17.02.1977
Sameinað þing: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2132 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

125. mál, sala Graskögglaverksmiðjunnar í Flatey á Mýrum

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 168 flyt ég till. til þál. um athugun á sölu Graskögglaverksmiðjunnar í Flatey á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu. Í till. er lagt til að ríkisstj. sé falið að rannsaka möguleika á að selja samtökum bænda í Austur-Skaftafellssýslu Graskögglaverksmiðjuna í Flatey á Mýrum.

Ég vil í upphafi leggja ríka áherslu á að hér er einungis lagt til að rannsaka möguleika á sölu verksmiðjunnar. Í stuttri grg. er bent á þá staðreynd, að framkvæmdin var fyrst og fremst fyrir frumkvæði heimamanna sjálfra, og sú eindregna skoðun flm. látin í ljós, að fyrirtæki sem þetta sé best komið í höndum þeirra.

Um langan aldur hefur íslenskur landbúnaður verið mjög fastmótaður. Hinar ytri aðstæður, svo sem landkostir, ræktunarkostir og veðrátta, hafa mótað landbúnaðinn að nokkru að staðháttum hvers byggðarlags. Þótt á síðari árum hafi átt sér stað mikil uppbygging og vélvæðing í landbúnaði, þá hefur fjölbreytni í framleiðslu hans á framleiðslustigi litt aukist. Í vinnslu og dreifingu hefur hins vegar átt sér stað mikil breyting. Vinnslustöðvar hafa verið reistar og iðnaður, sem fær hráefni frá landbúnaði, stóraukist. Það er svo mál út af fyrir sig, að hin mikla verðmætaaukning í landbúnaði hefur ekki síður komið þéttbýlinu til góða, þar sem verslun með vörur landbúnaðarins fer að mestu fram þar. Menn standa sem sagt gagnvart þeirri staðreynd, að umsvif í landbúnaði á síðari árum hafa ekki að marki lagfært byggðaþróunina í landinu. Sá þáttur verður þó ekki rakinn nánar hér, þótt erfitt sé að hugsa sér að til langframa verði litið fram hjá þessari staðreynd, heldur reynt að efla sveitirnar að nýjum verkefnum.

Í þessum efnum sem öðrum eru þó til undantekningar. Ný framleiðslugrein í landbúnaði hefur á síðari árum hafist til nokkurs vegs, en það er fóðuriðnaðurinn. Árið 1962 voru fyrstu grænfóðurverksmiðjurnar reistar, en þær voru, eins og kunnugt er, í Gunnarsholti, sem raunar má telja að hafi ekki hafið framleiðslu fyrr en 1963, og á Hvolsvelli. Síðan bættust við verksmiðjurnar í Brautarholti á Kjalarnesi litlu síðar og svo í Dölum vestur 1973, enn fremur þrjár litlar verksmiðjur til framleiðslu á heykökum: á Svalbarðsströnd, í Brautarholti á Skeiðum og Fjallafóður undir Eyjafjöllum, og síðast verksmiðjan í Flatey á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu sem till. þessi fjallar einmitt um.

Aðdraganda að byggingu verksmiðjunnar í Flatey er ótvírætt að rekja til þeirra ræktunarframkvæmda sem bændur í sýslunni höfðu unnið að, m. a. á félagslegum grundvelli, allt frá árinu 1962. Sú ræktun var stærri í sniðum en áður hafði þekkst, auk þess sem í landbúnaði í sýslunni náðist nú stórbættur árangur. Voru mönnum nú enn ljósari en áður hinir ákjósanlegu ræktunarkostir þar í sýslu. Er þá ótalið það sem mestu varðaði og réð raunar úrslitum um stofnun verksmiðjunnar, en það var hið mikla starf samtaka bændanna í sýslunni að vinna að framgangi málsins og síðar við upphaf framkvæmdanna, að taka að sér framkvæmd ræktunarinnar sem var auðvitað forsenda þess að verksmiðjurekstur gæti hafist.

Þessi fáu orð um aðdraganda að verksmiðjuframkvæmdum læt ég nægja til að sýna hvern hlut bændur í Austur-Skaftafellssýslu hafa átt að þeim framkvæmdum og þar af leiðandi hversu starfsemi verksmiðjunnar er eða a. m. k. ætti að vera nátengd störfum bændanna þar. Margir þeir, sem unnið hafa að uppbyggingu Flateyjarverksmiðjunnar, hafa lagt af mörkum gott starf, og meta verður það að verðleikum að verksmiðjan er nú komin í sæmilegt rekstrarhorf. En ýmsa og raunar marga erfiðleika og tafir, sem orðið hafa á hraða hinna einstöku verkþátta, er að rekja til þess eignarforms sem nú er á verksmiðjunni. Þar veldur þó þrennt mestu um: í fyrsta lagi það sem ég vil kalla hringdansinn í kerfinu, sem embættismennirnir slá undir af setningi, í öðru lagi takmarkanir á fjármagnsöflun sem bundnar eru við það eignarform, sem nú er, og í þriðja lagi og ekki síst, að ekki er eins hnitmiðuð forusta um framkvæmdirnar og þörf er á vegna fjarlægðar forustunnar.

Mér þykir ekki ástæða til að ræða þessa þætti frekar nú. Þar sem uppbyggingu verksmiðjunnar er að verulegu leyti lokið, ætti þessi skipan að gera starfseminni í Flatey minna til hér eftir en hingað til. Þótt reynslan af byggingu verksmiðjunnar í Flatey bendi ótvírætt til að heppilegra sé að slík fyrirtæki séu í eigu aðila í héraði, sýnist mér þó að röksemdir, er snerta framtíðina, séu enn ótvíræðari.

Það, sem kemur fyrst fyrir sjónir, er að hér er um landbúnað að ræða og fram til þessa hefur þótt best hæfa að hann væri í höndum bændanna sjálfra. Verksmiðjurekstur til fóðurframleiðslu og búskapur bændanna á það sammerkt að hann grundvallast á ræktun túna og grænfóðurakra. Því er það, að þar sem bændurnir hafa náð tökum á að rækta og uppskera fyrir eigin bú er þeim hægur vandinn að inna af hendi hliðstætt verkefni fyrir grænfóðurframleiðslu, og raunar er reynsla þeirra dýrmæt trygging fyrir að vel farnist í þeim efnum.

Oftlega hefur verið á það bent, að einhver tiltekinn atvinnuvegur eða framleiðslugrein gæfi færi á nýjum verkefnum á öðrum sviðum. Formaður Stéttarsambands bænda sagði nýverið frá því, að framleiðsla einnar fjölskyldu í landbúnaði fengi fimm fjölskyldum starf við sölu og vinnslu á framleiðsluvörum atvinnugreinarinnar. Að þessu ber mjög að hyggja varðandi verksmiðjuna í Flatey. Þegar slík framleiðsla er fjarri þéttbýli og vinnuafl því ekki tiltækt á staðnum væri æskilegt, ef unnt reyndist, að fá önnur viðfangsefni við hliðina á verksmiðjunni. E. t. v. gætu ýmis verkefni beinlínis átt þar samleið, t. d. viðgerðarþjónusta af ýmsu tagi, enn fremur ýmsar greinar létts iðnaðar. Þótt gengið sé út frá þeirri forsendu að ríkið skili verksmiðjurekstrinum skammlaust, er augljóst að það megnar ekki að laða fram önnur þau áform sem æskileg væru þar einnig. Slíkt getur ekki orðið með öðrum hætti en þeim, að heimaaðilar og þá sérstaklega sveitarfélögin sjálf hafi þar forgöngu um.

Enn er ótalinn sá þátturinn sem ég tel hvað mestan, en það er að samræma sjónarmið og hagsmuni framleiðandans og kaupandans. Á þetta vil ég leggja mikla áherslu. Þar kemur þá fyrst til athugunar verðlag á framleiðslu verksmiðjunnar. Þótt að baki kostnaði af slíkri framleiðslu séu margir þættir, mun þó hagkvæmni og vinnutilhögun valda mestu um þegar fram líða stundir. Með því að fá samtökum bænda slíkan rekstur í hendur verður um leið eðlilegt aðhald í rekstri verksmiðjunnar, þar sem sameinast í einum punkti sjónarmið bóndans, að framleiðslan verði verðlögð á því verði að hún reynist í búrekstri fjárhagslega hagkvæm, og framleiðandans að framleiða vöru sem tryggir verksmiðjureksturinn, en nýtur jafnframt trausts kaupandans.

Vera má að mönnum þyki sú till., sem hér liggur fyrir, ótímabær, þar sem mþn. skipuð af landbrh. hefur málið í heild til endurskoðunar og mun skila áliti bráðlega. Ég vil þó leggja áherslu á að þessu tvennu er óþarft að blanda saman, m. a. vegna þess að hér er einvörðungu rætt um eignarform á verksmiðjunni og nálegra útilokað að hugsa sér að breytt skipan í þeim efnum varðandi verksmiðjuna í Flatey geti gengið í berhögg við væntanlegar till. í þessum málum.

Að lokum legg ég áherslu á að sú till., sem hér er til umr., felur aðeins í sér könnun á hvort hugsanlegt sé að breyta um eiganda graskögglaverksmiðjunnar í Flatey. Auðvitað er jákvæð afstaða beggja aðila, þ. e. samtaka bænda í Austur-Skaftafellssýslu og ríkisins, forsenda þess að svo geti orðið. Afstaða þessara aðila hlýtur að mótast að undangengnum víðræðum milli þeirra um málið. Á það vil ég leggja áherslu, að sala er vart hugsanleg af hendi ríkisins, heldur öllu heldur afhending. Afhending eða sala ríkisins á fyrirtækjum, sem það hefur reist eða eignast með öðrum hætti, í hendur sveitarfélögum, samtökum heimaaðila eða einstaklingum er sú valddreifing sem ég álít að við eigum fyrst og fremst að leggja höfuðáherslu á nú.

Herra forseti. Ég vil svo leyfa mér að leggja til að þegar umr. verður frestað nú verði málinu vísað til atvmn.