað þannig í samráði við rn. að þjónustan við landsbyggðina verði í senn hagkvæm og örugg.

Það náðist ekki full samstaða í n. um öll atriði. Tveir nm. undirrita álitið með fyrirvara, en heildartill. n. með hliðsjón af framansögðu er sú, að fjárveiting til flóabáta, snjóbifreiða, fólks- og vöruflutninga á fjárlagaárinu 1977 verði 152.5 millj. kr. og skiptist sú fjárhæð eins og greint er á þskj. 232 og ég gat um áðan og verður væntanlega, ef samþykki nær, birt í fjárl. 1977.

Ég hef þessi orð ekki fleiri, en vil að lokum þakka nm. góða samvinnu og vona að sem flestir megi nokkurs góðs af njóta.