23.02.1977
Neðri deild: 52. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2272 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

163. mál, atvinnulýðræði

Sigurður Magnússon:

Hæstv. forseti. Mig langaði lítillega að ræða þetta mál sem hér liggur fyrir um atvinnulýðræði. Ég ætla mér ekki að fara neitt efnislega ofan í þetta frv., heldur áskil mér rétt til að athuga það frekar ef ég fæ tækifæri til hér í þinginu. En ég vil láta það koma fram, að ég tel að hér sé góðu máli hreyft og að það verði ekki komist undan því hér á Íslandi að taka þessi mál til víðtækrar og alvarlegrar umr., eins og víða annars staðar í löndunum í kringum okkur. Ég vil þó segja það, að jafnvel þó að það frv., sem hér liggur fyrir, yrði að lögum, þá leysir það alls ekki allan vanda, leysir alls ekki þær mótsetningar sem eru á milli vinnunnar og fjármagnsins. Það gæti hins vegar verið spor í þá átt að verkafólki takist að eyða þessum mótsögnum og ná yfirráðum yfir vinnunni. Atvinnulýðræði, eins og ég skilgreini það hugtak, er ekki einungis takmarkað lýðræði til að hafa áhrif á stjórnun fyrirtækja, aðbúnað þeirra og vinnuaðstöðu, heldur fullkomið efnahagslýðræði þar sem verkafólk og vinnan stjórna fjármagninu og stjórna fyrirtækjunum og hafa eytt þessum mótsögnum. Einungis með þeim hætti höfum við skapað það ríki verkafólks og launafólks sem við sósíalistar a. m. k. viljum stefna að.

Ég vil líka benda á það, að jafnvel í löndunum hér í kringum okkur, sem hafa fyrir mörgum árum komið á hjá sér löggjöf af þessu tagi eða eitthvað svipaðri og haft hana árum saman, hefur ekki dregið úr völdum auðmagnsins í þessum löndum, jafnvel löndum eins og Svíþjóð, þar sem ég hygg að tilraunir hafi verið gerðar hvað mest með skipulag af þessu tagi. Hvergi í Skandinavíu eru til stærri og meiri auðfélög en í Svíþjóð, og það er vitað að þessi fyrirtæki eru í eigu fárra aðila og hafa mikil völd í þjóðfélaginu.

Ég lít svo á að fullkomið atvinnulýðræði og efnahagslýðræði, þ. e. a. s. að réttur vinnunnar til að stjórna fjármagninu og atvinnutækjunum, sé eitt af baráttumálum verkalýðsins um allan heim, — baráttumál sem verkalýðurinn mun fyrr eða síðar leiða til lykta. Og við skulum líta til baka. Hér á Íslandi er ekki nema rúmlega hálf öld síðan skipulögð verkalýðshreyfing hóf baráttu sína, og víða í Vestur-Evrópu er það ekki miklu lengri tími. Á þessu tímabili hafa margir sigrar unnist og verkalýðshreyfingin hefur unnið sér mörg réttlætismál. Það er tekið meira tillit til vinnunnar en áður var. Og það mun koma að því líka síðar, ef þetta þjóðfélag og mannlíf á yfirleitt að standast til lengdar, að vinnan mun stjórna efnahagslífinu og þjóðfélagskerfinu. Þau átök, sem við sjáum í okkar þjóðfélögum milli vinnunnar og fjármagnsins, eru í sjálfu sér ekki annað en þau átök sem eru í heiminum, einfaldlega hér í hnotskurn, átök milli fátækra og ríkra þjóða, þar sem auðugar þjóðir kúga hinar fátækari. Það ástand getur ekki viðgengist endalaust ef þessi heimur á yfirleitt að halda áfram að vera til.

Ég er því í sjálfu sér hlynntur að máli eins og þessu sé hreyft, þó að ég telji langt frá því að það leysi þan vandamál sem hér er um að ræða. Ég líka get þess, að ég tel að hugmyndir manna um að lausn fáist með því að laða saman fjármagn og vinnuafl séu um tómar gervilausnir. Við getum aldrei í sjálfu sér leyst vandann með því að kalla saman fulltrúa þessara tveggja aðila til þess að stjórna saman. Vinnan sjálf verður að fá að ráða fjármagninu.

Hér hafa komið fram hugmyndir um að þetta mætti leysa með ýmsu móti, jafnvel verið bent á að félög eins og almenningshlutafélög gætu verið spor í þessa átt. Ég vara við slíkum hugmyndum. Ég held að við nálgumst þetta markmið, að tryggja launþegum yfirráðarétt yfir vinnu sinni, á engan hátt með slíkum almenningshlutafélögum, því að hlutur hinna ríkari, þeirra sem fjármagnið eiga, verður alltaf stærri í slíkum félögum og þeirra verður yfirráðarétturinn. Þessar till., sem víða hafa komið fram og víða hafa breiðst út, eru einungis tilraunir fjármagnseigenda til þess að hefta þá þróun sem farið hefur af stað.

Hér á Íslandi og við okkar aðstæður er eðlilegast að félagshyggjumenn og verkalýðssinnar einbeiti sér að því að opinber rekstur, félagslegur rekstur og samvinnufélög verði látin ryðja brautina til þess að sanna kenningar okkar. Við eigum mikla möguleika til þess hér að gera það með þessum hætti. Það hefur verið vakin athygli á því hér í umr., að þessi rekstur er mjög sterkur þáttur í atvinnulífi á Íslandi. Opinber rekstur er tiltölulega meiri hér en gengur og gerist annars staðar, og sama er að segja um samvinnuhreyfinguna. Ég held að við félagshyggjumenn og verkalýðssinnar eigum að einbeita okkur að því að þróa þetta atvinnulíf í þá átt, að verkafólk öðlist fullkominn rétt yfir vinnu sinni.

Ég get sagt ykkur sem dæmi, að ég hef sjálfur af eigin reynslu tekið þátt í því 8 eða 4 ár að starfa í framleiðslusamvinnufélagi þar sem hópur einstaklinga í tiltekinni starfsgrein tók sig saman og stofnaði félag um vinnu sína. Við byrjuðum einir 20 rafvirkjar á þessu fyrir 4 árum og hófum störf 4 eða 5. Í dag standa að þessu milli 70 og 80 rafiðnaðarmenn á landinu, þeir munu vera í kringum 500–600 í allt, og í vinnu eru milli 30 og 40 félagsmenn. Þetta fyrirtæki er orðið hið stærsta sinnar tegundar á Íslandi. Þrjú ár eru ekki langur tími, en þetta litla dæmi og sú reynsla, sem ég hef fengið í þessu starfi, sannar mér að ef fólkið tekur sig saman um að stjórna vinnu sinni og ráða henni og skipuleggja hana og eiga arðinn af henni og skipta honum jafnt, þá er það hægt. Og um leið og ég hvet íslenska verkalýðshreyfingu til þess að taka í auknum mæli upp umræður um atvinnulýðræði og yfirráðarétt yfir fjármagninu og þreifa síg áfram með leiðir sem reynist farsælar til að ná þeim lokasigri sem verkalýðshreyfingin hlýtur að stefna að, þá vil ég sérstaklega vekja athygli verkalýðshreyfingarinnar á þessu félagsformi, því að ég held að það sé auðveld leið til þess að koma þessu baráttumáli fram.