08.03.1977
Sameinað þing: 60. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2461 í B-deild Alþingistíðinda. (1845)

171. mál, tenging byggðalínu við orkuveitukerfi Skagafjarðar

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Fyrir nokkrum árum var lögð háspennulína frá Akureyri til Varmahlíðar til flutnings á raforku milli þessara landshluta og síðan sams konar lína frá Varmahlíð til Sauðárkróks. Línan til Varmahlíðar var hugsuð sem fyrsti hluti svonefndrar byggðalínu, og á þessum tengipunkti í Varmahlíð var þá fyrirhugað að reist yrði spennistöð þegar byggðalínan kæmi í notkun. Þróun þessa máls hefur hins vegar orðið á nokkuð annan veg. Byggðalínan til Akureyrar hefur verið tekin í notkun, en um leið og það gerðist var einfaldlega klippt á tenginguna frá byggðalínunni til Sauðárkróks vegna þess að þar var engin spennistöð komin. Orkuveitukerfi Skagafjarðar er því ekki í neinum beinum tengslum við orku þá sem byggðalínan flytur. Línan frá Varmahlíð til Sauðárkróks er sem sagt ónotuð með öllu og stendur þarna engum til gangs. Var þetta þó 25 km löng lína. Og sama gildir um þau mannvirki sem reist höfðu verið við Sauðárkrók til að taka við orku úr þessari átt, þau nýtast ekki nema að litlu leyti. Þarna er sem sagt um að ræða fjárfestingu upp á tugi millj., ef ekki á annað hundrað millj. á núgildandi verðlagi, sem nýtist alls ekki. Það er að vísu ekki svo, að Skagafjarðarveitan sé með öllu slitin úr tengslum við hið samtengda orkuveitukerfi Suður- og Norðurlands, því að lína liggur frá Laxárvirkjun í Húnavatnssýslum um Þverárfjall yfir til Sauðárkróks. En hér er um að ræða gamla línu, sem liggur yfir háan fjallveg, þar sem enginn vegur er að vetri til. Því er ljóst að í hörðu ári og illviðrum er mikil hætta á því, að þessi lína geti brotnað niður án þess að viðgerð verði við komið, og þá er sem sagt orkuveitukerfi Skagafjarðar algerlega einangrað og getur því verið mjög mikill vandi á ferðum ef slíkt gerist. Ég hef því leyft mér að leggja þá spurningu fyrir hæstv. orkumálaráðh., hæstv. iðnrh.: Hvenær tengist orkuveitukerfi Skagafjarðar við byggðalínu milli Akureyrar og Reykjavíkur með byggingu spennistöðvar við Varmahlíð?