20.12.1976
Sameinað þing: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1529 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

1. mál, fjárlög 1977

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég flyt hér tvær brtt. á þskj. 272.

Hin fyrri er um að þeir liðir í fjárlagafrv., sem gera ráð fyrir ákveðinni fjárveitingu í sambandi við járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði og einnig varðandi hafnargerð við Grundartanga, þessir liðir verði felldir niður. Þetta er í samræmi við það, að ég er á þeirri skoðun að það eigi ekki að ráðast í byggingu járnblendiverksmiðjunnar og þar af leiðandi eigi ekki að hefja þá hafnargerð við Grundartanga sem rætt er um að gera í sambandi við þá verksmiðjubyggingu. Ég þarf ekki að fara um þessa till. fleiri orðum. Afstaða okkar alþb.-manna í þessu máli er kunn og hún verður eflaust rædd hér ítarlega áður en langt um líður. En mér þótti rétt að flytja þessa till. til þess að fram kæmi við atkvgr. greinilega afstaða okkar til þessara fjárveitinga.

Þá er hin till. mín. Hún er um það að fjárveiting í svonefndan olíustyrk verði hækkuð frá því sem fjvn. gerir till. um. Fjvn. gerir till. um, að í olíustyrk verði varið á næsta ári 698 millj. kr. eða nokkru lægri fjárhæð en hefur gengið til þessa á þessu ári. Ég legg til að þessi fjárhæð verði hækkuð upp í 1050 millj. kr. Till. mín miðast við að styrkurinn verði hækkaður úr 9500 kr. á íbúa, sem hefur verið á þessu ári, í 15 þús. kr. á íbúa, en þá yrði heildarfjárhæðin 1050 millj. kr., af því að við það er miðað að þeir, sem eiga að njóta þessa styrks, verði í kringum 70 þús. á næsta ári. Mér sýnist að till. fjvn. sé miðuð við það að greiða nákvæmlega sama styrk á íbúa á næsta ári og hefur verið á þessu ári. Sé miðað við þennan fjölda, 70 þús. manns, eins og Þjóðhagsstofnun reiknar með, þá mundi greiðslan samtals, ef gengið er út frá 9500 kr. á íbúa, eins og er í ár, nema 665 millj. kr. En fjvn. gerir ráð fyrir 698 millj. eða 33 millj. umfram þessa fjárhæð, sem sennilega er þá ætlað til að styrkja rafveitur á svipaðan hátt og áður var. En mér þykir alveg augljóst að samkv. þessum upphæðum er ekki gert ráð fyrir neinni hækkun á þessum styrk þrátt fyrir þá hækkun sem orðið hefur á verði olíu og þrátt fyrir þá verðhækkun á olíu sem fyrirsjáanleg er enn til víðbótar við það sem orðið er. Till. mín gerir ráð fyrir því að það verði í fyrsta lagi tekið fullt tillit til verðhækkunar á olíu sem orðin er síðan síðasta greiðsluupphæð var ákveðin fyrir rétt um það bil einu ári, en auk þess verði styrkurinn nokkuð hækkaður. Ég tel að það hefði þurft að fara með þennan styrk úr 9500 kr. í rétt um það bil 12 000 kr. til þess að mæta til fulls þeirri hækkun á olíuverði sem orðin er og fyrirsjáanleg er. En ég geri ráð fyrir að nokkru meiri hækkun verði á þessum olíustyrk. Mér sýnist að það ásannist á þessum till. fjvn., að það verður ekki mikið traust í því að hafa þessa skipun á málunum. Það er sýnilegt að hér er að því stefnt að gera þessa greiðslu lítils virði. Það er greinilegt að það er verið að miða við það að draga þarna alveg í land. Af því hef ég flutt þessa till. Ég hef áður rökstutt þessa skoðun mína allítarlega hér og tel mig ekki þurfa að gera það frekar.

Það var ekki ætlan mín að hefja hér neinar almennar umr., hvorki í sambandi við afgreiðslu fjárl. í heild né aðra þætti sem hafa dregist hér nokkuð inn í umr. Ég veit að hér er svo knappur tími til stefnu að það er í rauninni engin aðstaða til þess að hefja slíkar umr. En ég vildi aðeins segja það í sambandi við það sem kom fram hjá hæstv. iðnrh., þar sem hann vék nokkuð að því sem hv. 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, hafði sagt fyrr í þessum umr., að ég tel að hann hafi ekki farið rétt með þegar hann gerði grein fyrir því, hvernig þau mál bar að sem hann ræddi um. Það er enginn vafi á því, að á árinu 1973, þegar olíuverðshækkunin skall yfir, var staðið að því á mjög eðlilegan hátt af þáv. iðnrh., Magnúsi Kjartanssyni, að láta gera með eins litlum fyrirvara og hægt var frumáætlun um það hvernig yrði brugðist við þessum vanda í sambandi við nýtingu á innlendum orkugjöfum í ríkara mæli en áður hafði verið.

Þær áætlanir, sem þá voru gerðar og birtar voru þm., — áætlanir sem Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsens gerði um málin, eins og þau lágu þá fyrir, gerðu að vísu ráð fyrir því að það mætti telja líklegt að um 2/3 hlutar landsmanna gætu í framtíðinni búið við jarðvarmaveitur til upphitunar húsnæðis, en hins vegar þyrfti í kringum 1/3 landsmanna að búa við rafhitunarkerfi. Þetta var eftir þeim bestu upplýsingum sem þá lágu fyrir, og það er vitanlega alrangt að segja, eins og hæstv. iðnrh. sagði nú, að það hafi verið einhver sérstök till. Magnúsar Kjartanssonar á þessum tíma að hita Akureyri t. d. upp með rafmagni, en ekki með jarðvarma. Það mátti lesa út úr þessum frumáætlunum Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens frá þessum tíma að kringumstæður væru þær, að Akureyri félli undir þann hluta landsins sem þyrfti að byggja á rafhitun að verulegu leyti. Síðari rannsóknir og athuganir á þessum málum hafa leitt annað í ljós á ýmsum stöðum, og það er vitanlega ekki neitt tilefni til þess fyrir fyrrv. og núv. iðnrh. að rífast um það hvað upp hefur komið í þessum efnum. Slíkt er í rauninni tómt mál um að tala.

Það er enginn vafi á því að það er rétt, að það væri full þörf á að við nýttum þá raforku, sem við framleiðum, betur í sambandi við upphitun húsa heldur en við gerum í dag. Það er enginn vafi á því að það er rétt, að við ættum að nota miklu meira af þeirri orku, sem kemur frá Sigöldu, til húsahitunar en nú virðist vera stefnt að. En við vitum að sú orka verður ekki notuð í ríkum mæli til húshitunar þar sem allar líkur benda enn í dag til að ekki verði hægt að koma við jarðvarmaveitum. Það verður ekki gert án þess að sinna dreifingarkerfinu allmikið umfram það sem ráð er fyrir gert nú. Við þurfum að leggja fram talsvert fjármagn í þessu skyni ef á að vera hægt að nýta raforkuna frá Sigöldu í allríkum mæli til upphitunar húsa.

En eins og ég sagði áður, ég ætla mér ekki að neinu ráði að fara að blanda mér í þær umr. sem hér hafa farið fram, hvorki á milli þeirra hæstv. iðnrh. og Magnúsar Kjartanssonar né annarra, fyrst og fremst vegna þess að ég veit að hér er enginn tími til slíkra umr., og því leiði ég það hjá mér. En ég vildi gera þessar aths. við það sem hæstv. iðnrh. sagði, því að mér fannst hann halla þar réttu máli í mörgum greinum.

Ég þarf svo ekki að hafa þessar umr. lengri af minni hálfu varðandi þær brtt. sem ég hef lagt fram. Ég hef þegar gert grein fyrir þeim.