26.01.1977
Neðri deild: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1668 í B-deild Alþingistíðinda. (1334)

146. mál, tékkar

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði að sér væri ekki kunnugt um að rannsóknin í Klúbbmálinu hefði tekið til óreiðu að því er varðaði launamiða, ef ég tók rétt eftir. Rannsóknin tók einmitt til bókhaldsóreiðu, og ég veit ekki hvað falli undir bókhaldsóreiðu ef það er ekki einmitt slík meðferð á launamiðum. Og hlutaðeigandi aðilar voru dæmdir einmilt fyrir bókhaldsóreiðu, annar í varðhald og hinn í allháa fjársekt. Það er misskilningur hjá honum að ekki hafi verið rannsakað einmitt þessi atriði.

Það er kannske misskilningur hjá honum hvernig háttað hafi verið áfengisflutningum í þetta hús. Ég held, eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið, að það gildi nokkuð sömu reglur um áfengisflutninga frá Áfengisverslun ríkisins til vínveitingahúsa. Hitt mun rétt vera, að það hafi fundist flöskur þarna sem voru ekki merktar, og það er að sjálfsögðu brot út af fyrir sig, formlegt brot, en þó kannske ekki stórkostlegt brot. En ég vil líka benda á að það, sem hann las upp úr minnisgrein vararíkissaksóknara, var skrifað við upphaf rannsóknar og segir ekkert til um hvað var rannsakað og hvað ekki. Þar er bent á atriði sem þurfi að rannsaka. Hv. þm. getur ekki staðhæft neitt um að það hafi ekki verið rannsakað, það sem þar var bent á. Það, sem ágreiningurinn var um og gert var mest veður út af í fyrravetur, var að Klúbbnum hafði ekki verið lokað. Það var það sem deilan stóð um.

Það er kannske rétt einu sinni enn að rifja upp sannleikann í þessu máli svo að hann gæti þá kannske að lokum komist inn í höfuðið á mönnum. Veitingahúsinu Klúbbnum var aldrei lokað af lögreglustjóra, það var alltaf opið. Það eina, sem gerðist, var að lögreglustjóri bannaði vínveitingar í Klúbbnum. Það hefur verið lögskýring mín að það væri ekki eðlileg ráðstöfun samkv. 2. málsgr. 14. gr. áfengislaganna, slíkt ætti aðeins að eiga sér stað sem öryggisráðstöfun. Ég hef t. d. gripið til þess þegar verkföll hafa staðið yfir. Það var það eina sem var nefnt í sambandi við þann tillöguflutning á sínum tíma af framsögumanni fyrir þeirri brtt., Héðni Valdimarssyni. Það voru Héðinn Valdimarsson og Stefán Jóh. Stefánsson sem fluttu þessa brtt. við 14. gr. á sínum tíma. Höfuðatriði þessa máls er því það, að þessi 2. mgr. 14. gr., sem var verið sí og æ að nefna, er réttaröryggisúrræði, en ekki rannsóknarúrræði. Rannsóknarúrræði eru í réttarfarslögunum, og samkvæmt þeim geta dómstólar ákveðið að veitingahúsum skuli lokað ef það er nauðsynlegt vegna rannsóknar.

En hvaða gildi hefði lokun fyrir vínveitingar haft í sambandi við rannsókn ef húsið væri eftir sem áður opið, allir gátu um það gengið og gerðu, bæði veitingamenn, þjónar og almenningur? Hvernig hefði það getað komið í veg fyrir það að t. d. einhverjum gögnum, ef því hefði verið til að dreifa, hefði verið skotið undan? Auðvitað voru gögnin tekin strax í vörslu rannsóknarmanna.

Það er þessi herfilegi misskilningur sem hefur komist inn í menn og virðist vera alveg ómögulegt að leiðrétta, hvernig þessu var háttað. Og menn vilja ekki skilja það enn.

Nú hefur verið dæmt í þessu máli og er hægurinn hjá sjálfsagt fyrir menn að fylgjast með þeim málsskjölum sem þar liggja frammi. Málið verður innan tíðar flutt í Hæstarétti. Allt, sem þar fer fram, er opinbert, og þar er gerður útdráttur úr skjölum sem þykja máli skipta, dómságrip svokallað. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson mun geta á sínum tíma kynnt sér það, og það vil ég ráðleggja honum að gera. Hitt vil ég aftur á móti ráðleggja honum, að byggja ekki jafnmikið á því og hann virtist gera að einhver hefði sagt sér þetta. Það var nefnilega kona sem iðkaði það að segja svona frá: „Ólyginn sagði mér.“ Það er hægt að hafa þann háttinn á. En hitt er betra, að leita, sannleikans í gögnum sem eru fyrir hendi, og það ætti þessi hv. þm. að gera. Svo vil ég segja það, að mér virðist að hann hafi verið furðufljótur að komast í hið pólitíska loftslag sem hann taldi mjög skaðvænlegt fyrir menn. Ég get ekki betur fundið en að hann hafi tileinkað sér það sem ágætur nemandi, eins og hann hefur ugglaust verið. En ég vil ráðleggja honum í einlægni, ef hann vill virkilega leggja þessum málum lið og taka þau alvarlega, að kynna sér þau með allt öðrum hætti og vandaðri heldur en hann hefur gert hingað til og byggja ekki á sögusögnum þeirra, sem þykjast eitthvað vita um mál af því að þeir hafi heyrt eitthvað um það á kaffihúsum eða á einhverjum öðrum stað, þar sem umr. fara manna á milli, eða jafnvel frá sakaráberum. Það hefur aldrei þótt traust að byggja á því sem þeir segja fyrsta kastið.

Rangar sakargiftir eru alvörumál. Þær varða ákaflega þungri refsingu. Það hefur komist á sú venja að þm. og þeir, sem í pólitískri baráttu standa, leiti ekki til dómstóla þó að bornar séu á þá ýmsar sakir. Ég býst við því að ég hefði æðioft getað leitað til dómstóla af því að það hafi verið bornar fram sannanlega rangar sakargiftir. Ég hef talið mér sæmra að reyna að standa fyrir máli mínu á þessum vettvangi og öðrum þar sem á hefur þurft að halda. Og ég er sannfærður um það, að ef hv. þm. tekur upp aðra starfshætti í þessu, þá verður hann miklu nýtari þm., — og hver veit nema hann geti þá gert sér von um að verða móðurskip á Vestfjörðum ef þau skyldu bila annars staðar?