22.02.1977
Sameinað þing: 55. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2245 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Hér er nú verið að fjalla um það mál sem þm. og raunar allir landsmenn hafa einna mestan áhuga á í sambandi við afgreiðslu mála hér á Alþ., því að sannast sagna eru vegirnir lífæðar byggðanna. Þess vegna er ekki óeðlilegt þó að menn ræði þessi mál, ekki síst þegar í ljós kemur að í sjálfu sér minnkar alltaf það fjármagn sem við höfum milli handanna til þess að byggja upp vegakerfið, sem er þó mjög lélegt, og sum staðar væri hægt að hafa enn sterkari orð um ástand sumra vega.

Ég var að hugleiða það í sambandi við þær áætlanir, sem hafa verið hér mjög til umr., þ. e. a. s. Austurlandsáætlun og Norðurlandsáætlun, hvernig þetta hefur lent hjá okkur í verðbólgunni. 1973 voru í Norðurlandsáætlun lagðar til veganna um 150 millj. kr. En ef framkvæmdamátturinn ætti að vera hinn sami nú mundi þetta vera í kringum 630–640 millj., miðað við það sem áætlað er að vísitalan verði á sumarmánuðum. Á þessu sjáum við hvernig þetta er að fara hjá okkur. Og ég verð að segja það, að ég sé ekki hvernig er hægt að ganga frá vegáætlun nú nema við finnum meira fjármagn til skipta heldur en sú áætlun, sem hér liggur fyrir, ber með sér,

Til stofnbrauta t. d. eiga að fara eftir áætluninni 1820 millj. kr. Ég held að það sé rétt að það sé skuld frá því í fyrra um 150 millj. Mér skilst að það muni þurfa að fara á milli 400 og 590 millj. í brúna yfir Borgarfjörð. Það voru á áætlun 390 millj., að mig minnir, á s. l. ári, og það væri ekki fjarri lagi að það þyrfti a. m. k. 500 millj. til þess að vera eitthvað líkt eða mundi varla duga. Þá sjáum við hvað verður eftir til skipta. Nú eru uppi kröfur um það, að mér finnst eðlilegar kröfur frá þm. Austurl., að það verði ekki horfið frá Austurlandsáætlun. Það voru 177 millj. í fyrra. Mér er líka spurn: Til hvers var verið að gera Austurlands- og Norðurlandsáætlun í vegagerð ef á raunar að stinga þeim hálfvegis undir stól? Þó að það færu ekki nema 100 millj. í áætlun Austurlands, sem ég geri ráð fyrir að þm. Austurl. muni finnast lítið, og 200 millj. í Norðurlandsáætlun, þá eru ekki eftir til skiptanna eftir þessari áætlun nema um 945 millj. kr. til annarra verkefna.

Hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson sagði áðan að happdrættisvegaféð hefði átt eingöngu að fara til vegarins til Akureyrar og Austurvegar, eins og það heitir. Það er alveg rétt. En þegar var fjallað um þetta mál og þegar málið í raun og veru stóð svo broslega, að hringvegurinn náði annars vegar til Egilsstaða og Akureyrar hins vegar, — það var hringvegurinn, ég hef aldrei heyrt um hringveg sem á væri þannig stórt bil, það var til þessara hluta á hringveginum sem þetta fé átti að ná til, þá ræddum við um það hér í þessum ræðustól fleiri en einn og fleiri en tveir, að það mundi þá verða reynt að færa til á Norðurlandsáætlun austar til þess að það kæmi ekki að sök, jafnvel þó að svona hjákátlega væri frá málinu gengið í n. Og eins og málið stóð, þá var það látið fara svona í gegn samt sem áður með það í huga að þetta væri gert. Og það var gert á áætluninni síðast, það var fært austur fyrir af þessum ástæðum, eins og ég veit við nánari athugun að hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson minnist.

Hv. þm. Halldór Ásgrímsson sagði áðan að það væri ekki nein Norðurlandsáætlun í síðustu vegáætlun, þ. e. a. s. áætluninni 1974–1977. Þetta er mikill misskilningur. Hér er auðvitað ný vegáætlun og við norðlendingar hljótum að leggja áherslu á að við þessa áætlun verði staðið, og í sjálfu sér þarf til þess bara fjármagn. Það þarf nýtt fjármagn í þessar áætlanir. Það er það sem þarf. Það þýðir auðvitað ekki að koma með till. á Alþ. um að byggja upp vegina og jafnvel að setja slitlag á þá ef ekki fæst meira fé en hér er búið að setja á blað. Samgönguáætlun Norðurlands til veganna, miðað við verðlag í ágúst 1975, nam rúmlega 6.6 milljörðum og mundi því verða nú, með því verðlagi sem er reiknað með í vegáætlun, upp á 10.4 milljarða, ef ég reikna rétt.

Ég legg áherslu á að við hverfum ekki frá þessum áætlunum, heldur verði reynt að finna leiðir til að fjármagna þær sérstaklega. Ég vil ekki ræða um hvaða leiðir við finnum til þeirra hluta. Þó að ég hafi jafnvel ákveðnar skoðanir á hvernig að því skuli staðið, þá tel ég ekki rétt að gera það hér og nú. En umfram allt, hvort sem sú leið eða einhver önnur yrði farin, þá skora ég á alla þm., — og ég veit að ef hæstv. samgrh. fær stuðning þm. til þess, þá muni hann áreiðanlega hafa forustu í því máli, — að reyna að fá meira fjármagn í þessa hluti, því að öllum er ljóst hvert stefnir ef þetta á að fara eins og nú horfir.

Einhver sagði áðan, og ég hugsa að það sé rétt, að framkvæmdaféð hafi minnkað um 20% í fyrra. Ég sé ekki annað en það sé a. m. k. 30% minna nú en í fyrra, miðað við þá verðbólgu sem hefur orðið. Ég sé ekki betur. Þarna á ég við fyrst og fremst framkvæmdaféð til stofnbrauta og þjóðbrauta.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, en vil leggja að síðustu áherslu á það, að ég sé ekki að það sé hægt að skipta þessu fjármagni öðruvísi en að fá verulega til viðbótar og það mundu ekki duga okkur hundruð millj. að mínu mati. Það þarf meira til.