01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2368 í B-deild Alþingistíðinda. (1753)

261. mál, rannsóknir á mengun í álverinu í Straumsvík

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það er sannarlega hryggilegt að heyra í skýrslu þá staðreynd, að atvinnusjúkdómar skuli vera orðnir áberandi í Straumsvík. Það er hins vegar öruggt, að það hefur hvorki vantað löggjöf né reglugerðir í þessu landi til þess að hamla gegn slíku. Hér hefur á einhvern hátt ekki verið haldið nógu fast á málum, hvar sem sök liggur ef hún er til. En eitt er víst og eitt er áberandi, og það er að á síðustu árum hafa allar rannsóknaraðferðir orðið miklu fullkomnari og þægilegra og auðveldara að finna fyrstu einkenni mengunar heldur en áður var. Sem dæmi um þær breytingar, sem orðið hafa, getum við tekið Kröflu. Ef sömu aðferðir væru notaðar og notaðar voru, fyrir nokkrum árum til að mæla jarðskjálfta, þá hefðum við aldrei orðið varir við neina af smáskjálftunum við Kröflu. Sama er um mengunarvarnir. Þetta verður fullkomnara með hverju árinu.

Nú er öllum orðið ljóst að ástandið í Straumsvík er hættulegt. Það er líklegt að sú staðreynd, að reynt var að fá íslensk hreinsitæki í Straumsvík, hafi orðið til að tefja framkvæmd þessa máls, og er illa farið að svo skuli vera. En eitt er víst, að nú verður ekki lengur við það unað að við verðum dregnir á asnaeyrum í þessu efni. Reyndar blasir sú staðreynd við okkur, að ef ekki er hægt að komast hjá því að þeir starfsmenn, sem í Straumsvík starfa, eigi fyrir sér mikla hættu á atvinnusjúkdómum, þá verður að gera alvarlegar tilraunir til að fá úr því bætt, jafnvel áður en möguleiki er á að koma upp hreinsitækjum á í allri verksmiðjunni.

Það var engin ástæða fyrir íslenska ráðamenn að óttast að hér væri ekki hægt að halda fólki heilbrigðu eins og gert er annars staðar í álverksmiðjum. Því er ekki við neinn að sakast að öðru leyti en því, að þeir, sem þessari verksmiðju stjórna, hafa dregið óhæfilega lengi að koma upp þeim tækjum sem nauðsynleg eru til að vernda heilsu fólks.