25.01.1977
Sameinað þing: 41. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1636 í B-deild Alþingistíðinda. (1318)

40. mál, lagning bundins slitlags á þjóðvegi

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram í þessum umr., þá eru nú liðnir tveir mánuðir síðan þetta mál var hér síðast til umr. og þá kvaddi ég mér hljóðs. Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér þá hljóðs, var sú, að ég ætlaði mér, eins og áður hafði komið fram í mínu máli þegar ég ræddi málið, að víkja nokkrum spurningum að hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh., hafði enda farið fram á það áður að fresta þessu máli þar til þeir ágætu menn gætu verið hér viðstaddir, svo mjög sem þetta mál hlýtur í rauninni að snerta embætti þeirra. Það mun hafa verið af því að ég fór fram á þetta á sínum tíma að málinu var þá frestað. Ekki ætla ég að fara fram á þetta aftur, þó að hvorugur þeirra sér hér mættur, því að það er sýnilegt að það mundi sennilega aldrei takast að koma málinu í gegnum fyrstu umr. ef þeir ættu að vera hér á meðan málið er rætt, eða það virðist vera svo að þeir hafi ekki tíma til að hlusta á umr. eins og þessar.

Það er augljóst mál öllum, sem um þetta mál hugsa og ræða, að það er alveg tómt mál að tala um að hefjast handa um að leggja bundið slitlag á vegi landsins að nokkru ráði umfram það sem verið hefur nema til komi einhverjir nýir fjármunir til vegagerðarmála. Það er ljóst, að allir þm. hafa verið að kvarta undan því að undanförnu að of lítið fé væri fyrir hendi til nýbyggingar á vegum, enda vitum við að það hefur minnkað stórkostlega að framkvæmdagildi á síðustu árum. Vandinn í þessum málum er svo mikill að hæstv. samgrh. hefur ekki treyst sér til þess að leggja fram samgönguáætlun eða vegáætlun samkv. lögum enn þá, þannig að nú er senn liðinn heill mánuður af þessu ári þannig að engin vegáætlun er til og þar með engar formlegar fjárveitingar til vegagerðarmála, sem auðvitað fer í bága við lög. En ástæðurnar eru auðvitað þær, að fjmrh. treystir sér ekki til að leggja þessi mál fyrir þingið, því að hann veit að það skortir verulegt fé til þess að hægt sé að takast á við þau verkefni sem áður höfðu verið ákveðin.

Nú segja flm. þessarar till., að það vaki alls ekki fyrir þeim á neinn hátt að draga úr almennum vegagerðarmálum frá því sem verið hefur, þvert á móti, og þeir vilja ekki að samþykkt till. þeirra verði á neinn hátt til slíks. Þetta er auðvitað vel mælt af þeirra hálfu. En þá er auðvitað komið að þessu stóra máli: Hvernig á að afla fjár til viðbótar við tekjur Vegasjóðs nú til þeirra almennu framkvæmda, sem hann á að hafa með höndum, og hvernig á að afla viðbótarfjár til þess að reyna að sinna því verkefni sem till. fjallar um? Hvernig á að gera þetta ?

Hv. 1. flm. till., Ólafur G. Einarsson, gerði nokkra tilraun til að víkja að þessum þætti málsins þegar hann mælti fyrir till. Hann benti á að ríkissjóður tæki nú til sín allálitlega fjársummu á hverju ári sem skatt af umferðinni í landinu, og hann taldi að það kæmi vel til athugunar að taka nokkuð af þessum tekjum ríkissjóðs og verja þeim sérstaklega í sambandi við vegagerðarmál. Af þessum ástæðum, sem ég hef greint, vildi ég að það kæmi hér fram hver væri afstaða fjmrh. til þessara mála. Getur hann fallist á að taka þessa ábendingu til athugunar, eða segir hann þar nei við? Og ég vildi að sjálfsögðu einnig að hæstv. samgrh. svaraði einhverju til um þennan þátt málsins sem allt veltur á, þ. e. a. s. fjárhagshliðina.

Hæstv. samgrh. kom hér og flutti langt mál um till. og að mínum dómi tók hann marga fallega hringi í þessu máli. En hann kom alltaf niður á sama stað. Hann sagði ekkert um það hvernig ætti að fjármagna þessar framkvæmdir. Hann sagði að þetta væri gott mál, ágæt till., það bæri vitanlega að leggja bundið slitlag á vegina, það mætti ekki dragast o. s. frv. Þetta segja allir. Allir vilja fá bundið slitlag á alla vegi helst af öllu, a. m. k. einhvern talsverðan slatta af þeim. Það stendur ekkert á viljanum í þessum efnum. En það hefði verið nærri hæstv. samgrh. að minnast á það,fyrst hann er áhugamaður í þessu máli, hvernig á að afla fjár til verksins. Annars eru þessar umr. einskis virði. En þessir tveir ágætu ráðh. hafa tekið þann kostinn að vera fjarstaddir, þrátt fyrir beiðni þm. áður um að þeir væru hér viðstaddir og þeir ræddu hér um þetta mál. Hæstv. fjmrh. hefur valið þann kostinn að segja ekki eitt einasta orð, látast sem hann heyrði ekki og sæi ekki hvað hér fer fram. Og hæstv. samgrh. gerir þetta: hann dregur enn að leggja fram vegáætlun þrátt fyrir beina lagaskyldu, hann veit um öngþveiti sem er ríkjandi vegna fjárskorts í vegagerðarmálum í landinu, hann tekur undir þessa till. með almennum orðum, en minnist ekkert á þann vanda sem við er að glíma.

Ég hafði hugsað mér að segja ýmislegt fleira um þetta mál. Út af fyrir sig er þetta áhugavert mál. Ég vil mjög gjarnan vinna að því að hægt sé að framkvæma nokkuð af því, sem þessi till. fjallar um, og tel enda, að það sé aðkallandi að afla Vegasjóði meiri tekna en hann ræður yfir nú, til þess að hægt sé að sinna mjög aðkallandi verkefnum í vegagerðarmálum. En það er alveg tilgangslaust að standa hér og ræða um þetta mál á þann hátt sem gert er. Ég treysti mér ekki til þess að fara fram á að málinu verði enn frestað. Ég ætla því að hætta að ræða um málið, geri reyndar ráð fyrir að það geri aðrir líka. Till. fer þá væntanlega til n. Kannske tekst að tala þar við ráðh. alvarlega um málið og fá e. t. v. einhver svör hjá þeim. Fáist þau ekki, þá er þetta auðvitað alveg þýðingarlaust og tómt, hvort sem það verður samþ. eða samþykkt ekki, því að um það höfum við dæmin í sambandi við vegáætlun, að það dugir ekki einu sinni þó að það sé bundið í lögum. Menn treysta sér ekki til þess að fylgja þeim lögum á meðan þeir hafa enga peninga til framkvæmdanna.