03.03.1977
Sameinað þing: 59. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2401 í B-deild Alþingistíðinda. (1792)

65. mál, tölvutækni við söfnun upplýsinga um skoðanir manna og persónulega hagi

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég er nú ekki í stakk búinn til þess að svara þessum sundurliðuðu spurningum hv. fyrirspyrjanda öllu meira en ég gerði á sínum tíma. En ég get þó gefið stutt yfirlit yfir það starf sem unnið er að í þessu sambandi.

Hann spurði að því, hvenær tölvunefnd hefði verið skipuð. Bréf til þessara nm. eru rituð 25. nóv. s. l. Staðið hafði til um nokkurn tíma að skipa n., en ég held að ég muni það rétt, að einn nm. var erlendis og náðist ekki til hans fyrr en um þetta leyti. Í erindisbréfi þeirra er tekið fram að þeim skuli falið að vinna að undirbúningi löggjafar um meðferð efnis í tölvum er varða einkahagi manna, þar með söfnun upplýsinga til varðveislu í tölvum, um varðveislu efnis í tölvum og um vernd gegn misnotkun slíks efnis, svo og um skyldur þeirra manna er starfa við rekstur á tölvum.

Ég gaf upplýsingar um það á sínum tíma, ef ég man rétt, hverjir eiga sæti í þessari n. Tveir þessara nm. sóttu ráðstefnu á vegum Evrópuráðsins um mánaðarmótin nóv.-des. þar sem til umr. var vernd einstaklinga gegn misnotkun upplýsinga, sem geymdar eru í tölvum, o. fl. Formaður n. fór skömmu síðar til Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs, þar sem hann átti viðræður við nm. í viðkomandi löndum.

Á fyrsta fundi, sem n. hélt, var ákveðið að úr því gífurlega upplýsingamagni, sem ritað hefur verið undanfarin ár, skyldi láta nægja að safna upplýsingum frá nágrannaþjóðunum, en þar liggja fyrir nál. bæði í Noregi og Danmörku, en í Svíþjóð voru sett lög árið 1973. Jafnframt var ákveðið að safna gögnum frá Þýskalandi og Bandaríkjunum, og reyndar ýmsum öðrum gögnum.

Á fundi n., sem haldinn var þegar álitsgerðir og lagafrv. annarra þjóða höfðu borist, var ákveðið að n. skipti með sér verkum, og hafa nm. síðan unnið samkv. því, þ. e. a. s. í fyrsta lagi að smíði lagafrv. og grg. með því, einn hefur tekið það að sér, annar hefur sérstaklega kynnt sér reynslu og till. annarra þjóða og reglur sem þar hafa verið settar, og sá þriðji hefur sérstaklega tekið að sér að huga að tæknibúnaði við tölvuvinnslu og öryggisbúnaði í því sambandi o. fl.

Síðar í þessum mánuði er von á til landsins sérfræðingi þeim í danska dómsmrn. sem stýrt hefur norrænni samvinnu á þessu sviði, og er þess vænst að n. geti átt gagnlegar viðræður við hann um áframhaldandi störf nefndarinnar.

Þess má geta, að í öðrum löndum hefur nefndarstarf staðið í mörg ár áður en endanlegt frv. til l. lá fyrir. Ég ætla nú samt að vona og mun fyrir mitt leyti leggja áherslu á það, að þessu verki verði hér hraðað svo sem kostur er, og það ætti að vera þeim mun auðveldara þar sem við góð gögn er að styðjast, þar sem eru þau frv. eða þær reglur sem settar hafa verið í flestum öðrum löndum. Ég get hins vegar ekki sagt ákveðið um það, hvenær n. muni ljúka starfi.

Ég hef að sjálfsögðu ekkert á móti því að af Alþingis hálfu sé gefin út viljayfirlýsing eins og sú sem felst í þeirri brtt., sem flm. hefur gert grein fyrir. Það er þó áreiðanlegt, að þrátt fyrir allt og þrátt fyrir reynslu annarra þjóða og þrátt fyrir gögn sem styðjast má við, þá er hér um mikið vandaverk að ræða, eins og ljóst er af því, að það hefur verið efnt til fundahalda og ráðstefna um þessi efni og fræðimenn bæði á sviði laga og á þessu tæknilega sviði hafa velt þessum málum mikið fyrir sér.